“Enn og aftur kemur í ljós að engar reglur eru í deildinni”

  • 9. september 2021
  • Fréttir
Páll Bragi ósáttur með aðgengi nýrra liða í Meistaradeildina í hestaíþróttum.

Páll Bragi Hólmarsson setti inn stöðufærslu á facebook í morgun í kjölfarið á umfjöllun um lið Þjóðólfshaga / Sumarliðabæjar í Meistaradeildinni í hestaíþróttum. Þar lísti hann yfir óánægju sinni með skort á reglum hjá deildinni um aðgengi nýrra liða í deildina. “Enn og aftur kemur í ljós að engar reglur eru í deildinni. Þar sem að lið Gegnishóla er hætt þá ætti að vera laust til umsóknar fyrir nýtt lið. Nei það er aldeilis ekki þannig einn liðsmaður úr því liði fær að búa til nýtt lið og enginn fær tækifæri til að reyna að komast inn. Svona vinnur meistaradeildin, reglulaust lokað eiginhagsmuna apparat.” segir Páll í færslu sinni en telur hann deildina vera missa allan trúverðugleika sinn og sé greinilega eingöngu fyrir útvalda.

Í hverju liggur þetta ósætti?

Það liggur fyrst og fremst í því að ég lít svo á að þegar eitt lið hættir að þá þurfi að sækja um fyrir nýtt lið eins og mér hefur verið tjáð alla tíð sem ég hef sótt um fyrir lið. Í þessu tilfelli virðist það ekki vera bara liðinu breytt, nafni og öllu. Það fyrst og fremst er ég ósáttur við. Það virðist ekki vera neinar reglur um það hvernig hægt er að sækja um að komast í deildin með lið.

Þú ert ekki sammála því að þetta séð breytt lið Gangmyllunar?

Mér finnst það klárlega ekki. Ef að Gangmyllan hefði sent inn tilkynningu um breytingu á liði þá jú. En þar sem Gegnishólar hafa gefið það út að þau séu hætt með sitt lið. Þá finnst mér þetta ekki lið Gegnishóla. Þetta er bara nýtt lið.

Hvernig hefði þú vilja sjá að staðið væri að hlutunum?

Ég hef alltaf verið að kalla eftir því að deildin setji fram skýrar reglur um þetta. Það eru engar skýrar reglur um þetta og það virðist ekki vera hægt að fá skýr svör við því hvernig hægt sé að sækja um. Ég hef alltaf litið svo á að ef að losni pláss fyrir eitt lið þá sé hægt að sækja um, eitt eða fleiri. Það þarf að liggja fyrir þá hvernig valið er inn, er dregið um það eða keppni eða eitthvað annað. Það þarf að liggja fyrir.

Sóttir þú um í ár?

Nei sótti ekki um í ár.

Hver var ástæðan fyrir því?

Við sóttum um í fyrra og fékk þannig afgreiðslu að ég hafði ekki áhuga í ár. Það voru engar skýrar reglur um það hvernig væri hægt að sækja um og hvernig þetta væri metið. Það endaði þannig að þáverandi stjórn mat okkur eftir sínum geðþótta um hver væri hæfastur til að vera í deildinni. Okkur var hafnað í fyrra. Það eitt og sér er allt í lagi en rökin á bakvið það halda hvergi. Það er ekkert mál að taka því að vera hafnað en þetta var ákveðið inn á stjórnarfundi hjá þeim. Eingöngu persónulegt mat.

Ef þetta hefði losnað núna, hefðir þú þá sótt um lið?

Við vorum saman í þessu í fyrra við og Snorri Dal og fjölskylda með Sportfáka, Austurkot / Sportfákar hefði liðið átt að heita. Mér finnst það mjög líklegt að ef það hefði verið auglýst laust til umsóknar að við hefðum látið vaða aftur. Mér finnst það mjög líklegt. Maður hefði vonað að það væri búið að setja einhverjar reglur. Það lægi fyrir hvernig væri staðið að hlutunum ef tvö eða fleiri lið sóttu um þáttöku. Það er búið að loka hurðinni svo oft á okkur. Ekki í fyrsta skipti sem maður fær svona meðferð eins og í fyrra þannig að maður er ekkert spenntur fyrir því að sækja um í ár á þessum sömu forsendum. Að fara í þessa lottóvél aftur.

Eitthvað fleira sem þú vilt koma á framfæri?

Auðvitað er deildin sem slík frábært fyrirbæri. Hef verið í deildinni áður, fylgst með og dæmt en það er engin íþróttagrein sem að hagar sér svona. Það er engin meistaradeild í knattspyrnu eða handbolta svona lokuð. Það er alltaf verið að keppa um árangurinn. Ég myndi vilja sjá það gerast. Það ætti að vera svo að botnliðin þyrftu að berjast um það að vera áfram í deildinni við önnur lið sem vilja komast að.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<