Daníel og Bertha flytjast að Koltursey
Þau Daníel Jónsson og Bertha María Waagfjörð hafa fest kaup á Koltursey í Austur-Landeyjum og flytjast þangað búferlum á næstunni „Þetta er mjög áhugaverður staður og passleg stærð fyrir okkur. Við erum mest að þjálfa okkar eigin hross og fyrir okkar föstu kúnna. Það verður gaman að vera kominn aftur á Suðurlandið og í okkar eigin aðstöðu.“
Af nógu er að taka í hrossræktinni hjá þeim hjúum en hrossin þeirra eru ræktuð frá Efsta-Seli. „Þau helstu hross sem við verðum með inni í vetur og eru úr okkar ræktun eru t.d. þrír stóðhestar á fimmta vetri. Dalvar frá Efsta-Seli má þar fyrstan nefna, Landsmótssigurvegari í 4.flokki frá því ú sumar. Nátthrafn frá Efsta-Seli undan Spuna frá Vesturkoti og Drífu frá Miklagarðshestum og Gust frá Efst-Seli sem er undan Glampa frá Kjarrhólum og Lukku frá Efsta-Seli. Svo erum við með hryssu á 5.vetri, Fregn frá Efsta-Seli undan Glampa frá Kjarrhólum og Fíu frá Efsta-Seli. Við erum ekki með mörg hrossa á fjórða vetri en erum með einn efnilegan stóðhest á þeim aldri Flóka frá Efsta-Seli sem er undan Skaganum frá Skipaskaga og Fíu frá Efsta-Seli. Þá má nefna tvær 4.vetra hryssur Talíu, undan Veigari frá Skipaskaga og Ófelíu frá Nefsholti og svo Grímsey undan Apollo frá Haukholtum og Söru frá Horni. Svo eigum við stóðhesta á sjötta vetri sem fór í 1.verðlaun í sumar. Eldir frá Efsta-Seli sem er undan Eldingu frá Haukholtum og Rauðskegg frá Kjarnholtum.“
Daníel hefur verið hvað þektastur fyrir árangur sinn á kynbótabrautinni þar sem hann hefur verið meðal fremstu knapa um áratuga skeið en stefna þau á þátttöku í keppnisdeildum í vetur. „Daníel stefnir ekki á þátttöku í neinum deildum í vetur en það getur vel verið að Bertha taki þátt í einhverjum þeirra. Meginmarkmiðið er sett á sýningu kynbótahrossa næsta sumar og einnig keppni.“
Eiðfaxi býður þau velkominn á Suðurlandið og óskar þeim velgengni í leik og starfi.