Forystufólk SIF segir af sér

Ingemar t.v. og Anna t.h. ganga á eftir prúðbúnum fiðluleikara. Ljósmynd heimasíða SIF
Á heimasíðu Sænsku Íslandshesta samtakanna (SIF) birtist í gærkvöldi yfirlýsing frá Ingemar Tapper, formanni og Önnu Ryberg framkvæmdarstjóra, þess efnis að þau segi sig bæði frá störfum. Ingemar mun sinna formennsku fram til 6. apríl en Anna stíga til hliðar frá og með deginum í dag.
Samkvæmt yfirlýsingunni hafa þau þurft að sæta gagnrýni vegna starfa sinna innan samtakanna, sem að þeirra mati hefur verið harkaleg og ósanngjörn. Á það uppruna sinn í því að árið 2021 varð SIF meðlimur í sænska íþróttasambandinu og hafa þau því þurft að gera breytingar á starfseminni og á stundum þurft að taka erfiðar ákvarðanir.
Heimildir Eiðfaxa herma að ósætti hafi verið á meðal starfsfólks SIF vegna stjórnunarhátta og slæms andrúmslofts en það kemur einnig fram í grein sem birtist í morgun á hestamiðlinum Ridsport. Þar segir frá því að undanfarna mánuði hafi blaðamaður þess unnið að því að fá svör frá forystufólki SIF er varðar fjölda ábendinga um slæmt andrúmsloft með litlum árangri.
Kjósa þarf því um nýjan formann SIF nú í apríl og í framhaldinu ráða nýjan framkvæmdarstjóra.