Fjörugir Fáksarar
Sameiginleg uppskeruhátíð hestamannafélaganna Spretts og Fáks fór fram á föstudagskvöldið. Þar voru verðlaunaðir þeir knapar í ungmenna- og fullorðinsflokki sem þóttu skara fram úr á árinu.
Hér á eftir fylgja verðlaunahafar hestamannafélagsins Fáks og upptalningar á afrekum þeirra.
Knapi ársins hjá Fáki er Árni Björn Pálsson sem vann mörg stórafrek í ár þar á meðal sigur í A-flokki gæðing á Landsmóti og Íslandsmeistaratitil í tölti, auk þess að sýna mörg af hæst dæmdu kynbótahrossum ársins. Einnig sigraði Árni Björn einstaklingskeppni Meistaradeildarinnar og var valinn knapi ársins hjá LH
Ungmennaflokkur karlar
Matthías Sigurðsson
Viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur 2024
Matthías átti frábært ár á keppnisbrautinni en hann varð fjórfaldur Reykjavíkurmeistari þar sem hann átti mjög góðan árangur í skeiðgreinum á Magneu frá Staðartungu. Á gæðingamóti Fáks varð Matthías og Tumi frá Jarðbrú efstir í ungmennaflokki og á Landsmóti fóru þeir efstir inn í milliriðil. Í milliriðli lentu þeir í B-úrslitum sem þeir unnu og fóru svo alla leið í A-úrslitum og urðu Landsmótssigurvegarar. Matthías var valinn í U21 landslið Íslands sem fór á Norðurlandamót og urðu þeir í 1. sæti í ungmennaflokki á Gusti frá Stóra-Vatnsskarði og í 2. sæti á Páfa frá Kjarri í fimmgangi F1. Þá átti Matthías einnig góðu gengi að fagna á Íslandsmóti.
Ungmennaflokkur konur
Eva Kærnested
Viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur 2024
Eva átti gott ár á keppnisbrautinni en hún varð Reykjavíkurmeistari í fjórgangi á hesti sínum Styrk frá Skák. Á gæðingamóti Fáks varð hún í öðru sæti í ungmennaflokki á Loga frá Lerkiholti. Á Landsmóti áttu þau Eva og Logi frábæra sýningu í forkeppni sem skilaði þeim 9. sæti, í milliriðli voru þau í 4. sæti og fóru beint í A-úrslit þar sem þau enduðu í 5. sæti í gríðarlega sterkum ungmennaflokki. Þá átti Eva góðu gengi að fagna í Meistaradeild Ungmenna og á Íþróttamóti Sleipnis.
Áhugamannaflokkur karlar
Elmar Ingi Guðlaugsson
Viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur 2024
Elmar Ingi náði góðum árangri á Reykjavíkurmeistaramóti á árinu. Hann varð Reykjavíkurmeistari í tölti T3 í 1. flokki á hesti sínum Grunni frá Hólavatni og þá varð hann í 6. sæti í A-úrslitum í fjórgangi V2. Þá náði hann einnig góðum árangri á Suðurlandsmóti Geysis.
Áhugamannaflokkur konur
Henna Johanna Sirén
Viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur 2024
Henna Sirén náði mjög góðum árangri á mótum ársins. Hún varð Reykjavíkurmeistari í fimmgangi F2 á Hrönn frá Stóra-Múla, í 2. sæti í tölti T4 á Herjann frá Eylandi og 3. sæti í fjórgangi V2 á Æsu frá Norður-Reykjum. Þá náði hún flottum árangri á íþróttamóti Geysis þar sem hún var í 1. sæti í tölti T4 og fimmgangi F2 ásamt öðrum flottum árangri.
Íþróttakarl Fáks
Konráð Valur Sveinsson
Viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur 2024
Konráð Valur átti frábært ár á kappreiðabrautinni þar sem hann varð tvöfaldur Reykjavíkurmeistari og setti um leið Íslandsmet í 150m skeiði á Kjarki frá Árbæjarhjáleigu. Rúmum mánuði síðar bætti hann svo um betur og setti heimsmet á sama hesti á Íslandsmóti. Þá varð hann einnig Íslandsmeistari í 100m skeiði á Kastor frá Garðshorni á Þelamörk.
Á Landsmóti landaði hann öllum þremur Landsmótstitlunum í skeiðgreinum á Kjarki og Kastor; í 100m, 150m og 250m. Þá er Konráð í efstu sætum á flestum þeim mótum sem hann tók þátt í á árinu.
Íþróttakona Fáks
Eyrún Ýr Pálsdóttir
Viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur 2024
Eyrún Ýr átti góðu gengi að fagna á keppnisbrautinni. Á Landsmóti varð hún önnur í forkeppni í A-flokki á Leyni frá Garðshorni á Þelamörk og í milliriðli varð hún efst inn í A-úrslit. A-flokks úrslitin voru gríðar sterk og enduðu þau að lokum í öðru sæti. Á Landsmóti varð hún einnig fjórða í 150 metra skeiði. Í Meistaradeild Lífland sigraði hún á hesti sínum Hrannari frá Flugumýri fimmgang F1 eftir spennandi keppni. Þá náði hún góðum árangri á öðrum mótum.
Lands og Íslandsmótssigurvegarar
Árni Björn Pálsson og Álfamær frá Prestsbæ unnu A-flokk gæðinga í gríðarlega sterkum A-úrslitum og varð Álfamær þar með fyrst hryssna til að vinna A-flokk. Þá er Árni einnig Íslandsmeistari í tölti T1 á hryssunni Kastaníu frá Kvistum. Þá var Árni Björn Pálsson krýndur knapi ársins hjá Landssambandi Hestamannafélaga fyrir árangur sinn á árinu.
Sigurður Vignir Matthíasson og Safír frá Mosfellsbæ unnu B-flokk gæðinga í ekki síður sterkum A-úrslitum þar sem sjónarmun munaði á efstu keppendum.
Konráð Valur Sveinsson og hestar hans Kastor frá Garðshorni á Þelamörk og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu urðu þrefaldir Landsmótssigurvegarar þegar þeir unnu allar skeiðgreinar á Landsmóti: 100m flugskeið, 150m skeið og 250m skeið. Þá settu Konráð Valur og Kjarkur Íslandsmet í 150m skeiði á Reykjavíkurmóti og heimsmet í framhaldi á Íslandsmóti. Konráð er Íslandsmeistari í 150m og 100m skeiði.
Matthías Sigurðsson og Tumi frá Jarðbrú unnu Ungmennaflokk sannfærandi en þeir unnu sér sæti í A-úrslitum eftir að hafa unnið B-úrslit mótsins.