Landsamband hestamanna Framboð til varastjórnar Landssambands hestamannafélaga

  • 24. október 2024
  • Aðsend grein Fréttir
Sigurbjörn Eiríksson - Hestamannafélaginu Spretti

Örlítið um mig: 

Ég er fæddur inn í hestamennskuna, afi minn og alnafni hafði brennandi áhuga á hrossarækt, hann kenndi ræktun sína við Stóra Hof á Rangárvöllum. Ég varði ég miklum tíma með honum á mínum yngri árum þannig að hestar og allt hestatengt var aldrei langt undan, ég stundaði hestamennsku af krafti allt til 18 ára aldurs. Á þeim aldri var ég að byrja í menntaskóla, hugurinn og áhuginn leitaði annað. Alltaf var ég þó með það bak við eyrað  að byrja aftur í hestum, það var svo fyrir 9 árum að ég eignaðist hest og þá var ekki aftur  snúið, síðan komu fleiri hestar, svo hestakerra og hesthús og svo framvegis. Áhuginn  hafði blundað í mér í fjölmörg ár og er óhætt að segja að ég hafi komið inn með krafti og  áhugamálið nú orðið að lífstíl.  

Ég hef gaman af öllu sem kemur að hestamennsku, daglegum útreiðum, hestaferðum og  hrossaræk. Það sem mér finnst vera sérstaklega heillandi við hestamennskuna eru að  þar eru engin landamæri vegna aldurs, stétt né stöðu, þetta er áhugamál þar sem að  margar kynslóðir geta átt góða daga saman. Sem dæmi þá eru mínir daglegir  hestafélagar með 70 ára aldursmun. Fyrir nokkrum árum fór ég í námið Reiðmaðurinn,  þrír frábærir vetur í því námi og ég fann að reiðmennska er mikið meira en bara reiðtúrar  fram og til baka. Í dag er ég duglegur að sækja námskeið til að bæta við mig þekkingu og  fá aðstoð með þau hross sem ég er að ríða út hverju sinni.  

Reynsla af félagsstörfum og sýn fram á við: 

Ég sinnti formennsku í Meistaradeild í hestaíþróttum frá haustinu 2020 – 2023, það var  mikill skóli, þar fékk ég góða innsýn inn í félagstörf tengdum hestum, kynntist þar  frábærum samstarfsaðilum í stjórn, metnaðarfullum knöpum og öflugum liðseigendum.  Það má segja að á þessum árum í Meistaradeild að þá hafi ég áttað mig á því að það má  alltaf láta gott af sér leiða, svo lengi sem að maður er tilbúinn að leggja sig fram og láta  hendur standa fram úr ermum og hlusta á samstarfsaðila. Frá og með síðasta vori þá hef  ég setið í stjórn Spretts, á þessari stuttu setu minni þá hefur mér fundist vanta mikið  meiri stuðnings, samtöl, LH við hestamannafélögin. Það varð kveikjan á því að mig langar  að komast nær LH og kynnast því sem fer fram þar. 

Mig langar að láta gott af mér leiða með því að bjóða aðstoð mína í varastjórn LH og hef  áhuga á að taka þátt í að móta LH inn í komandi framtíð, hestamennskan hefur þróast  mjög hratt síðustu 10 – 15 árin og ljóst að LH þarf að gera betur og fylgja eftir þróun af  meiri krafti. Mig langar að taka þátt í því í góðum hópi sem hefur áhuga á að gera LH enn 

sterkara og nútímalegra en það er í dag, horfa til framtíðar. Þau málefni sem mér finnst  þurfa skoða sérstaklega eru: 

  • Nýliðun í hestamennsku, það er erfitt að ætla sér að komast inn ef að baklandið  er ekki til staðar, þessu þurfum við að breyta saman, þarna þarf LH að stíga fastar  inn með hestamannafélögunum 
  • Halda áfram að styðja við öflugt æskulýðsstarf, flest öll hestamannafélögin hafa  staðið vaktina með prýði, það vantar þó mikið meiri stuðning frá LH 
  • Margar innanhúsdeildir eru starfandi yfir vetrartímann, hver með sínum hætti, hér  ætti LH að stíga inn. Samræma reglur og verklag sem styðja við frekari framþróun  á öllum þessum deildunum 
  • Fara í stefnumótun með aðildarfélögum LH, það þarf að fá fleiri augu og eyru til að  horfa til framtíðar, ekki bara þá fáu aðila sem komast inn á Landsþing, hvernig  hestamennsku viljum við sjá á komandi árum ? 
  • Halda áfram að vinna að bættari reiðleiðum, hér hefur verið unnið grettistak í  gegnum árin og því þarf að halda áfram. LH þarf að vinna með  

hestamannafélögum í að eiga gott samstarf við sveitarfélögin og halda áfram að  byggja upp gamlar þjóðleiðir 

Hvað geri ég utan hestamennsku: 

Ég á þrjá syni, ég og yngsti sonur minn 6 ára stundum saman hestamennsku í Spretti og  erum við feðgar virkir í félaginu. Ég starfa sem framkvæmdarstjóri á Tækni – og  Innviðasviði Vodafone/Sýn, ég hef áralanga reynslu úr stjórnendastörfum úr  atvinnulífinu, hef setið í ýmsum stjórnum tengdri minni vinnu sl 20 árin. Ég hef gaman að  vinna með fólki, taka að mér krefjandi verkefni, góð samvinna og árangur hvetja mig  áfram og veit ekkert skemmtilegra en takast á við áskoranir og ná settum markmiðum.  

Til ykkar: 

Kæru félagar, mig langar til að leggja mitt af mörkum í að efla LH, það er alveg ljóst að vel hefur verið að verki staðið síðustu árin en það má alltaf bæta það sem gott er. Ég kalla eftir stuðningi frá ykkur til að komast inn í varastjórn LH svo ég geti tekið þátt í hraðri framþróun hestamennskunnar. 

Kópavogur 22.10.2024 

Sigurbjörn Eiríksson

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar