Fjöldi dóma sýna góða þátttöku hrossaræktenda

  • 27. ágúst 2025
  • Fréttir

Óskastund frá Steinnesi var einn af frábærum fulltrúum íslenskrar ræktunar á HM í sumar, knapi Árni Björn. Ljósmynd: Henk & Patty

Ekki hafa fleiri hross verið sýnd á milli Landsmótsára frá því árið 2013

Kynbótasýningum á Íslandi lauk í síðustu viku með síðsumarsýningunum á Hellu og Akureyri. Alls voru haldnar fimmtán sýningar á sex stöðum víðs vegar um landið, auk Fjórðungsmótsins sem fram fór í Borgarnesi.

Samtals voru felldir 1331 dómar, þar af 1178 fullnaðardómar, sem telst mjög góð þátttaka í kynbótakerfinu, sérstaklega þegar litið er til þess að ekki er Landsmótsár. Þetta er mesti fjöldi hrossa sem fram hefur komið á slíku ári frá 2013, þegar 1607 dómar voru felldir. Þátttakan er þó á svipuðum slóðum og undanfarin ár, að undanskildu árinu 2023 þegar fjöldi dóma fór undir 1000.

Mikil og stöðug þátttaka í kynbótasýningum skiptir höfuðmáli fyrir áframhaldandi framfarir við ræktun íslenska hestsins. Hún tryggir traustari niðurstöður í ræktunarmati, eykur gæði kynbótastarfsins og styrkir þannig stöðu íslenska hestsins bæði hér heima og erlendis.

Fyrir neðan má sjá graf sem sýnir fjölda dóma og fullnaðardóma á kynbótasýningum á undanförnum árum.

 

 

* fjöldi dóma birtur með fyrirvara um mannleg mistök við gagnasöfnun í Worldfeng.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar