„Eilíf barátta að aðgreina stíga og fjármagna reiðvegi“
Mikil umræða hefur skapast á meðal hestamanna í kjölfarið á slysi sem átti sér stað síðastliðið mánudagskvöld og fjallað var um á vefsíðu Morgunblaðsins. Í fréttinni segir m.a. „Tvær konur höfðu verið í reiðtúr á reiðstíg þegar hestar þeirra fældust vegna hjólreiðafólks, með þeim afleiðingum að þær duttu af baki.“ Eiðfaxi hefur þær heimildir að önnur af konunum hafi slasast illa og að hún hafi þurft að gangast undir aðgerð á hrygg.
Unnið að gerð kynningarmyndbanda
Ljóst er að víða þrengir orðið að hestamönnum og að afþreying sem ekki á samleið með hestamennsku viðhafist í nágrenni við og jafnvel á reiðstígum. Eiðfaxi hafði samband við formann LH, Guðna Halldórsson, til þess að fræðast um hver staðan væri í samgöngu og öryggismálum.
„Í hvert skipti sem maður fréttir af hestaslysi verður manni brugðið og við hjá LH viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir þau. Eitt af fyrstu verkefnum nýrrar stjórnar var að koma á fót ferða- og öryggisnefnd, en henni er ætlað að að safna upplýsingum um hestaslys, kortleggja hvar og hvernig þau eiga sér stað og hvar skóinn kreppir helst í öryggismálum. Markmiðið með þessari vinnu er því að reyna að koma í veg fyrir árekstra á milli ríðandi umferðar og annarskonar umferðar og þannig takmarka slysahættu.“ Segir Guðni og á honum má heyra að honum er málið hjartfólgið og nú þegar sé mikil vinna í gangi á bak við tjöldin sem mun líta dagsins ljós fyrr en seinna.
„í þessum töluðu orðum er unnið að gerð kynningar-myndbanda, í samvinnu við umferðarstofu, sem ætlað er að auka skilning þeirra sem ekki þekkja atferli og viðbrögð hesta og hvernig eigi að haga sér í kringum ríðandi umferð. Myndböndin eru til þess gerð að koma öðrum útivistarhópum í skilning um þær hættur sem eru til staðar fyrir okkur hestafólk.“
Reiðvegamál eru ofarlega á baugi og í þéttbýli þrengir víða orðið mjög að hestamönnum. Hvað er til ráðs í þeim málum? „Það er eilíf barátta forystumanna í hestamennskunni að aðgreina stíga og fjármagna reiðvegi. Við höfum verið í sambandi við og stefnum á frekari fundi með samgönguráðherra, þar sem markmiðið er að sækjast eftir auknu fjármagni til reiðvegagerðar. Þá höfum við einnig fengið sæti í fagráði umferðamála hjá Umferðarstofu en það er einkennilegt að við hestamenn höfum ekki átt fulltrúa þar fyrr því þar sitja fulltrúar flestra annarra þeirra sem nýta sér samgöngur og á ég þar við gangandi, hlaupandi, hjólandi, vélhjólandi umferð o.s.frv. Vonandi verður okkur ágengt í því að tryggja betur öryggi hestamanna og tilveru rétt þeirra á þeim reiðstígum og reiðvegum landsins.“