„Ein geðþóttarákvörðun getur haft stór áhrif“

  • 1. febrúar 2024
  • Fréttir
Viðtal við afreksknapana Elvar Þormarsson og Viðar Ingólfsson.

Fulltrúaþing FEIF fer fram fyrstu helgina í febrúar í Lúxemborg. Á þinginu eru teknar ákvarðanir er tengjast Íslandshestamennskunni og liggja ýmsar tillögur fyrir í ár.

Ein af þeim tillögum er sú að í íþróttakeppni muni einkunnir allra dómara gilda. Það er töluverð breyting frá því sem verið hefur. Nokkur umræða hefur verið eftir að viðtal við Halldór Gunnar Victorsson formann hestaíþróttadómarafélags Íslands birtist hér á Eiðfaxa. Halldór var á móti tillögunni en taldi hann of litla umræðu hafa verið um málið og mörgum spurningum ósvarað.

Í kjölfarið var haft samband við nokkra knapa sem flestir voru að heyra af þessari tillögu í fyrsta skiptið. Viðar Ingólfsson og Elvar Þormarsson voru tilbúnir til að tjá sig um málið og voru þeir báðir mjög mótfallnir þessari hugmynd.

“Þetta er risastór breyting. Það sem mér finnst svo fallegt við þessa íþrótt og það að hæsta og lægsta einkunnin dettur út er að allir hafi þá möguleika á að gera mistök. Við erum að gefa fólki tækifæri á að dæma sem hefur mismunandi mikla reynslu og annað og þá þarf þessi regla að vera inni. Mér finnst þessi breyting vera segja okkur það að við séum komin með svo ofboðslega flinka dómara að það sé komið að þessu. En það er alls ekki þannig. Ég er alveg voðalega mótfallinn þessari hugmynd. Ég hafði ekki heyrt um þetta og fæ smá hnút í magann við tilhugsunina,“ segir Elvar Þormarsson sem er einn af okkar fremstu keppnisknöpum í dag.

Viðar Ingólfsson er einnig einn af okkar fremstu keppnisknöpum en ásamt því hefur hann einnig íþróttadómararéttindi. „Mér hryllir við þessu. Við erum ekki kominn á þennan stað að geta leyft okkur þetta. Dómaramálin í heild eru svo langt frá því að vera komin á þann standard að við getum boðið því fólki sem er að leggja á sig ómælda vinnu og jafnvel margra ára vinnu upp á það að ein geðþóttarákvörðun geti valdið því að fólk jafnvel tapi Landsmóti eða Heimsmeistaramóti,“ segir Viðar og bætir því við að fagleg þekking innan dómarastéttarinnar sé mjög langt frá þeim kröfum sem Íslandshestasamfélagið ætti að setja á hana.

„Það eru því miður alltof mörg dæmi um að fólk sem aldrei kemur nálægt þjálfun hesta og hefur litla sem enga þekkingu á þjálfun eða líkamsbeitingu hestsins dæmir stærstu mótin sem skipta mestu máli. Það virðist oft á tíðum ekki vera neitt sama sem merki milli frammistöðu dómara og á hvaða mót þeir eru settir. Tek sem dæmi að fyrir Heimsmeistaramót virðist öllu máli skipta hvað dómarar hafa náð mörgum dögum við dómstörf en virðist ekki hafa neitt með það að gera hvernig þeir standa sig á mótinum sem þeir hafa verið að dæma. Það þarf verulega að fara þróa einhvert eftirlitskerfi sem hefur aðhald og metur störf dómara. Við eigum mjög stóran hóp af góðum og faglega sterkum dómurum hvort sem það er á Íslandi eða erlendis en það er ekki endilega fólkið sem dæmir stærstu mótin þegar mest er undir.“

Viðar tekur undir með Elvari að allir geri mistök og það sé eitthvað sem alltaf mun gerast því sé svo mikilvægt að vera með kerfi sem grípur þau. „Ég þekki það bara sjálfur af eigin raun að vera dómari og átta mig á því þegar að tölurnar koma upp að sennilega hafi ég verið alltaf of lágur eða alltof hár. Að hafa kerfi sem leiðréttir þig og bjargar því að mistökin sem þú gerðir valdi því ekki að tiltekin knapi hafi ekki komist í úrslit eða hann hafi ekki unnið vegna rangrar ákvörðunnar þinnar er frábært kerfi. Í 80- 90% tilvika held ég að það skipti engu máli hvort tölurnar séu einni eða hæsti og lægsti detti út en í hinum 10-20% geta stór mistök haft gríðarleg áhrif og jafnvel eyðilagt margra ára vinnu og undirbúning knapa og hesta.“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar