Fáksfélagar heiðraðir á uppskeruhátíð félagsins
Frá vinstri: Hlíf Sturludóttir formaður Fáks, Sigurður Vignir Matthíasson veitti verðlaunum viðtöku fyrir son sinn Matthías Sigurðsson, Hrafnhildur Jónsdóttir efsta konan í áhugamannaflokki, Árni Björn Pálsson Íþróttakarl og knapi Fáks og Hrefna María Ómarsdóttir Íþróttakona Fáks. Á myndina vantar Evu Kærnested efstu konuna í ungmennaflokki og Guðmund Ásgeir Björnsson efsta karlinn í áhugamannaflokki.
Uppskeruhátíð Fáks fór fram síðastliðið föstudagskvöld þar sem voru verðlaunaðir knapar sem náð hafa framúrskarandi árangri á árinu. Árangur Fáksfélaga á árinu var glæsilegur og átti félagið fjóra fulltrúa í landsliði Íslands í hestaíþróttum en það voru Árni Björn Pálsson, Hinrik Bragason, Lilja Rún Sigurjónsdóttir og Matthías Sigurðsson.
Reykjavíkurmeistaramótið fór í sögubækurnar í sumar en það var stærsta hestaíþróttamót sögunnar með 1027 skráningum. Mótið er fyrir löngu búið að festa sig í sessi sem eitt af kjölfestumótum keppnistímabilsins. Stór hópur sjálfboðaliða hefur gefið vinnu sína og fannst stjórn því við hæfi að heiðra mótanefndina fyrir sitt ómetanlega framlag til félagsins í gegnum árin. Viðurkenninguna hlutu Aníta Lára Ólafsdóttir, Elín Hulda Halldórsdóttir og Sæmundur Ólafsson.

Frá vinstri: Sæmundur Ólafsson, Aníta Lára Ólafsdóttir og Elínn Hulda Halldórsdóttir
Meðfylgjandi eru þeir knapar sem voru heiðraðir fyrir framúrskarandi keppnisárangur á árinu 2025.
Íþróttakarl og knapi Fáks – Árni Björn Pálsson
Árangur Árna á árinu var frábær og bætti hann enn einni skrautfjöðurinni í safnið er hann varð heimsmeistari í tölti T1 á henni Kastaníu frá Kvistum á heimsmeistaramótinu í Sviss. Hann var Íslandsmeistari í gæðingaskeiði á Álfamær frá Prestsbæ og var hann í fremstu röð í öðrum greinum Íslandsmótsins.
Árni Björn er einnig útnefndur sem knapi Fáks 2025. Árni Björn er fjölhæfur afreksknapi hvort sem litið er til íþrótta- eða gæðingagreina og einnig er hann afkastamikill kynbótaknapi. Hann hefur tamið sér prúðmannlega og faglega framkomu jafnt í orði sem í verki og er Fáksfélögum sönn fyrirmynd og er sannarlega vel að þessari viðurkenningu kominn.
Íþróttakona Fáks – Hrefna María Ómarsdóttir
Hrefna átti góðu gengi að fagna á keppnisbrautinni í sumar. Á Reykjavíkurmeistaramóti varð hún tvöfaldur Reykjavíkurmeistari, í fjórgangi V2 á Stormfaxa frá Álfhólum og í tölti T3 á Kopar frá Álfhólum. Þá átti hún einnig góðu gengi að fagna í öðrum greinum.
Áhugamannaflokkur karlar – Guðmundur Ásgeir Björnsson
Guðmundur var öflugur á keppnisbrautinni í ár. Hann var í fjórða sæti á A-flokki á sameiginlegu gæðingamóti Fáks og Spretts og í öðru sæti í B-flokki áhugamanna. Á Reykjavíkurmeistaramóti varð hann Reykjavíkurmeistari í fjórgangi V2 á Skildi frá Stóru-Mástungu 2 og einnig í gæðingaskeiði. Þá var hann í efstu sætum á Suðurlandsmóti og skeiðleikum Geysis.
Áhugamannaflokkur konur – Hrafnhildur Jónsdóttir
Hrafnhildur er eljusamur knapi og endurspeglaðist það í árangri hennar á árinu. Hún átti góðu gengi að fagna á Reykjavíkurmeistaramótinu og á Áhugamannamóti Íslands varð hún í fyrsta sæti í slaktaumatölti T4 á Vin frá Sauðárkórki og var hún í 4. sæti í tölti T3, fjórgangi V2 og fimmgangi F2. Þá vann hún slaktaumatölt T4 og fjórgang F2 á Íþróttamóti Dreyra.
Ungmennaflokkur karlar – Matthías Sigurðsson
Matthías náði mögnuðum árangri á árinu og var hann valinn í ungmennahóp landsliðsins í hestaíþróttum sem keppti á heimsmeistaramótinu í Sviss. Þar keppti hann í gæðingaskeiði og 250m skeiði á Magneu frá Staðartungu. Á Reykjavíkurmeistaramóti varð hann Reykjavíkurmeistari í tölti T1, fimmgangi F1, 250m skeiði, gæðingaskeiði og flugskeiði. Þá var hann með efstu knöpum á Íslandsmóti í gæðingaskeiði og fimmgangi ásamt því að ná góðum árangri í öðrum greinum.
Ungmennaflokkur konur – Eva Kærnested
Eva átti góðu gengi að fagna á keppnisbrautinni í ár og náði góðum árangri á Reykjavíkurmeistaramóti félagsins. Á Íslandsmóti varð hún í 5. sæti í tölti T1 á Loga frá Lerkiholti og 7. sæti í fjórgangi V1 á Styrk frá Skák. Í meistaradeild ungmenna varð hún í 2. sæti í tölti T1 og átti hún einnig góðan árangur á öðrum mótum.

Árni Björn Pálsson var útnefndur knapi ársins í Fáki og Íþróttakarl félagsins
Fáksfélagar heiðraðir á uppskeruhátíð félagsins
Minningarorð um Ragnar Tómasson
Opið er fyrir umsóknir í Hæfileikamótun LH