„Draumur að rætast að fá að vera með í Meistaradeildinni“
Guðmar Hólm og Grettir frá Hólum. Ljósmynd: Gunnhildur Ýrr/Draumfaramyndataka
Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum hefst í næstu viku, fimmtudaginn 22. janúar, þegar keppt verður í fjórgangi. Meðal keppenda í vetur er Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal, liðmaður Ganghesta Margrétarhofs. Guðmar er einn af þremur nýliðum í deildinni og jafnframt yngsti knapinn sem tekur þátt í vetur, en hann verður tvítugur í september á þessu ári.
Guðmar segir það mikinn heiður að fá að taka þátt í Meistaradeildinni.
„Mér lýst mjög vel á að vera kominn í deildina, þetta er algjör draumur að rætast að fá að vera í liði í Meistaradeildinni. Ég man eftir því að horfa alltaf á pabba keppa í Meistaradeildinni á sínum tíma og ákvað þá strax að ég ætlaði að keppa þarna líka,“ segir Guðmar og bætir við að það séu forréttindi að fá að vera í deildinni með bestu knöpum landsins. „Ég hlakka mikið til vetrarins.“
Hestakostinn segir hann góðan og vel undirbúinn. „Ég er með hesta í nánast allar greinar og þetta eru hross sem ég er búinn að vera með í nokkur ár.“ Að eigin mati er hann sterkastur í fjórgangi, tölti og 150 metra skeiði.
Aðspurður um helstu áskoranir við keppni í Meistaradeildinni nefnir Guðmar bæði líkamlegan og andlegan undirbúning. „Helstu áskoranir eru að vera kominn með hrossin nógu snemma í mikil afköst og gott form, og að vera búinn að undirbúa andlegu hliðina bæði hjá mér og hestunum.“
Markmiðin eru þó skýr og jarðbundin. „Markmiðin hjá mér eru að geta gert góðar og fallegar sýningar.“
Að lokum sendir hann einföld skilaboð til áhorfenda Meistaradeildarinnar í vetur. „Sjáumst hress“!
EiðfaxiTV sýnir beint frá Meistaradeildinni og fjölda annarra viðburða Tryggðu þér ársáskrift að EiðfaxaTV strax í dag og vertu með frá upphafi keppnistímabilsins, því nóg er framundan!
„Draumur að rætast að fá að vera með í Meistaradeildinni“
Árni Svavarsson á Hlemmiskeiði látinn
„Hinn almenni reiðmaður verður líka að fá pláss“