Fá fimm til sex folöld á ári

  • 5. september 2023
  • Fréttir

Kári og Nýey frá Feti á Flúðum. Mynd: Bára Másdóttir

Viðtal við hrossaræktendur í Flagbjarnarholti.

Í Landsveit í Rangárvallasýslu er hrossaræktarbúið Flagbjarnarholt. Á bak við ræktunina standa annars vegar hjónin Sveinbjörn Bragason og Þórunn Hannesdóttir og hins vegar Bragi Guðmundsson og Valgerður Þorvaldsdóttir. Jörðin er 500 ha. og er einungis stunduð þar hrossarækt og eru hrossin í kringum 60 talsins. Skilgreina þau sig sem áhugahrossabændur en þau eru búsett annars vegar í Kópavogi og hinsvegar á Suðurnesjunum en eyða helgum og sumarfríum í Flagbjarnarholti.

“Í sumar fengum við fimm folöld. Hryssur undan Fold og Sindra frá Hjarðartúni og Þjóð og Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum og hesta undan Spaða frá Stuðlum og Fjöður, Straumey og Sólfaxa frá Herríðarhóli og Surtseyju og Sólfaxa,” segir Þórunn en í sumar héldu þau sex hryssum undir þá Seið frá Hólum, Bjarma frá Litlu-Tungu, Stein frá Stígshúsum, Fróða frá Flugumýri og Jarl frá Árbæjarhjáleigu.

Það var í fyrsta sinn í langan tíma sem ekkert hross var sýnt frá búinu en eru þau með háleit markmið fyrir næsta ár, enda Landsmóts ár framundan. “Af því sem er að koma í frumtamningu eru við með Útherjasyni og dætur sem lofa góðu og einnig erum við með spennandi stóðhestefni undan Spaða frá Stuðlum. Við eigum líka lofandi 4 vetra stóðhest undan Grun frá Oddhóli og Nýey frá Feti, einnig bróðir hans 3 vetra undan Útherja sem og 3 vetra stóðhest undan Straumeyju frá Feti og Spaða frá Stuðlum.”

Gaman að fylgja börnunum eftir

Krakkarnir þeirrar Sveinbjarnar og Þórunnar, Kári, Eyvör og Frosti, hafa erft hestaáhugann frá foreldrum sínum og hafa verið iðinn á keppnisbrautinni í sumar. “Við fylgdum börnunum í hinum ýmsu keppnum í sumar og gekk það vonum framar. Að sjá Nýey okkar frá Feti 18 vetra dansandi undir krökkunum okkar, sem eru 10 og 12 ára. Við höfðum aldrei sest á þennan gæðing áður enda keypt fylfull árið 2013. Var tekin inn veik í febrúar eftir að hafa misst fylið og nú fá börnin að njóta hennar áfram næsta vetur og fer í ræktun aftur 2024,” segir Þórunn en þau eru full tilhlökkunar til Landsmóts 2024 þar sem þau munu fylgjast með bæði á kynbótabrautinni og barnaflokki gæðinga, líklega með aðeins hraðan hjartslátt á hliðarlínunni.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar