Þýskaland Eldur seldur til Þýskalands

  • 5. október 2022
  • Fréttir
Það bætist í stóðhestaflóruna á meginlandinu

Heiðursverðlauna hesturinn Eldur frá Torfunesi heldur til Þýskalands á morgun. Eldur hlaut heiðursverðlaunin á Landsmóti í sumar en hann er með 119 í aðaðleinkun kynbótamats og 51 sýnt afkvæmi, 25 af þeim hafa hlotið fyrstu verðlaun. Nýr eigandi Elds er Barbara Günther sem býr á Gestüt Prachtwald í Þýskalandi.

Eldur hlaut á sínum tíma fyrir sköpulag 8,61 (þ.á.m. 10 fyrir prúðleika) og 8,59 fyrir hæfileika (9,5  fyrir brokk og 9,0 fyrir tölt, vilja og geðslag og fegurð í reið) sem gerir 8,60 í aðaleinkunn. Hann er sonur Máttar frá Torfunesi og Eldingu frá Torfunesi.

Eldur hefur skilað ágætum afkvæmum en m.a. í hópi þeirra er Skálmöld frá Þúfum sem hefur vakið mikla athygli á keppnisvellinum undanfarin ári undir stirkri stjórn Mette Mannseth. Hæst dæmda afkvæmi hans er Hremmsa frá Álftagerði III en hún hlaut fyrir sköpulag 8,43 og fyrir hæfileika 8,89 sem gerir 8,73 í aðaleinkunn.

Ræktendur í Þýsklandi og Evrópu geta glaðst yfir enn einum afkvæmahestinum sem bætist í stóðhestaflóruna á meginlandinu.

Hér fyrir neðan er hægt að sjá afkvæmaorð Elds þegar hann hlaut heiðursverðlaunin í sumar:

„Afkvæmi Elds eru hlutfallarétt og sívalvaxin hross í meðallagi að stærð með svipgott höfuð. Hálsinn er reistur og mjúkur við háar herðar, lendin er öflug en baklína mætti stundum vera hærri. Fætur eru afar traustir, þurrir og prúðir með öflugar sinar en nágengir að aftan. Hófar eru efnismiklir en stundum víðir og þau eru afar prúð á fax og tagl. Töltið í afkvæmunum er mjúkt og rúmt en mætti vera virkjameira á hægu. Brokkið er takthreint og skrefmikið og skeiðið öruggt og skrefmikið sé það fyrir hendi. Stökkið er rúmt en oft sviflítið, hæga stökkið er burðarlítið, fetið er takthreint. Eldur gefur sterklega byggð hross með trausta og yfirvegaða lund en viljinn er ekki snarpur. Þau eru prúð í fasi og mjúkgeng reiðhross með góðan höfuðburð og hlýtur Eldur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fimmta sætið.“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar