„Aðstæður voru til fyrirmyndar“
Fyrsta kynbótasýning ársins, þar sem hross eru sýnd í reið, fór fram í Verden í Þýskalandi nú í vikunni. Sýningin hófst með dómum á mánudag og var yfirlitið í gær, miðvikudag. Dómarar voru Marlise Grimm (DE), John Siiger Hansen (DK) og Arnar Bjarki Sigurðsson (IS).
Drift hæst dæmda hross sýningarinnar
Hæst dæmda hross sýningarinnar var Drift frá Austurási en hún hlaut fyrir sköpulag 8,42 og fyrir hæfileika 8,42 sem gerir 8,42 í aðaleinkunn. Það var Frauke Schenzel sem sýndi Drift en Frauke sýndi sjö hross á sýningunni. Drift er 8 vetra undan Draupni frá Stuðlum og Ekru frá Gullberastöðum og hlaut hún m.a. 9,0 fyrir brokk, bak og lend og samræmi. Ræktendur Driftar eru þau Haukur Baldvinsson og Ragnhildur Loftsdóttir en Drift er í eigu Önju Egger-Meier og Kronshof GbR.
Sextán hlutu fyrstu verðlaun
Alls voru 37 hross sýnd og þar af 33 í fullnaðardómi, 16 þeirra hlutu 1.verðlaun. Flest hrossin voru ræktuð í Þýskalandi (19) eða á Íslandi (15). Tvö voru ræktuð í Danmörku og eitt í Hollandi.
Dómstörfin voru góð
Þórður Þorgeirsson sýndi flest hross á sýningunni eða 14 talsins, þar af þrjú úr hans eigin ræktun þau Heiðar von Akurgerði, 5 vetra, sem hlaut 8,16 í aðaleinkunn, Ísak von Akurgerði, 7 vetra, sem hlaut 8,08 í aðaleinkunn og Auðnu von Akurgerði, 7 vetra, sem hlaut 8,01 í aðaleinkunn. Eiðfaxi heyrði í Þórði eftir sýninguna.
„Aðstæður voru til fyrirmyndar. Þegar dómstörfin stóðu yfir var ca. 16 gráðu hiti og frábært veður en í dag er 25-29 stiga hiti svo sumarið er komið hér í Þýskalandi. Sýningin gekk frábærlega, vallaraðstæður til fyrirmyndar og dómstörf góð. Ég var ánægður með samsetningu dómnefndarinnar. Gott að fá Arnar Bjarka inn sem fulltrúa yngri kynslóðarinnar.“