Dýraverndarsamband Íslands Félagsaðstæður skipta máli fyrir velferð hrossa 

  • 23. apríl 2024
  • Aðsend grein

Sumarnótt Mynd:Hrefna Sigurjónsdóttir

Aðsend grein frá Dýraverndarsambandi Íslands

Ein hlið á mati á velferð dýra er hvernig þeim líður félagslega. Velferð hesta í hópi er meðal annars háð því hversu árásargjörn hrossin í hópnum eru og hversu mikil tækifæri þau hafa til að umgangast aðra og mynda tengsl, sem er meðal annars unnt að meta út frá því hversu mikið þau kljást. Eigendur þurfa að gæta þess að hrossin séu í hópi þar sem lítið er um árásargirni og þar sem þau hafa tækifæri til að blandast öðrum, mynda tengsl og viðhalda þeim. Þetta á bæði við aðstæður á húsi og hópa sem deila sömu girðingunni í hagabeit.

Mikilvægt að velja hross saman

Á húsi þarf að huga að því að setja saman hross saman í stíu eða hafa sem nágranna sem þekkjast og hafa sýnt það að þeim líkar vel við hvert annað til að koma í veg fyrir einelti. Ef hross sem haldið er með öðru hrossi í stíu getur ekki fengið frið frá því getur það haft neikvæð áhrif á vellíðan, hvíld og jafnvel gæði svefns hjá viðkomandi hrossi. Það skiptir einnig máli hvaða hross eru sett saman út í gerði þar sem þau geta velt sér í friði, tekið smá spretti, leikið sér og snyrt aðra (kljáðst). Vel að merkja þá má gerðið ekki vera það lítið að hrossin geti ekki sprett aðeins úr spori. Viss tilhneiging virðist vera víða að hafa gerðin ansi lítil.

Vitað er að stöðugleiki hóps í haga skiptir miklu máli1,2 fyrir velferð hrossa. Þegar nýr hestur kemur í hóp eða þegar einhverjir eru teknir úr hópnum þá eykst árásargirnin. Þess vegna er mikilvægt að sýna varkárni þegar nýr hestur kemur á hús eða er sleppt með öðrum hrossum í hagabeit. Gott er að setja nýjan hest fyrst út með einum af eldri hestunum sem er með góða lund og líklega hátt settur í hópnum. Þannig geta myndast tengsl og sá eldri gæti jafnvel verndað þann nýkomna þegar fleiri bætast við. Að teyma þann nýkomna með öðrum í reið getur líka verið gagnlegt upp á tengslamyndun.

Að skoða félagshegðun hrossa

Rannsóknir hér á landi hafa sýnt að svo til öll hross eiga sér 1-3 félaga sem þau kljást mest við, eru nálægt á beitinni og þegar þau hvílast1. Þess vegna er mjög gott að fylgjast með hrossum að sumri til þegar þau hafa meira frelsi til að sjá hverjir eru vinir og nýta sér það síðan þegar raðað er í stíur og hleypt út í gerði. Þó það sé líklegra að hrossin eigi sér vin af sama kyni þá er það alls ekki algild regla.

Almennt má segja að gott er að láta tryppi vera með eldri hrossum því þannig læra þau á reglurnar sem gilda í stóði. Hrossin eru mishátt í virðingaröðinni og ungviðið lærir að það borgi sig að virða þá sem eru í hærri stöðu. Afleiðingin verður sú að allt verður rólegra í hópnum.

Vísað er í niðurstöður rannsókna á 20 hópum sem birtust 2019 í Náttúrufræðingnum í grein sem heitir Hátterni hesta í haga – Rannsóknir á félagshegðun 2 og eru lesendur hvattir til að kynna sér efni þessarar greinar.

1 Hrefna Sigurjónsdóttir og Anna Guðrún Þórhallsdóttir (2006). Félagshegðun hrossa. Rannsóknir á Skáney, Reykholtsdal. Náttúrufræðingurinn 74 (1-2), 27-38.  https://timarit.is/gegnir/991003215669706886 

2. Hrefna Sigurjónsdóttir og Sandra M. Granquist, (2019). Hátterni hesta í haga — Rannsóknir á félagshegðun. Náttúrufræðingurinn 89 (3–4), 78–97- https://timarit.is/page/7228941#page/n5/mode/2up eða (https://opinvisindi.is/handle/20.500.11815/1458)  

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar