Föstudagspistill Hinna Sig

  • 16. október 2020
  • Fréttir
Æfingin skapar meistarann eða hvað?

Við verðum góð í öllu sem við æfum, sama hvað það er. Það sem við eyðum tíma í, verðum við góð í.
Ég þekki til dæmis einn alveg meiriháttar náunga sem er algjör meistari í að syngja falskt. Hann elskar að syngja, og syngur á hverjum degi en alltaf jafn falskt. Hann er orðinn svo flinkur í því að er meira og minna orðið ómögulegt að breyta því.

Semsagt æfingin skapar meistarann!!!

Ef við erum alltaf í fýlu, hverju verðum við góð í þá? Eða ef við erum alltaf stressuð? Ja þið skiljið.

Í hestamennskunni tel ég þetta vera alveg ótrúlega mikilvægt atriði. Við verðum að vera flink að velja hvað við æfum.
Tíminn sem við getum þjálfað hestinn okkar er mjög takmarkaður. Það er ómögulegt að vera á baki 11 tíma á dag á hesti sínum, hann verður þreyttur og við líka. Svo hver þjálfunarstund telur ansi mikið ef eitthvað á að verða úr því.

Ég er ekki að segja að það þurfi að líta út eins og maður sé að fara inn á völl á Landsmóti í hverjum reiðtúr, alls ekki.
En, við þurfum að vera dálítið nákvæm til dæmis ef við ríðum af stað á hægu tölti, að hugsa „Er þetta nógu gott tölt til þess að það sé þess virði að eyða tíma í að æfa það?“
Er hesturinn slakur, spennulaus?
Ber hann sig sjálfur?
Er takturinn í lagi?
Ef svarið er já, þetta tölt gæti orðið eitthvað… þá er um að gera að halda áfram og æfa það.
Ef svarið er nei, hann er spenntur, stífur á vinstri hlið eða hvað sem gæti verið. Í guðanna bænum ekki láta sem ekkert sé og halda áfram að æfa það!!!!!
Ef hesturinn fær að hanga á vinstri taumnum lengi, í hverju verður hann góður þá????

Ég hef til dæmis oft séð þegar hesturinn stendur ekki kyrr þegar farið er á bak. Sami hestur dag eftir dag, alltaf fer hann eins að og fyrir rest var knapinn orðinn bráðflinkur í að hoppa á bak á ferðinni í staðinn fyrir að æfa hestinn í að standa kyrr.
Semsagt, veljum hvað við æfum og þá segi ég með góðri samvisku: Æfingin skapar meistarann!!!!

All the best 🙂

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar