Fengu þau draumafolaldið?

  • 15. september 2023
  • Fréttir

Þrift frá Hólum, nokkrum árum seinna, á Landsmóti 2011 þá sýnd af Mette Mannseth. Mynd: JE

Greinarnar "Undir hvern fóru þær?" hafa alltaf notið mikilla vinsæld hjá lesendum Eiðfaxa

Blaðamaður rakst á slíka grein í 7. tbl. Eiðfaxa árið 2008 en þar var blaðamaður að grennslast fyrir um hvaða stóðhesta efstu hryssum í öllum flokkum af Landsmóti það árið var haldið undir.

Draumafolaldið fallegt og viljugt alhliða hross

Þrift frá Hólum var haldið undir Vilmund frá Feti en Þrift var þriðja í 4v. flokki á LM2008 með 8,25 í aðaleinkunn. Eigandi og ræktandi hennar á þessum tíma var Hólaskóli og sagði Víkingur Gunnarsson, þá deildarstjóri hestafræðideildarinnar á Hólum að draumafolaldið yrði fallegt og viljugt alhliða hross en honum væri nokkuð sama um kynið.

Út úr þessari pörun kom Völva frá Hólum og hlaut hún fyrir sköpulag 8,22 og fyrir hæfileika 8,51 þar af 9,0 fyrir fegurð í reið og 8,5 fyrir tölt, brokk, skeið, vilja og geðslag og hægt tölt.

Þrift á tíu skráð afkvæmi og fjögur af þeim sýnd, þrjú með fyrstu verðlaun. Þ.á.m. Arionsonurinn Vigri frá Bæ sem Viðar Ingólfsson hefur verið að koma fram á.

Draumafolaldið brúnskjótt, blesótt alhliða hryssa

Kríu frá Litlalandi var haldið undir Kvist frá Skagaströnd en Kría endaði önnur í flokki 5 vetra á LM2008 með 8,45 í aðaleinkunn. Jenny Erlingsdóttir er annar ræktandi og eigandi Kríu og sagði á sínum tíma að þau höfðu valið Kvist vegna þess að þau töldu að þau ættu vel saman. „Þau eru bæði mjög jöfn og góð. Kvistur er fallegur og góður hestur sem hefur enga sérstaka galla. Kvistur var hér nálægt okkur þegar merin var að ganga og því var óþarfi að leita langt yfir skammt. Draumafolaldið yrði brúnskjótt, blesótt alhliða hryssa með góðar gangtegundir og hrein gangskil,“ sagði Jenný í greininni.

Ekki fengu þau brúnskjótta, blesótta hryssu en í staðinn fengu þau hann Kandís frá Litlalandi, rauðskjóttan og glaseygðan. Kandís hlaut fyrir sköpulag 8,58 og fyrir hæfileika 8,20, sem gerir 8,35 í aðaleinkunn.

Kría á þrettán skráð afkvæmi og eru þrjú af þeim sýnd og öll með fyrstu verðlaun.

Draumafolaldið grá hryssa með fallegan háls og mikið rými

Æsu frá Flekkudal var haldið undir Kjarna frá Þjóðólfshaga en Æsa varð önnur í flokki 7 vetra og eldri hryssna á LM2008 með 8,54 í aðaleinkunn. Eigendur Æsu eru þau Guðný G. Ívarsdóttir og Sigurður Sigurðarson. Sigurður var að halda hryssunni í þetta skiptið og vonaðist eftir grárri hryssu. „Það væri ekki verra ef afkvæmið yrði grá hryssa með fallegan háls, fjaðurmagnaðar hreyfingar og mikið rými en báðir foreldrar hafa úrvals gott tölt og ekki eru ömmurnar, Pyttla og Kringla, af verri endanum. Maður er alltaf að reyna að búa til Kringlu gömlu aftur,“ sagði hann í greininni.

Grátt var það en ekki hryssa. Sigurður fékk hann Frjó frá Flekkudal sem hlaut 8,12 í aðaleinkunn. Fyrir sköpulag 7,89 og fyrir hæfileika 8,24. Hann hlaut 8,0 fyrir tölt en 9,0 fyrir brokk og fet.

Æsa á skráð 10 afkvæmi í WorldFeng og hafa sex af þeim verið sýnd og öll hlotið fyrstu verðlaun. Æsa hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á síðasta ári.

Draumafolaldið hnarreist, viljug og fluggeng hryssa

Fjóla frá Kirkjubæ varð önnur í 6 vetra flokki á LM2008 með 8,51 í aðaleinkunn. Fjólu var haldið undir Eldjárn frá Tjaldhólum og vonaðist Ágúst Sigurðsson, ræktandi og þáverandi eigandi hennar að fá hnarreist, viljuga og fluggenga hryssu. „Ég hef þó ekki trú á því að það verði vakurt en klárgangurinn ætti að verða góður. Afkvæmið verður pottþétt rautt og það gæti komið blesa, sem væri ekki verra,“ sagði Ágúst

Hryssa var það, rauðstjörnótt, Stjarna frá Kirkjubæ. Ósýnd.

Fjóla er nú í Danmörku og á sex skráð afkvæmi. Tvö þeirra eru sýnd og bæði með fyrstu verðlaun en annað þeirra er Fengur från Backome sem er með 8,63 fyrir sköpulag og 8,75 fyrir hæfileika sem gerir 8,70 í aðaleinkunn.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar