Fordæma alla illa meðferð hrossa
![](https://eidfaxi.is/wp-content/uploads/2025/02/5B9172F479A33DDA500F731BF11870DF227529D1E3D86E1D253D07DD2D510BA6_713x0.jpg)
Skjáskot úr tveimur myndböndum af athæfi mannsins. Fengið af fréttavef Vísis
Umfjöllun á Vísi og í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi, þar sem birt var sláandi myndband af meðferð á folödum sem haldin voru á húsi, hefur ekki farið framhjá mörgum hestamönnum.
Í kjölfarið á þessu hefur Deild hrossabænda innan Bændasamtaka Íslands send frá sér yfirlýsingu þar sem þau fordæma alla illa meðferð hrossa og segja munu beita sér fyrir því að verkferlar geti brugðist strax við ábendingum.
yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér að neðan.
Í ljósi frétta síðasta sólarhringinn þar sem myndband sýnir hræðilega meðferð á hrossum vill stjórn Deildar hrossabænda innan Bændasamtaka Íslands koma á framfæri fordæmingu á allri illri meðferð hrossa. Slík meðferð er með öllu ólíðandi og mikilvægt að regluverk er varðar velferð dýra tryggi að strax sé hægt að grípa til aðgerða þegar slíkt athæfi á sér stað. Ljóst er að regluverk í kringum eftirlit dýrahalds verður að vera í lagi og enginn afsláttur gefinn af því.
Stjórn hrossabænda mun fylgja málinu eftir við þar til bær yfirvöld og beita sér fyrir því að verkferlar geti brugðist strax við svona ábendingum.