Landsamband hestamanna „Framtíðarsýnin er skýr“

  • 22. október 2025
  • Fréttir
Viðtal við nýjan formann Landsliðsnefndar um afreks- og landsliðsmál

Sigurbjörn Eiríksson hefur tekið við sem formaður Landsliðsnefndar LH. Í haust var farið í að stofna vinnuhóp sem starfar við hlið nefndarinnar og hefur hópurinn verið að rýna í stöðu afreksmála innan LH.

Hvað er að gerast í afreks- og landsliðsmálum í LH um þessar mundir?

Núna í haust stóðum við frammi fyrir því að samningar við þjálfara landsliðanna voru lausir. Það skapaði ákveðin tímamót þar sem við gátum horft á stöðuna í heild sinni og ákveðið að gefa okkur svigrúm til að endurskipuleggja bæði afreks- og landsliðsmálin frá grunni.

Ákveðið var að stofna sérstakan vinnuhóp sem starfar við hlið Landsliðsnefndar og hefur það hlutverk að fara í heildarskoðun á allri uppbyggingu, skipulagi og verklagi innan afreksstarfsins. Það er alveg ljóst að vel hefur verið unnið að þessum málum hingað til, en það er þó alltaf hollt að staldra örlítið við, fara ofan í saumana og skoða hvort að frekari tækifæri séu til að gera hlutina enn betur eða öðruvísi.

Hvernig hefur vinnunni miðað?

Vinnunni miðar vel, það er í mörg horn að líta og fjölmargar spurningar hafa komið upp í ferlinu. En framtíðarsýnin er skýr – við stefnum á áframhaldandi uppbyggingu og ná framúrskarandi árangri. Við erum að skoða öll afreksmálin í heild sinni, þá starfið í kring um Hæfileikamótun, U21-landsliðið og A-landsliðið. Það hafa komið upp spurningar hvort árangursríkara sé að fleiri aðilar komi að vali landsliðshóps, hvort fleiri en einn þjálfari þjálfi landsliðið eða hvort þjálfun beggja landsliðanna skuli vera á höndum eins þjálfara. Þetta eru aðeins nokkur dæmi af þeim atriðum sem við erum að vinna að, og þessi vinna heldur áfram á næstu dögum.

Hvenær má búast við að vinnuhópurinn ljúki störfum og niðurstöður liggi fyrir?

Þessi vinna þarf að ganga hratt en jafnframt vera fagleg og vel ígrunduð. Það er mikilvægt að starf landsliðanna hefjist sem fyrst. Við stefnum að því að ljúka þessari greiningarvinnu á næstu dögum og leggja fram niðurstöður fyrir Landsliðsnefnd og stjórn LH.

En hver er nýr formaður Landsliðsnefndar?

Ég heiti Sigurbjörn Eiríksson (Sibbi) og starfa sem framkvæmdastjóri á Innviðasviði Sýnar, ég hef áralanga reynslu af stjórnendastörfum úr atvinnulífinu, hef setið í ýmsum stjórnum tengdri minni vinnu sl. 20 árin. Ég hef gaman af að vinna með fólki, taka að mér krefjandi verkefni, góð samvinna og árangur hvetja mig áfram og veit ekkert skemmtilegra en takast á við áskoranir og ná settum markmiðum.

Hef mjög gaman af öllu sem kemur að hestamennsku, keppni, daglegum útreiðum, hestaferðum og hrossarækt. Það sem mér finnst vera sérstaklega heillandi við hestamennskuna eru að þar eru engin landamæri vegna aldurs, kyns, stétt né stöðu, hestamennska er áhugamál þar sem að margar kynslóðir geta átt góða daga saman.

Ég sinnti formennsku í Meistaradeild í hestaíþróttum frá haustinu 2020 – 2023, það var mikill og góður skóli, þar fékk ég góða innsýn inn í félagstörf tengdum hestum, kynntist þar frábærum samstarfsaðilum í stjórn, metnaðarfullum knöpum og öflugum liðseigendum. Það má segja að á þessum árum í Meistaradeild að þá hafi ég áttað mig á því að það má alltaf láta gott af sér leiða, svo lengi sem að maður er tilbúinn að leggja sig allan fram. Ég hef setið í stjórn Spretts síðan vorið 2024, verið í varastjórn LH síðan haustið 2024 og setið í nefndum á vegum LH, þar á meðal Landsliðsnefnd. Núna í september tók ég svo við formennsku í Landsliðsnefnd af Kristni Skúlasyni.

Eitthvað að lokum?

Mér finnst algjör forréttindi að fá að taka þátt í þessu starfi og vinna með fólki sem brennur fyrir hestamennsku. Það er lykilatriði að hafa skýra stefnu í afreksmálum og tryggja að Ísland haldi áfram að vera leiðandi í hestaíþróttum á heimsvísu.

www.lh.is

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar