Landsamband hestamanna Framboð til stjórnar Landssambands hestamannafélaga

  • 23. október 2024
  • Aðsend grein Fréttir
Hákon Hákonarson – Hestamannnafélaginu Herði

Ég var formaður í hestamannafélaginu Herði á árunum 2016 – 2020. Sem formaður voru aðal áherslur mínar verklegar framkvæmdir á svæðinu, ásamt því að hlúa að æskulýðsstarfinu og reiðskóla fatlaðra.
Á Landsþingi LH 2020 var ég kjörinn í stjórn LH. Ég er gjaldkeri stjórnar, stjórnarmaður í Landsmóti hestamanna ehf og í Skógarhólum ehf og formaður Reiðveganefndar LH.

Sem stjórnarmaður hef ég lagt mesta áherslu á að færa LH nær hestamannafélögunum og hinum almenna hestamanni. M.a. með framkvæmd könnunar um styrki sveitarfélaganna til hestamannafélaganna sem við síðan miðluðum til félaganna. Þar þurfa hestamannnafélögin að sækja, t.d. með samanburði við önnur íþróttafélög á sínu svæði. Þar getur LH lagt þeim lið. Stjórn LH hefur fundað með flestum hestamannafélögum landsins og þannig kynnst væntingum þeirra og vonum, sem síðan nýtast stjórninni í stefnumótun sambandsins.

Talsverðar endurbætur hafa verið gerðar á húsnæði LH að Skógarhólum og fleiri endurbætur eru fyrirhugaðar.

Gerður var nýr samningur við Vegagerðina í stað samnings frá 1982. Helstu atriði hans eru, að þegar lagt er bundið slitlag á stofn-, tengi, og landsvegi, sem áður hafi nýst sem reiðstígar, sé gerð reiðfær leið samhliða framkvæmdinni og kostnðurinn greiddur af framkvæmdafé viðkomandi vegar. Samhliða var endurútgefin handbók VG og LH, Reiðstígar gerð og uppbygging og skal stuðst við þær leiðbeingar við gerð reiðleiða.

LH hefur átt nokkra fundi með ráðherra samgöngumála, sem veitti aukafjárveitingu upp á 100 milljónir króna, sem komu til auka úthlutunar 2021 og 2022, 50 milljónir kr hvort ár. Ráðherra mun á næstunni skipa starfshóp sem skal taka saman upplýsingar um stöðu reiðvegamála hér á landi og vinna kostnaðarmetna tillögu að áætlun í reiðvegamálum til framtíðar sem ætlað er að nýtist m.a. við mótun samgönguáætlunar.

Nýliðun í hestamennsku og uppbygging félagshesthúsa eru mér mjög hugleikin. Framtíðin liggur í komandi kynslóð og það þarf að gefa áhugasömum ungmennum tækifæri á að kynnast þessu gefandi áhugamáli. En til þess þurfa þau aðstöðu og aðstoð frá sínum hestamannafélögunum.

Ég hef mikla reynslu af rekstri fyrirtækja og hef rekið mitt eigið fyrirtæki í yfir þrjátíu ár.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar