Ellert frá Baldurshaga heiðraður

  • 6. janúar 2024
  • Fréttir

Hrossaræktarsamtök Suðurlands heiðruðu á haustfundi Fagráðs í hrossarækt í desember síðastliðnum Ellert frá Baldurshaga með bikari fyrir að bera inn í íslenska hrossastofninn nýjan erfðaþátt sem veldur svokölluðu ýruskjóttu mynstri. Þetta er mynstur sem ekki hefur verið til í íslenskum hrossum áður.

Það var Páll Imsland og Eggert Helgason sem afhentu aðstandendum Ellerts bikarinn fyrir hönd Hrossaræktarsamtaka Suðurlands.

„Það er eitt af markmiðum í ræktun íslenska hestsins að viðhalda erfðabreidd hans. Framkvæmd ræktunarinnar stuðlar þó í raun alltaf að þrengingu hennar og því er það mikill viðburður þegar eitthvað gerist sem í raun eykur erfðabreiddina innan stofnsins. Svo er það þess utan nánast heimssögulegur viðburður þegar stökkbreyting af þessum toga á sér stað í húsdýrastofni.

Ellert er vel ættaður hestur, undan Sæ frá Bakkakoti og Kengálu frá Búlandi, sem átti Kolfinn frá Kjarnholtum að afa í báðar ættir. Ellert er líka góður hestur, fyrirmyndar reiðhestur og sýndur upp á 8,27 fyrir kynbótadómi, 8,12 fyrir hæfileika og 8,56 fyrir sköpulag. Hann er einstaklega geðgóður og meðfærilegur hestur.

Nú er búið að rækta út af Ellerti í nokkur ár og fyrstu afkomendur hans í annan lið litu dagsins ljós á síðastliðnu sumri og þar kennir skemmtilegra grasa, m.a. hinna sjaldgæfu varteikna. Það sem undan Ellerti hefur komið lofar góðu um framhaldið. Ýruskjótta mynstrið skilar sér í afkvæmum Ellerts í um 50% tilvika og hann á nú um 170 afkvæmi sem skráð eru í Feng. Það þýðir að nú þegar eru tæp 100 ýruskjótt hross komin fram, fyrir utan þau sem fæddust árið 2023, en þau eru ekki enn komin í Feng. Langflest eru afkvæmi hans fædd á Íslandi.

Ellert er af þessum sökum öllum virkilega vel að verðlaunum kominn,“ segir Páll Imsland.

Baldur Eiðsson ræktandi og eigandi Ellerts tekur hér á móti bikarnum en Eggert Helgason afhenti bikarinn ásamt Páli Imsland.

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar