Landsamband hestamanna Framboð til stjórnar Landssambands Hestamannafélaga

  • 24. október 2024
  • Aðsend grein Fréttir
Þórhildur Katrín Stefánsdóttir – Hestamannafélagið Hornfirðingur, Hörður og Glampi

Ég heiti Þórhildur Katrín Stefánsdóttir, sit í stjórn LH og gegni stöðu varaformanns.

Ég býð mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu fyrir tímabilið 2024 – 2026.

Ég er uppalin í Mosfellsbænum og er uppeldisfélagið mitt Hörður. Í dag er ég búsett á austurlandi og er í hestamannafélaginu Hornfirðing. Þá er ég formaður hestamannafélagsins Glampa á Djúpavogi. Ég er lögmaður að mennt og starfa sem verkefnastjóri í fjármálum hjá Múlaþingi og í ferðaþjónustu.

Hestar hafa verið hluti af lífi mínu alla tíð en ég er svo heppin að foreldrar mínir og systkini deila þessum áhuga líka. Ég er alin upp við félagsmálastörf þar sem foreldrar mínir hafa verið virkir í starfi Harðar og hef ég tekið mér þau til fyrirmyndar og finnst mikilvægt að hlúð sé að þeim mikla mannauði sem býr innan hestamannafélaganna í öllum sjálfboðaliðunum sem gera starf félagana mögulegt.

Það hefur verið bæði gefandi, gaman og lærdómsríkt að sitja í stjórn Landssambandsins og hef ég mikinn áhuga á að halda áfram minni stjórnarsetu. Ég hef vilja til þess að vinna áfram að því góða starfi sem unnið er að innan sambandsins enn ekki síður að takast á við nýjar áskoranir og verkefni. Auk þess að sitja sem stjórnarmaður í aðalstjórn er ég formaður tveggja nefnda á vegum sambandsins, og nefndarmaður í nefnd á vegum FEIF um hestavelferð.

Nýliðunar og útbreiðslumál eru mér mjög hugleikin ásamt öryggismálum og hef ég gegnt formennsku í nefndum um hvort tveggja. Í þeim nefndum fékk ég að starfa með frábærum og kröftugum hópi nefndarmanna ásamt starfsmönnum landssambandsins sem öll lögðu mikinn metnað í starfið. Í skýrslu stjórnar eru verkefnum nefndanna gerð ítarleg skil og hvet ég áhugasama um að kynna sér hana.

Önnur mál sem eru mér ofarlega í huga eru til dæmis styrkir til hestamannafélaga, sýnileiki hestamennskunnar, æskulýðsmál, hestavelferð, afreksstarf og fræðslumál.

Tvö ár eru fljót að líða, ég er stolt af þeim verkefnum sem hafa unnist á þeim tíma og er full eldmóðs að halda áfram að vinna að þeim sem og fleiri mikilvægum málum fái ég kosningu til að sitja áfram í stjórn Landssambands Hestamannafélaga.

Kær kveðja,

Þórhildur Katrín Stefánsdóttir

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar