Fræðslufundur markaði upphaf vetrarstarfs Hæfileikamótunar LH
Fræðslufundar gestir Ljósmynd: LH
Vetrarstarf Hæfileikamótunar Landssambands hestamannafélaga hófst formlega í byrjun janúar með fræðslufundi fyrir þátttakendur og foreldra þeirra. Frá þessu segir á vef LH. Um 40 unglingar og foreldrar sóttu fundinn í fundarsal ÍSÍ í Íþróttamiðstöðinni í Laugardalnum, auk þess sem þátttakendur af Norðurlandi fylgdust með í gegnum fjarfund í reiðhöll Léttis á Akureyri.
Yfirþjálfari Hæfileikamótunar, Sigvaldi Lárus Guðmundsson, kynnti dagskrá vetrarins og fór yfir markmið verkefnisins. Hæfileikamótun LH miðar að því að styðja við efnilegastu unga knapa landsins, veita þeim innsýn í metnaðarfullt afreksstarf og hvetja þau áfram á braut afreksknapans. Sigvaldi lagði jafnframt áherslu á þann heiður og ábyrgð sem fylgir því að vera valinn í hóp þeirra bestu í sínum aldursflokki, enda séu þátttakendur fyrirmyndir innan íþróttarinnar. Þá hvatti hann ungmennin til að nýta verkefnið til að byggja upp tengslanet til framtíðar.

Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari hæfileikamótunar. Ljósmynd: LH
Afreksstjóri LH, Hinrik Þór Sigurðsson, hélt fyrirlestur um hugarþjálfun og mikilvægi þess að ná tökum á huganum, bæði í þjálfun og keppni. Hann fjallaði einnig um samskipti innan hópsins og notkun samfélagsmiðla og minnti á að framkoma og orðræða á netinu móti orðspor knapanna. Í Hæfileikamótun sé lögð áhersla á gagnkvæma virðingu og stuðning þátttakenda.

Hinrik Þór Sigurðsson, afreksstjóri LH. Ljósmynd: LH
Að lokum flutti Patrekur Jóhannesson, sérfræðingur hjá Afreksmiðstöð Íslands og fyrrverandi landsliðsmaður og þjálfari í handbolta, stuttan en áhrifaríkan fyrirlestur. Hann miðlaði reynslu sinni af erfiðleikum á afreksferlinum og minnti á að leiðin til árangurs sé sjaldnast bein. Þegar á móti blæs skipti sköpum að hafa verkfæri til að takast á við álag og stress.

Patrekur Jóhannesson Ljósmynd: LH
Fyrirlestrarnir endurspegla rauða þráðinn í starfi Hæfileikamótunar í vetur, þar sem sérstök áhersla verður lögð á hugarþjálfun samhliða allri kennslu.
Í vetur taka 42 efnilegir knapar í unglingaflokki þátt í Hæfileikamótun LH. Þeim er skipt í tvo hópa, yngri og eldri. Fram undan eru vinnuhelgar hjá Eldhestum í Ölfusi, þar sem hvor hópur hittist á tveimur helgum á vorönn. Í apríl er jafnframt fyrirhugaður fræðsludagur með heimsóknum til fremstu afreksknapa landsins og frekari fyrirlestrum.
Árni Svavarsson á Hlemmiskeiði látinn
Styttist í fyrsta mót í Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum