FEIF krefst þess að blóðmerahaldi verði hætt

Alþjóðasamtök íslenska hestsins, FEIF, hafa sent íslenskum stjórnvöldum opið bréf þar sem þau fordæma blóðmerahaldi á Íslandi með skýrum og afgerandi hætti, þetta kemur fram í fréttatilkynningu á heimasíðu samtakanna.
Í bréfinu segir m.a. að blóðtaka úr fylfullum hryssum sé siðferðilega óásættanlegt og í andstöðu við þau gildi sem hestamennska eigi að byggjast á. Aðgerðin hafi einnig alvarleg áhrif á ímynd íslenska hestsins og hestamennsku á alþjóðavettvangi, auk þess að draga úr trúverðugleika Íslands sem lands hreinleika og óspilltrar náttúru.
Í bréfinu hvetja samtökin Alþingi til að nýta þann möguleika sem nú gefst þegar leyfi Ísteka rennur út um áramót. FEIF krefst þess að leyfið verði ekki endurnýjað og að stjórnvöld taki þannig skýra afstöðu með dýravelferð og framtíð íslenska hestsins.
Samtökin minna jafnframt á að áframhaldandi blóðmerahald grafi undan svokölluðu félagslegu starfsleyfi (e. Social licence to operate) hestamennsku, sem byggir á trausti og samþykki almennings. „Þetta er mál sem varðar ekki aðeins velferð hrossanna heldur einnig framtíðarsýn og trúverðugleika greinarinnar í heild,“ segir í bréfi FEIF sem undirritað er af Gundulu Sharman, forseta Feif.
Bréfið má lesa í heild sinni með því að smella hér.