Eru þetta vinnubrögð sem að eru lögfróðum mönnum sæmandi?

  • 20. maí 2021
  • Fréttir

Gaman var að lesa svar Atla Más Ingólfssonar aganefndarmanns LH við spurningum blaðamanns Eiðfaxa. Sammála er ég honum um það að yfirdómnefnd þarf að taka strax á þeim málum sem að upp koma á mótsstað. Atli Már fjallar m.a. um það að e.t.v. sé ekki rétt að fjalla um eldri mál heldur að styðjast við þau nýjustu og draga af þeim lærdóm, ég ætla þó áfram að fjalla um mál sem komið hafa á borð aganefndar og eru af svipuðum meiði og þau sem tekin voru fyrir í ár.

Í máli nr.1/2007 segir Atli að um kæru sé að ræða og að málið hafi verið meðhöndlað sem slíkt, en hvar er kæruna að finna í málinu sjálfu? Hvergi kemur fram að um kæru sé að ræða, engin spjöld gefin, hver metur þá málið og tekur þá ákvörðun að um fjallað sé um kæru í þessu tilfelli? Því er mál nr.2/2005 afgreitt með allt öðrum hætti þegar að skýrslur eru með sama hætti færðar inn til aganefndar ? Þessum spurningum er enn ósvarað og enn líta niðurstöður út eins og farið sé eftir persónum og leikendum. Það er nú einu sinni þannig að sömu aðilar sitja enn í nefndinni og bera ábyrgð á þeim úrskurðum sem fallið hafa í þeirra tíð.

Fyrst að farið er að skoða gömul mál, er rétt að skoða hér eitt til viðbótar, mál nr.1/2015 dagsett 4.júní 2015. Keppandi mætir ekki til úrslita og boðar ekki forföll, yfir dómnefnd veitir viðkomandi rautt spjald, skýrslan er send á aganefnd og hún úrskurðar keppandann í fjögurra vikna bann.

En bíðum nú við! Þann 1.apríl 2015 var komin inn í reglugerðapakkann regla nr.8.5.8. sem fjallar um það að þegar knapi mætir ekki til úrslita, hvort sem það er í a eða b, án ástæðu og tilkynningar. Knapi hlýtur rautt spjald, árangur hans þurrkaður út af mótinu og viðkomandi fer sjálfkrafa í tveggja vikna keppnisbann.

Einhverra hluta vegna virðist aganefndin ekki betur að sér en það að í dómnum er vísað í reglur nr.2.6.4.3. og 2.7.9.3. sem að fallnar voru úr gildi og regla 8.5.8. orðin gild og yfirdómnefnd taldi sig vera að fara eftir.

Óskað var eftir leiðréttingu af hálfu mótsstjórnar til aganefndar eftir að úrskurður var kunngerður og að það yrði farið eftir reglu 8.4.8. Svar formanns aganefndar, Þorvaldar Sigurðssonar, var á þá leið “ Sæl úrskurður hefur verið sendur og birtur „ sem sagt enginn vilji til leiðréttingar þó að lög og reglur segðu til um annað, úrskurður þessi var ekki áfrýjanlegur.

Eru þetta vinnubrögð sem að eru lögfróðum mönnum sæmandi ?

Áfram er því deila mín á það að því miður lítur það enn þá þannig út að persónur og leikendur skipta meira máli þegar kemur að dómsúrskurði aganefndar heldur en brotið sjálft. Máli mínu til stuðnings hef ég nú bent á þrjú eldri mál sem öll eru af svipuðum toga og þau mál sem úrskurðað var í á dögunum og tengjast Metamóti og Skeiðleikum.

Það er von mín að með því að koma með þetta upp á yfirborðið með greinarskrifum mínum sé hægt að draga lærdóm af þessum málum og standa í lappirnar sama hvað aðilinn heitir sem brýtur af sér.

 

Höfundur er  Jón Þorberg Steindórsson

 

 

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar