Fer gullið til Íslands í fyrsta sinn?

Máni Hilmarsson og Gljátoppur frá Miðhrauni eru ríkjandi heimsmeistarar í slaktaumatölti. Þeir munu ekki mæta á mótið í ár til að verja titil sinn. Mynd: Bert Collet
Í dag er minna en vika í að Heimsmeistaramótið í Sviss hefjist. Slaktaumatölt er eina greinin sem við íslendingar höfum aldrei unnið og eina greinin sem Bandaríkjamenn hafa unnið á HM. Slaktaumatölt er vandasöm grein að ríða og nú í fyrsta sinn á heimsmeistaramóti verður riðið upp á báðar hendur á slökum taumi.
Á síðasta móti áttum við engan fulltrúa í greininni í fullorðinsflokki en staðan er önnur í ár. Nú teflum við þar fram þremur öflugum slaktaumatölturum og væri draumastaðan að sjá bláann pall á sunnudeginun. Ríkjandi heimsmeistari í þessari grein, Máni Hilmarsson á Gljátoppi frá Miðhrauni, mætir ekki á mótið því er ljóst að nýr sigurvegari verður krýndur í ár.
Hér á eftir má lesa um þau pör sem líklegust eru til stórafreka á komandi móti en forkeppni í slaktaumatölti fer fram á miðvikudeginum.
Tökum yfirferðina í stafrófsröð og byrjum á þeim Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur og Hulinn frá Breiðstöðum. Þetta er fyrsta, og líklega síðasta, keppnistímabilið þeirra saman og hafa þau heldur betur byrjað vel. Hæst hafa þau farið í 8,37 í forkeppni í slaktaumatölti og enduðu m.a. í öðru sæti á Íslandsmótinu í greininni. Hulinn er undan Kveik frá Stangarlæk 1 og Díönu frá Breiðstöðum og er sjö vetra. Hann vakti m.a. mikla athygli á Landsmóti í fyrra þegar hann hlaut 10 fyrir samstarfsvilja. Ræktandi Hulins er Guðrún Astrid Elvarsdóttir og eigendur eru Anja Egger-Meier og Kronshof GbR.
Norðmenn tefla fram Christinu Lund og Lukku-Blesa frá Selfossi. Þau eru miklir reynsluboltar í greininni og hæsta einkunn þeirra í ár er 8,30 í forkeppni. Lukku-Blesi er í eigu og ræktaður af Christinu en hann er þrettán vetra undan Lukku-Láka frá Stóra-Vatnsskarði og Keilu frá Steinnesi.
Gerrit Sager og Draumur frá Feti keppa fyrir hönd Austurríkis og eru austurrískir meistarar í greininni. Hæst hafa þau farið í forkeppni í 8,30 í ár en þetta er fyrsta keppnistímabilið þeirra saman. Draumur er undan Arion frá Eystra-Fróðholti og Jónínu frá Feti. Ræktandi er hrossaræktarbúið FET ehf. og eigendur eru þau Gerrit og Philipp Sager.
Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað eru nýkrýndir Íslandsmeistarar í slaktaumatölti og hafa hæst hlotið í ár 8,40 í forkeppni. Ósk er 9 vetra undan Skýr frá Skálakoti og Ófelíu frá Holtsmúla 1 en ræktandi er Hermann Thorstensen Ólafsson og eigendur Anja Egger-Meier og Kronshof GbR. Þær Helga Una og Ósk þekkjast vel og hefur verið mikill stígandi hjá þeim í ár.
Þjóðverjar státa af virkilega sterkum slaktaumatölturum en af efstu fimm hestunum á WR listanum eru fjórir af þeim frá Þýskalandi. Jolly Schrenk og Glæsir von Gut Wertheim urðu fyrir valinu í þýska landsliðið en þau eru önnur á heimslistanum í ár í greininni. Þau hafa hæst farið í 8,73 í einkunn í forkeppni. Glæsir er 18 vetra undan Hjalta vom Blitzberg og Gásku von Gut Wertheim. Ræktandi er Bärbel Daye en Jolly er eigandi hans. Þau eru án efa eitt af sigurstranglegasta parinu í greininni. Reynslu mikið par sem kepptu fyrst í greininni fyrir tíu árum síðan.
Lisa Staubli og Viðja frá Feti keppa fyrir hönd heimamanna en þær voru í A úrslitum í slaktaumatölti á síðustu heimsleikum og hafa átt góðu gengi að fagna. Þær eru svissneskir meistarar og þeirra hæsta einkunn í ár er 8,30 í forkeppni. Viðja er undan Ómi frá Kvistum og Arndísi frá Feti. Ræktandi er hrossaræktarbúið Fet og er Viðja í eigu Lisu.
Sara Sigurbjörnsdóttir mætir með Spuna vom Heesberg en Spuni hefur verið afar farsæll í greininnni ásamt knapa sínum Daniel C. Schulz. Spuni og Daniel eru þýskir meistarar, urðu í þriðja sæti á síðustu heimsleikum og eru í þriðja sæti á WR lista ársins. Daniel og Spuni voru ekki valdir í þýska liðið svo úr varð að Sara fékk Spuna að láni. Þetta verður frumraun þeirra í keppni og spennandi verður að fylgjast með framgöngu þeirra á mótinu en saman hafa þeir Spuni og Daniel hæst farið í 8,53 í forkeppni á þessu ári.
Þetta eru þau pör sem líklegust telja til afreka í slaktaumatölti en ekkert má útaf bregða hjá þeim til að aðrir knapar blandi sér í baráttuna um sigur. Það verður spennandi að sjá hvort gullið fari í fyrsta sinn til Íslands.