Fjórir stóðhestar hafa nú náð lágmörkum til heiðursverðlauna

  • 17. júní 2020
  • Fréttir

Loki á nú 50 dæmd afkvæmi hér setinn af Árna Birni á LM2016

Fleiri bætast einnig í hóp 1.verðlauna stóðhesta fyrir afkvæmi

Stóðhestarnir Skýr frá Skálakoti, Óskasteinn frá Íbishóli og Loki frá Selfossi eiga nú allir orðið 50 dæmd afkvæmi eða fleiri og hljóta því að öllu óbreyttu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landssýningu kynbótahrossa sem fram fer á Hellu laugardaginn 27.júní. Þessu til viðbótar hlýtur Sveinn-Hervar frá Þúfu í Landeyjum heiðursverðlaun með 122 sýnd afkvæmi en hann hafði náð lágmörkum áður en vorsýningar hófust.

Undan Óskasteini hafa nú komið átta ný afkvæmi til dóms, undan Skýr hafa tuttugu áður ósýnd afkvæmi hans mætt til dóms og undan Loka frá Selfossi eru þau átta talsins.

Hrannar frá Flugumýri II nálgast einnig heiðursverðlaun en undan honum hafa verið sýnd 43 afkvæmi og þar af 11 ný í vor. Fimmtudagurinn 18.júní er síðasti dómadagur vorsins og það verður spennandi að sjá hvort fleiri bætist í hópinn.

Í röðum þeirra stóðhesta sem möguleika eiga á 1.verðlaunum að þá hafa fjölmörg ung hross komið til dóms í vor undan Konsert frá Hofi og á hann nú orðið 28 dæmd afkvæmi og hefur náð lágmörkum en hann var með 127 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins fyrir vorið.
Þá á Ölnir frá Akranesi nú orðið 15 afkvæmi sýnd í fullnaðardómi og hefur því líka náð lágmörkum um afkvæmafjölda. Þessu til viðbótar eru það stóðhestarnir Stormur frá Herríðarhóli og Borði frá Fellskoti sem nú þegar hafa náð hafa lágmörkum til 1.verðlauna fyrir afkvæmi.

Þá má nefna stóðhesta eins og Lord frá Vatnsleysu og Skagann frá Skipaskaga sem báðir eiga 11 dæmd afkvæmi þegar þetta er ritað og eru með yfir 118 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins. Þá á Kolskeggur frá Kjarnholtum orðið 14 dæmd afkvæmi og er með 117 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins og þyrfti því að hækka um eitt stig til viðbótar við það að eitt nýtt afkvæmi þyrfti að mæta til dóms.

Ekki er ólíklegt að fleiri stóðhestar bætist í þennan hóp þegar að vorsýningum lýkur á fimmtudaginn. Það verður því mikið um dýrðir á Landssýningu kynbótahrossa þann 27.júní á Hellu en viðburðinum verður streymt beint í gegnum vef Eiðfaxa á þremur tungumálum.

Reglur um afkvæmasýningar stóðhesta

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar