Draupnir frá Stuðlum seldur til Þýskalands

  • 15. janúar 2021
  • Fréttir

Draupnir frá Stuðlum. Mynd: Liga Liepina

Draupnir frá Stuðlum er seldur til Þýskalands og mun hann fara af landi brott næsta haust. „Það að selja Draupni er ein erfiðasta ákvörðun sem við höfum tekið í hestamennskunni“  segja þau Ragnhildur og Haukur einum rómi, en þau eru helmingseigendur í Draupni ásamt ræktendum hans þeim Páli Stefánssyni og Eddu Björk Ólafsdóttur.

Fer á frábæran stað
Kaupendur Draupnis eru Anja Egger-Meier og Kronshof „Í gegnum tíðina höfum við nokkrum sinnum fengið tilboð í Draupni, en hann hefur ekki verið til sölu fram að þessu. Ákvörðunin um að taka því tilboði sem í hann kom núna hefur átt sér langan aðdraganda og mikla umhugsun og á sama tíma og við erum himinlifandi með það að hann fari á jafn góðan stað og raun ber vitni er ákvörðunin einnig tekin með trega og eftirsjá. Við munum þó áfram fá að njóta hans fram á haust þegar hann verður fluttur út til Kronshof þar sem hann mun sinna hryssum í framtíðinni og gleðja ræktendur í Evrópu í gegnum afkvæmi sín.“  Segja þau Ragnhildur og Haukur sem eru sannfærð um að hann muni hljóta gott atlæti á einu virtasta ræktunarbúi á meginlandi Evrópu, Kronshof.

Frá vinstri: Ragnhildur Loftsdóttir, Haukur Baldvinsson, Draupnir frá Stuðlum, Páll Stefánsson og Edda Björk Ólafsdóttir. Mynd: Eiðfaxi

Að okkar mati draumahestur
Draupnir er undan heiðursverðlaunahestinum Kiljani frá Steinnesi og gæðingamóðurinni Þernu frá Arnarhóli, sem hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi árið 2009. Hann kom fyrst fram árið 2015 þá fjögurra vetra gamall sýndur af Sigurði Vigni Matthíassyni og hlaut hann strax 1.verðlaun. Daníel Jónsson sýndi hann þegar hann var fimm vetra gamall á Landsmótinu á Hólum 2016 þar sem hann varð annar í þeim aldursflokki. Árni Björn Pálsson mætti með hann á Landsmótið í Víðidal 2018 og sýndi hann svo í sinn hæsta dóm árið 2019 þar sem Draupnir hlaut 8,74 fyrir sköpulag, 8,97 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,88 en þá var hann einnig hæst dæmda kynbótahross ársins. Draupnir á 233 afkvæmi skráð og von er á nokkrum tugum afkvæma hans næsta sumar. Draupnir er sá stóðhestur sem er með hæsta aðaleinkunn kynbótamats allra stóðhesta alls 133 stig. En hverjir eru helstu kostir hans og afkvæma hans að mati þeirra Ragnhildar og Hauks?

„Að okkar mati er Draupnir draumahestur. Geðslagið frábært og er hann algjörlega spennulaus og það getur í raun hver sem er riðið honum og er hann þá eins og hver vill hafa hann. Hann er með góð gangskil og mikið rými og er alltaf aðgengilegur bæði til mikilla afkasta sem og í rólegri reiðtúra og þjálfunarstundir. Þetta virðist hann erfa til sinna afkvæma sem má segja að séu eins og hann heiðarleg í geðslagi. Auk þeirra kosta búa þau yfir kostum hans í sköpulagi sem eru t.d. mikil fram- og fótahæð. Nú þegar hafa verið sýnd undan honum fjögur hross í kynbótadómi og þar af voru þrjár fjögurra vetra gamlar hryssur sýndar síðasta vor. Þar á meðal voru tvær úr okkar ræktun þær Drift frá Austurási, sem stóð efst í sínum aldursflokki á Landssýningunni, og Dagný frá Austurási sem er klárhryssa með 1.verðlaun. En þær voru báðar snilldarlega tamdar af Ástu Björns en hún og Lárus eru einmitt núna með sjö afkvæmi hans í tamningu austur í Árbæ og líkar vel.“

Draupnir frá Stuðlum, knapi er Haukur Baldvinsson. Mynd: Aðsend

Draupnir mun venju samkvæmt verða í húsnotkun á Austurási í vor og fara svo eftir það í girðingu að Árbæ í Holtum. En mun hann koma fram eitthvað á árinu í síðasta sinn á heimalandinu? „Það er aldrei að vita, við sjáum bara til hvernig veturinn þróast áfram en mest erum við ánægð með að geta áfram þjálfað hann í vetur og vor og notið samvista við þennan stórbrotna gæðing. Við vitum að við tölum einnig fyrir hönd vina okkar og meðeigenda í Draupni sem er fjölskyldan að Stuðlum en þar er hann að sjálfsögðu einnig í miklum metum.“

Eiðfaxi þakkar þeim fyrir spjallið og hlakkar til að fylgjast með framgangi Draupnis hér á landi í ár sem og á meginlandinu í framtíðinni.

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar