,,Forréttindi að geta stundað hestamennsku saman“

  • 17. október 2020
  • Fréttir

Helga og Ási taka við heiðursviðurkenningu fyrir Orku á Ræktun 2018

Viðtal við Ásmund Þórisson og Helgu Friðgeirsdóttur á Hvolsvelli

Á Hvolsvelli búa þau Ásmundur Þór Þórisson og Helga Friðgeirsdóttir þar sem þau stunda hrossarækt. Hesthús eiga þau þar sem sem telur 16 stíur með inniaðstöðu.
Úr þeirra ræktun hafa komið mörg athyglisverð hross sem flest eru undan eða út af gæðingamóðurinni Orku frá Hvolsvelli. Orka átti 16 afkvæmi um dagana, 13 af þeim hafa komið til dóms og 9 þeirra hlotið 1.verðlaun. Hún var felld haustið 2019 þá 27.vetra gömul. Blaðamaður Eiðfaxa renndi við hjá þeim í hesthúsinu þar sem þau voru að snyrta til fyrir veturinn og ræddi við þau um ýmislegt er snýr að hestamennskunni

Kynntust á Landsmóti 1990
Ásmundur er fæddur og uppalinn að Jaðri á Völlum þar sem hann var bóndi um tíma. Helga er fædd og alin upp á Eskifirði. Ási flutti að Hvolsvelli árið 1982, það var svo á Landsmóti á Vindheimamelum árið 1990 kynnast svo þau Helga og hefja sína sambúð í kjölfarið. „Við erum rík þegar kemur að börnum“  Segir Ási, aðspurður um hvað þau eigi mörg börn „Ég átti tvö fyrir, hún átti eitt og við eigum svo tvö saman þannig að við eigum fimm börn.“ Á Hvolsvelli starfar Ási sem skólabílstjóri, en hann er að hætta að vinna nú um áramótin sökum aldurs því hann varð sjötugur í vor. Helga vinnur á pósthúsinu, en er öðrum stundum í hesthúsinu. Þau sjá um tamningu á öllum sínum tryppum sjálf og eru svo í góðu samstarfi við nágranna sinn Elvar Þormarsson sem tekur við þeim og sýnir flest þeirra í kynbótadómi.

Ásmundur og Helga stödd í Hvolfjalli árið 2019 að gá til folalda

Tókst vel til 18 ára gamall
En víkjum sögunni aftur að Orku ættmóður þeirra hrossa. Faðir hennar er Hektor frá Akureyri sem var undan Hervari frá Sauðárkróki og Tinnu frá Akureyri.

Móðir Orku er Litla-Kolla frá Jaðri sem að föðurnum til er undan Glað frá Reykjum og móðirin er Sörladóttirin Kolbrún frá Jaðri. Kolbrún frá Jaðri er ræktuð af Ásmundi, undan Skjónu frá Jaðri sem hann fékk að halda hjá Sigfúsi afa sínum þegar hann var 18 ára gamall.
Til Kolbrúnar má einnig rekja fleiri fræg hross dagsins í dag eins og til dæmis heiðursverðlauna stóðhestanna Skýr frá Skálakoti og Óm frá Kvistum, það má því segja að Ásmundur hafi byrjað sína ræktunarsögu vel þegar hann hélt Skjónu 18 ára gamall.
Ása var greinilega annt um Sigfús afa sinn eins og þessi saga sem Helga segir okkur ber með sér. „Fólkið fyrir austan sagði við mig að það hefði verið umtalað í sveitinni að þetta gengi nú ekki upp með hann Ása hann ynni bara ekki neitt heldur riði út allan daginn með afa sínum á meðan systur hans þræluðu í fjósinu.“

 

Fjórar dætur Orku taka við
Fjórar dætur Orku hafa nú tekið við sem ræktunarhryssur og sumar þeirra hafa nú þegar skilað þeim frábærum hrossum. Vordís frá Hvolsvelli er undan Orku og Orra frá Þúfu. Hún hlaut 8,32 í aðaleinkunn fimm vetra gömul. Hún á í heildina 9 afkvæmi og 5 þeirra eru á tamningaraldri og hafa þau öll komið til dóms. Hæst dæmd er Landsmótssigurvegarinn í fimm vetra flokki hryssna frá því árið 2016, Viðja frá Hvolsvelli, en í hæsta dómi hlaut hún 8,72 í aðaleinkunn sýnd af Bjarna Jónassyni. Vordís mun hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi nú í haust. Vordís er nú fylfull við Draupni frá Stuðlum.

Vordís er ein af efstu hryssum sem hljóta heiðursverðlaun á árinu.

Frigg er undan Orku og Sæ frá Bakkakoti, flugvökur hryssa sem m.a. hefur hlotið 9,5 fyrir skeið. Elsta afkvæmi hennar er nú 5.vetra en henni var einnig haldið undir Draupni í sumar.
Framtíð er 1.verðlauna hryssa undan Stormi frá Leirulæk en henni var haldið í sumar undir Sægrím frá Bergi.
Þá eru þau einnig með í ræktun Glódísi sem er undan Orku og Eldjárni frá Tjaldhólum en þeir Elvar Þormarsson og Jónas Helgason fengu að halda henni í sumar og varð Dagfari frá Álfhólum fyrir valinu.

Viðja frá Hvolsvelli og Elvar Þormarsson á LM2016

Heiðarlegt geðslag er aðalatriðið
En hvað finnst þeim Ása og Helgu verðmætasta að huga að við ræktun hrossa?

„Það er klárlega heiðarlegt geðslag. Við erum ekki endilega að spá í hvort hrossin séu alhliða- eða klárhross en viljum hafa gangskilin hrein og góð. Draumahrossið er þó klárhross með skeiði, ef svo má komast að orði.“ Ási leggur mikið upp úr því að fylgjast með folöldunum þegar þau koma í heiminn. „Ég legg mikla áherslu á að fylgjast með folöldunum fyrstu þrjá sólarhringana, finnst ég oft geta séð út hvað þau hafa að geyma á því tímabili. Ég hef alltaf farið eftir því sem Sigfús afi minn hann sagði við mig þegar ég var 12 eða 13 ára, ef þú fylgist með folaldi fyrstu sólarhringana eftir að það fæðist þá sérðu hvað mun búa í því í framtíðinni.“  Helga tekur við og segir Við erum samt ekkert einhverjir risar í hrossarækt okkur fæðast ekki það mörg folöld á ári. En við höfum svo ofboðslega gaman að þessu. Mig hlakkar til á hverju hausti að taka inn ungu hrossinn. Maður er nýbúinn að sleppa hrossunum þegar spennan fyrir haustinu er byrjuð.“ 

Pensill frá Hvolsvelli eru úr ræktun þeirra Helgu og Ása hér er hann á landssýningu kynbótahrossa ásamt Elvari Þormarssyni Ljósmynd: Louisa Hackl

Erfiðara fyrir yngri hrossin

En hvað finnst þeim um þær breytingar sem gerðar voru í kynbótadómi í ár?
„Ég get ekki séð að það segi neitt í ræktun að þurfa að sleppa taum á tölti en það á engu að síður að vera hægt á bestu hrossunum. Ég held hinsvegar að hrossin þurfi að vera meira tamin og því spurning hvort þetta sé réttmæt krafa á yngstu hrossin.“ Segir Ásmundur

Aðspurð um hestamennskuna á Hvolsvelli segja þau að þar ríkja gleði og að framtíðin sé björt. „Það er líka mjög jákvætt að það virðist vera þó nokkuð af yngra fólki hér sem stundar hestamennsku sem er frábært. Skólinn hérna hjálpar til því þar eru kennd knapamerki og þar er unnið frábært starf. Krakkarnir fá lánaða hesta hér á svæðinu og aðstöðu. Vandamálið tekur hins vegar við þegar krakkarnir eru ekki á námskeiðinu í skólanum því þá vantar eitthvað sem tekur við þeim sem ekki hafa greiðan aðgang að hrossum.“  Þau Ási og Helga hafa lánað hross í þetta verkefni og stundum hafa krakkarnir líka sniglast í kringum hesthúsið hjá þeim.

Benedikt Leví barnabarn þeirra Ása og Helgu kemur oft í hesthúsið að hjálpa til mynd: Einkasafn

Horfa björtum augum fram veginn
Eins og áður kom fram að þá hættir Ási að vinna nú um áramótin og getur því farið að einbeita sér að fullu að tamningum ásamt Helgu sem hleypu í hesthúsið að hverjum vinnudegi loknum. Við kveðjum þessi áhugasömu heiðurshjón og leyfum Helgu að eiga síðasta orðið. „Framtíðin er björt og spennandi. Það er mikill styrkur í því að við höfum bæði gaman að því að vera í kringum hrossin og það eru forréttindi að geta stundað þetta saman.“

Ásmundur á Hörpu-Sjöfn frá Hvolsvelli á yfirliti í Hafnarfirði árið 2014 mynd: Aðsend

 

 

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar