Elvar stefnir ótrauður á Heimsmeistaramót
Framundan á næsta ári er Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Sviss. Landsliðhópar Íslands fyrir komandi tímabil hafa verið tilkynntir, þó að sjálfsögðu þar geti orðið breytingar á fram að móti og endanlegt lið liggur ekki fyrir. Ljóst er þó að nokkrir knapar eiga rétt á þátttöku í mótinu sökum þess að þeir urðu Heimsmeistarar á síðasta móti. Eiðfaxi ætlar að taka hús á þeim núna á næstu misserum og athuga stöðuna fyrir næsta ár.
Elvar Þormarsson varð eftirminnilega tvöfaldur Heimsmeistara á síðasta móti á Fjalladís frá Fornusöndum þar sem þau unnu bæði gæðingaskeið og 250 metra skeið. „Síðasta ár var algjörlega frábært. Ég náði því að ofmetnast ekki of mikið við þennan árangur og halda áfram að vera bara ég.“
Elvar stefnir til leiks með stóðhestinn Djáknar frá Selfossi sem verður á næsta ári 10.vetra gamall og er undan Arion frá Eystra-Fróðholti og Diljá frá Hveragerði. Hátt dæmdur hestur í kynbótadómi með 8,62 í aðaleinkunn og þess til viðbótar hafa þeir saman náð góðum árangri í keppni. „Markmiðin mín með Djáknar eru að ná að toppa hann næsta sumar og ná okkar besta keppnistímabili. Þetta gekk allskonar hjá okkur í sumar sem var mjög lærdómsríkt fyrir mig þar sem ég var að prófa mig áfram með ýmsilegt. Ég stefni fyrst og fremst á þátttöku í fimmgangi, hann er að vísu nokkuð góður líka í slaktaumatölti en til að gera atlögu að samanlögðum heimsmeistaratitli í fimmgangsgreinum þyrfti ég að bæta við skeiðgrein, sem ég er ekki viss um að ég geri.
Það má segja að undirbúningstímabilið fyrir næsta sumar sé að hefjast en hvernig sér hann vetrarþjálfunina fyrir sér. „Ég ætla að sækja mér utanaðkomandi aðstoð við þjálfunina á Djáknari til þess að hafa aðhald við þjálfun hans og uppbyggingu. Ég fer í hæstu hillu í þeim efnum því Anton Páll Níelsson ætlar að aðstoða mig. Ég stefni því að því að ná okkar hæstu einkunn í fimmgangi á réttum tíma á HM og þá getur allt gerst.“
Við þökkum Elvari fyrir spjallið og óskum honum velgengni í undirbúning HM.