Eru keppnisreglur LH/FEIF öðruvísi fyrir útvalda?

  • 2. febrúar 2024
  • Aðsend grein
Aðsend grein frá Jóni Þorbergi Steindórssyni dómara og fyrrum nendarmanni í keppnisnefnd LH

Ég undirritaður fyrrverandi fulltrúi í keppnisnefnd LH hef ákveðið að koma á framfæri hér upplifun minni af vinnubrögðum keppnisnefndar LH og stjórnar LH. Vinnubrögð sem ég tel forkastanleg og leiddu til þess að sá mig knúinn til þess að segja mig úr keppnisnefnd LH og hef þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir ekki fengið nein svör við fyrirspurnum mínum frá stjórn LH varðandi þau mál sem um ræðir og verða rakin hér í þessu bréfi.

Upphaf málsins má rekja til fundar keppnisnefndar LH sem haldinn var þann 15. maí 2023. Á fundinum efndi sviðsstjóri afreks og mótamála LH óvænt til óundirbúinar umræðu um yfirferð á innsendum mótaskýrslum vorsins frá aðildarfélögum sambandsins. Hann hafði einhverra hluta vegna rekið augun í skýrslu frá hmf. Sörla um þriðja vetrarmót félagsins sem kennt er við Sjóvá og var haldið þann 19.april 2023. Á mótinu var m.a.keppt í 100 m skeiði og í skýrslunni eru aðeins þrir dómarar skráðir til starfa en fjóra þarf til þess að árangur keppnisgreinarinnar teljist löglegur. Engu að síður hafði árangur á mótinu verið skráður löglegur og færður inn á stöðulista í WF. Á því leikur klárlega enginn vafi að grein getur ekki talist lögleg nema framkvæmd standist keppnisreglur, um það verður ekki deilt.

Fyrir mitt leyti túlkaði ég það ekki þannig að við værum á þessari stundu sem nefnd að taka ákvörðun um að gengið yrði í það að ógilda árangurinn með þeim hætti sem ég kem að hér á eftir og engin bókun færð um þetta mál í fundargerð nefndar.

Sviðsstjórinn tekur af skarið

Þann 16. maí 2023 hringir sviðsstjóri afreks og mótamála LH í framkvæmdastjóra hmf. Sörla og fullyrðir í því samtali að framkvæmd 100 m. skeiðs á þessu móti sé ekki lögleg. Yfirdómari mótsins hefur veður af þessu og sendir erindi á skrifstofu LH sem var áframsent þaðan á keppnisnefnd. Í bréfinu staðfestir yfirdómari mótsins að þrír dómarar hafi séð um hlaupagæslu auk fjórða manns sem var án dómararéttinda, en sá aðili hefði áratuga reynslu af sýningum og keppni. Yfirdómarinn viðrar auk þess áhyggjur sínar af mótahaldi almennt á landsbyggðinni ef satt reynist að nauðsynlegt sé að hafa fjóra dómara við hlaupagæslu í 100 m. skeiði. Því oft sé keppt í þeirri grein á mótum þar sem jafnan starfa þrír dómarar.

Þessar vangaveltur yfirdómarans leiddu til þess að ég skoðaði fleiri mót sem fram fóru síðar um vorið 2023 og gat ég ekki betur séð en skv. innsendum mótaskýrslum voru mót sem haldin voru á Hólum, Sleipni og Spretti ólögleg á sömu forsendum og áðurnefnt mót í Hafnarfirði. Þessum upplýsingum kom ég á framfæri við keppnisnefnd LH og spurði hvort ekki væri tilefni til þess að senda út einhvers konar tilkynningu til að hnykkja betur á þessum reglum sem vörðuðu skeiðgreinarnar.

Keppnisnefndin vaknar

Engin viðbrögð urðu við þessum ábendingum mínum en fimmtudaginn 1. júní 2023 sendir  þáverandi formaður keppnisnefndar skilaboð á hópinn um að brýnt sé að afgreiða þetta mál sem komið hafði upp í Sörla og var reifað hér að ofan. Formaður nefndarinnar vísar í reglur þar sem kemur skýrt fram að aðeins dómarar (íþrótta-, gæðinga- og kynbótadómarar FEIF) með réttindi geti verið hlaupagæslumenn. Af þeim sökum sé umrædd grein hja hmf. Sörla á þriðja vetrarmóti ólögleg og árangur knapa geti því ekki gilt inn á stöðulista WF. Því leggur formaður nefndarinnar það til að óskað verði eftir því við hestamannafélagið Sörla að leiðrétta mótaskýrsluna og merkja viðkomandi keppnisgrein í 100 m. skeiði ólöglega. Föstudaginn 2. júní er búið að strika út árangur í 100 m skeiði á mótinu af stöðulista WF. Hver gerði það?  Og af hverju lá svona svakalega á þessari afgreiðslu?

Nú er það svo að keppnisnefnd LH er leiðbeinandi i túlkun á lögum og reglum er varða keppnina en hefur aldrei haft vald til þess að fella úrskurð með slíkum hætti eins og var gert í þessu máli og nefndarformaður lagði til. Aga og úrskurðarnefnd LH ber að fjalla um mótaskýrslur og úrskurða sé um brot á reglum, framkvæmd móta og öðru slíku. Þetta er nú eitthvað sem að ég hélt að stjórn LH og keppnisnefndarfólk vissi eftir að mál nefndarmanns í keppnisnefnd LH hafði farið alla leið fyrir dómstól ÍSÍ árið 2021.

Reglugerðir nefnda má lesa á heimasíðu LH.

Í lögum LH nánar tiltekið í gr. 6.1. um starfssvið stjórnar er bent á að stjórn skuli líta eftir að lög, reglur og reglugerðir LH séu haldin og skal stjórn LH heimilt að vísa málum til úrskurðar- og aganefndar LH. Því hefði verið eðlileg, og samkvæmt lögum að keppnisnefnd beindi þessu máli til stjórnar og því spyr ég; hvar er formlegt erindi til stjórnar LH um atvikið? Hvar er umfjöllun og ákvörðun stjórnar og hvers vegna fer skýrslan aldrei inn til aga og úrskurðarnefndar?

Í framhaldinu, þennan saman dag, 1. júní, hélt ég áfram að benda keppnisnefnd LH að sambærileg mistök hafi átt sér stað á fleiri mótum um vorið. Það er að ákveðnar greinar virtust einnig ekki löglegar vegna þess að ekki væri skráður tiltekinn fjöldi dómara til starfa, og þar af eru tvenn WR mót, annars vegar á Hólum og hins vegar á Selfossi ásamt Hafnarfjarðarmeistaramóti og íþróttamóti Spretts.

Formaður keppnisnefndar hélt sig fast við niðurstöðu í mótinu sem fram fór í Hafnarfirði en kom með þá hugmynd hvort ekki væri hægt að senda á hina mótshaldarana ábendingu um að leiðrétta skýrslurnar. Ákaflega sérstök hugmynd svo ekki sé kveðið fastar að orði. Í hverju átti sú leiðrétting að felast? Átti að setja nýja aðila sem dómara á skýrslu þeirra móta og þá hverja? Dómara sem að ekki voru á staðnum?

Skýrsla móta telst vera sú sem staðfest er í lok móts af öllum hlutaðeigandi aðilum þegar þeir hafa lesið hana yfir. Aganefnd lítur svo á að ekki megi breyta skýrslum með þeim hætti að skipt sé um starfs/ábyrgðarfólk á mótum eftir mótslok og telur að slíkt sé einfaldlega skjalafölsun. Þetta viðhorf má sjá í greinargerð aganefndar við áliti LEX löfræðistofu í máli nr 2 frá 2015  sem er opinbert undir agamálum á síðu LH. Í því tiltekna máli fékk aðili sem nú gegnir formennsku Keppnisnefndar LH og sat í keppnisnefnd 2023 ávítur aganefndar fyrir það að beita blekkingum til þess að hagræða úrslitum á móti þar sem hann var mótsstjóri og reyndi að breyta skýrslu sér í hag eftir að móti lauk.

Nú þurfti skjót viðbrögð, stjórnarmaður mótsstjóri.

Mér var enn frekar brugðið þegar að ég frétti að sķýrslan frá Hólamótinu hefði verið opnuð af framkvæmdarstjóra LH til leiðréttingar á fimmtudeginum þann 1. júni, deginum áður en mótið í Hafnarfirði var svo dæmt ólöglegt. Það skal tekið fram að til eru afrit af skýrslunni á Hólum áður en henni var breytt. Á sama tíma situr mótsstjórinn á Hólum sá er hefur aðgang að skýrslu á því móti í stjórn LH og á sæti í keppnisnefnd LH. Sá aðili sem um ræðir er skipaður í keppnisnefnd LH af stjórn LH og tekur fullan þátt í því að úrskurða umrædda grein hja hmf. Sörla ólöglega en er á sama tíma að eiga við skýrslu á móti á hennar ábyrgð.

Ekki er annað að sjá en að mótið á Hólum sé í heild sinni ólöglegt WR mót þar sem tveir dómarar í hringvallagreinum á mótinu, skipaðir af skrifstofu LH, höfðu ekki réttindi til dómgæslu á WR-mótum. En samkvæmt lögum og reglum LH, sbr.gr Í 3.2 í Reglugerð um mótahald á Íslandi, þurfa dómarar á WR-mótum að hafa að minnsta kosti landsdómararéttindi en umdræddir dómarar höfðu aðeins réttindi héraðsdómara. Það mót er skráð löglegt WR mót og telst til árangurs á heimslista.

Sá aðili sem var mótsstjóri á Hafnarfjarðarmeistaramótinu og yfirdómari á íþróttamóti Spretts á sæti í keppnisnefnd LH og gegnir formennsku nefndar í dag. Á báðum þessum mótum er fjöldi dómara ekki nægur skv.reglum við ákveðnar skeiðgreinar mótanna, þessi mót/greinar voru og eru skráð lögleg enn í dag.

Ég spyr mig hvort þessir aðilar séu ekki á ansi hálum ís gagnvart siðareglum LH og ÍSÍ? Þeir fjalla um ógildingu greina á mótum en standa sjálfir að mótum þar sem sömu reglur eru brotnar og jafnvel fleiri. Maður spyr sig fyrir hvern er unnið, eiginhagsmuni eða heildarframgöngu íþróttarinnar?

Getur framkvæmdastjóri LH opnað skýrslur hvenær sem er til leiðréttingar? Og þá á ég við til að færa inn einhver nöfn til að uppfylla skilyrði, er það bara allt í lagi? Er sviðsstjóri afreks- og mótamála LH æðri reglum sambandssins og getur bara hringt út skipanir til félaga sýnist honum svo?  Og hvers vegna á sinni yfirferð námu hans augu ekki staðar við skýrslur annarra móta með sömu annmarka og benti nefndinni á þær?

Niðurstaða LH varð sú að allur árangur í 100 m. skeiði skuli þurrkaður út á Sjóvármótaröð 3 í Hafnarfirði vegna þess að ekki var nægur fjöldi dómara. Ákveðinn aðilli í keppnisnefnd og sviðsstjóri afreks- og mótasviðs höfðu ríkan vilja til þess að ógilda þennan árangur og því er eðlilegt að framkvæmd annarra móta séu skoðaðar. Ég óskaði því eftir því að eftirfarandi mótaskýrslur yrðu skoðaðar með tilliti til sömu vankanta, það er of fáum dómurum við einhverjar skeiðgreinar:

  1. Hafnarfjarðarmeistaramót haldið 4-7. maí 2023
  2. Opið íþr.mót Spretts haldið 12.-14. maí 2023
  3. Opið WR mót Sleipnis haldið 17.-21. Maí 2023
  4. WR Hólamót haldið 19.-21. maí
Afgreiðsla stjórnar LH

Fjallað var um þessi mót á fundi stjórnar LH miðvikudaginn 7. júní, sex dögum seinna en skýslu á Hólum var breytt. Þar voru skýrslur birtar og stjórnarfólki kynnt af hálfu starsfólks skrifstofu að þær væru í topplagi allar stöður mannaðar við kappreiðar eftir reglum, ég spyr því hvar eru þær reglur? Í skúffum hjá sviðsstjóra afreks- og mótamála? Þær eru allavega ekki sjáanlegar í LH eða Feif reglum. Í millitíðinni hafði mótaskýrslu verið breytt eins og ég nefndi hér að framan og viti menn, haldið þið að það sé ekki búið að fylla mótið á Hólum af starfsfólki. Aðallega keppendum á mótinu sem að ekki eru dómarar en skráðir hlaupagæslumenn. Sömu sögu er að segja af WR-mótinu á Selfossi en þar eru skráðir réttindalausir hlaupagæslumenn einnig. Tekið skal skýrt fram að ekki hefur verið átt við skýrslu á því móti eftirá.

Á World Ranking mótum skulu vera að lágmarki 5 dómarar en nota má hlaupagæslumenn í aðrar stöður í þeim tilvikum sem fleiri aðila þarf til. Í Lögum LH í gr. 3.2. er tekið fram að hlaupagæslumenn skulu hljóta nauðsynlega þjálfun sem LH samþykkir Engin þjálfun er viðurkennd af hálfu LH önnur en dómaramenntun, ekki eru þjálfaðir hlaupagæslumenn eða viðurkenndir sérstaklega frá LH. Sama skilning leggur sportnefnd FEIF á málið en í fyrirspurnum mínum til hennar fékk ég þau svör að aðeins dómarar með réttindi geti gengið í störf hlaupagæslumanna. Það er bæði gæðingadómarar og FEIF kynbótadómarar geta verið hlaupagæslumenn í stað íþróttadómara. Á fundi 4.jan.sl. (samtal knapa og dómara) fullyrti sviðsstjóri afreks- og mótamála að ekki þyrfti dómararéttindi við hlaupagæslu á WR mótum sem og öðrum mótum og máli sínu til stuðnings sagðist hann hafa svar frá Feif undir höndum. Hvers vegna hefur hann þá ekki upplýst mótshaldara og dómarafélögin um það ?

Það myndi nú aldeilis auðvelda margt. Ég verð bara að lýsa furðu minni á lesskilningi stjórnar og nefndarmanna á reglu þessari eða er fólk ekkert búið að kynna sér málefnið áður en allir segja já og amen? Eða er kannski rétt að hafa áhyggjur af því að fólk setjist í stjórnir og hafi ekki neina hugmynd um hvers hlutverk það er og ábyrgðin sé engin annað en að skrá viðveru á fundum? Hvers vegna fá þessi mót ekki sömu niðurstöðu og mótið í Hafnarfirði?

Um hverja gilda siðareglur LH/ÍSÍ?

Ég sem dómari þarf að skila sakavottorði inn til LH og skrifa undir siðareglur til samþykktar svo að ég hafi fulla heimild til dómgæslu á mótum en ég velti því fyrir mèr hvers virði það er þegar að nefndir og stjórn æðri dómurum geta farið með mál eftir nánast eigin geðþótta og hvernig það hentar hverjum og einum, sitja ekki allir við sama borð?

Forystan kallar eftir athygli fjölmiðla á okkar íþrótt en virðist varla vera hæf til þess að stýra skútunni, skipstjórinn er án áttavita en virðist vera með stýrimenn neðan þilja sem að varla virðast læsir á sjókort.

Að endingu skal það tekið fram að ekki ætla ég öllu stjórnar- eða nefndarfólki að vera á slíkri vegferð eins og ég hef farið yfir hér. Kannski er bara ekkert hlustað á þá sem að hafa eitthvað annað að segja en þeir sem að eru komnir á fullt að moka flór vina sinna. Stjórn LH hefur ekki ekki séð ástæðu til þess að svara mínu erindi sem að liggur þar inni, kannski er þetta eitthvað óþægilegt og best að halda frá fundargerðum.

Ég ákvað að segja mig úr keppnisnefnd LH 3. júní ’23 eftir þessa málsmeðferð nefndar þar sem að ég taldi tíma mínum og æru betur varið annars staðar en að taka þátt í slíkum starfsháttum. Óska ég hér með eftir svörum stjórnar við eftirfarandi spurningum:

  1. Ætlar stjórn að standa við sína afgreiðslu á þessum málum þrátt fyrir mismunun og brot á keppnis- og siðareglum LH/ÍSÍ/FEIF ?
  2. Getur stjórn vísað til þeirrar reglu þar sem að hlaupagæslumaður þarfnast ekki dómararéttinda?
  3. Því hefur sviðsstjóri afreks- og mótamála ekki upplýst mótshaldara og dómarafélög með svari FEIF sem að hann vísaði í á fundi þann 4. jan sl. og sagðist hafa undir höndum þess eðlis að hlaupagæslumenn þurfi ekki dómararéttindi?
  4. Hefur farið fram önnur viðurkennd þjálfun á hlaupagæsluaðilum önnur en dómaramenntun? Ef svo er hvar og hvenær?

Höfundur er Jón Þorberg Steindórsson, dómari og fyrrum nefndarmaður í keppnisnefnd LH.

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar