Brynjar Vilmundarson hlaut Heiðursverðlaun félags hrossabænda
Á hrossaræktarráðstefnu fagráðs í hrossarækt hlaut Brynjar Vilmundarsson heiðursverðlaun félags hrossabænda. Hann lagði mikið til ræktunar íslenska hestsins með starfi sínu á hrossaræktarbúinu Feti.
Hér fyrir neðan má horfa á myndband frá afhendingu viðurkenningarinnar auk þess að lesa texta þann sem Þorvaldur Kristjánsson las við tilefnið.
Hér fyrir neðan er texti sem Þorvaldur Kristjánsson las upp við tilefnið:
Brynjar Vilmundarson er hrossaræktendum að góðu kunnur en hann stundaði hrossarækt um árabil á sínu glæsilega ræktunarbúi, Feti með frábærum árangri. Brynjar hafði auga og ástríðu fyrir allri ræktun en hann stundaði einnig árangursríka ræktun á sauðfé.
Upphaf hrossaræktar Brynjars má rekja til ársins 1983 þegar hann keypti stóðhestinn Merkúr frá Miðsitju en stuttu síðar keypti hann einnig stóðhestinn Kraflar frá Miðsitju. Þá eignaðist hann hlut í Orra frá Þúfu í Landeyjum en það má segja að á þessum hestum hafi Brynjar byggt sína hrossarækt.
Hann kaupir svo land austan við Rauðalæk í Rangárvallasýslu í kringum 1990 og hóf þá að byggja upp sitt hrossaræktarbú. Hann tók að viða að sér hryssum víða að, m.a. frá Hurðarbaki við Blönduós og Sigríðarstöðum í Fljótum og á undravert stuttum tíma í raun fór hann að ná
árangri svo eftir var tekið. Á þessum árum sem Brynjar stundaði hrossarækt á Feti ræktaði hann rúmlega 800 hross en hann seldi jörðina og hrossakostinn árið 2007. Hann var sem fyrr segir mikill ræktunarmaður og lagði áherslu á góða úrvinnslu hrossanna og grisjun stofnsins til áframhaldandi betrumbóta. Þar var afar farsælt áralangt samstarf hans við Erling Erlingsson sem sýndi marga gæðingana frá Feti á sínum tíma.
Af þeim hrossum sem hann ræktaði á Feti voru sýnd 278 hross í kynbótadómi eða 35% sem er afar hátt hlutfall á svo stóru ræktunarbúi og magnað afrek. Af þessum hrossum fóru tæplega 110 hross í fyrstu verðlaun. Hæst dæmda hrossið frá Feti er Bringa frá Feti en hún stóð efst í sex vetra flokki hryssna á Landsmóti í Reykjavík árið 2000. Þá var Landsmótið 1998 á Melgerðismelum sögulegt fyrir hrossaræktina á Feti en þar stóð Vigdís frá Feti efst í sex vetra flokki hryssna, fallegur alhliða gæðingur og í öðru sæti í sama flokki var Lokkadís frá Feti með 9,5 fyrir tölt meðal annars. Vigdís hlaut síðar heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Á sama móti stóð einnig Álsey frá Feti ofarlega í fjögurra vetra flokki hryssna. Þristur frá Feti vakti athygli á Landsmóti 2002 þar sem hann kom fram fjögurra vetra gamall með 9,0 fyrir tölt og varð fjórði í sínum flokki klárhesturinn. Þristur hlaut svo heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti í Reykjavík árið 2012. Á Landsmóti 2006 á Vindheimamelum stóð Vilmundur frá Feti eftirminnilega efstur í fimm flokki stóðhesta en hann hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti 2014 á Hellu.
María frá Feti stóð efst í sex vetra flokki hryssna á Landsmóti 2011 og Sigyn frá Feti á Landsmóti 2018. Mörg eftirminnileg og mögnuð hross frá Feti væri hægt að telja upp en dæmi má nefna um Jónínu frá Feti sem var mögnuð klárhryssa og hlaut á sínum tíma 10 fyrir tölt og þá var Surtsey frá Feti eftirminnileg í töltkeppni. Af þeim stóðhestum sem hlutu afkvæmaverðlaun frá Feti verður einnig að nefna Héðinn frá Feti sem hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi. Ef hryssurnar eru skoðaðar kemur í ljós að hvorki meira né minna en 11 hryssur frá Feti hafa hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í gegnum tíðina.
Það var afar ánægjulegt og lýsandi fyrir þá mögnuðu innkomu í íslenska hrossarækt sem Brynjar átti að árið 2007, árið sem hann hætti hrossarækt á Feti, hlaut búið titillinn
Ræktunarbú ársins en alls var Fet tilnefnt 12 sinnum til verðlaunanna Ræktunarbú ársins í tíð Brynjars og vann titilinn þrisvar sinnum. Þá var Brynjar eftirminnilegur á hestamótum með skeleggar skoðanir og afar hressilega framkomu og þá ekki síst fyrir rauðköflótta dúskhúfu sem hann bar um árabil. Árangur Brynjars í hrossaræktinni er eins og sjá má afar magnaður og áhrifa hans hrossaræktar mun gæta í íslenska hrossastofninum um ókomin ár.
Félag hrossabænda vill óska Brynjari innilega til hamingju með ævistarfið og það mikla uppbyggingarstarf í hrossarækt sem hann sinnti á Feti – innilega til hamingju!!
Brynjar Vilmundarson hlaut Heiðursverðlaun félags hrossabænda
Skagfirðingur hlýtur æskulýðsbikar LH 2025
Minningarorð um Ragnar Tómasson