Fréttir af Feif þingi

  • 10. febrúar 2017
  • Fréttir
Eiðfaxi Image
Breytingar í kynbótadómi er varða viðsnúninga og það að taka skuli hest af stökki á skeið til hæstu einkunna á skeiði

Ársfundur FEIF (alþjóðasamtaka Íslandshestafélaga) var haldinn 3.- 4. febrúar og að þessu sinni í Finnlandi. Fjölmargir fulltrúar frá aðildarlöndum FEIF sóttu fundinn og þótti hann takast vel. Á aðalfundi FEIF og einnig á sérstökum fundi ræktunarleiðtoga FEIF-landanna var rætt um fjölmörg atriði er varða ræktunarmál; m.a. skipulag kynbótasýninga, nafngiftir hrossa og nýjar vinnureglur við kynbótadóma sem taka gildi strax í vor.

Nýjar vinnureglur við kynbótadóma.
Tvær nýjar vinnureglur við kynbótadóma sem komu frá fagráði í hrossarækt voru teknar til umræðu á þinginu. Þær voru báðar samþykktar og taka því gildi strax í vor. Fyrri vinnureglan á við dóma á vilja og geðslagi. Það hefur verið í gildi vinnuregla sem segir að fari hrossið ítrekað lengra en afmörkun brautar segir til um geti það haft áhrif á dóma á vilja og geðslagi. Þetta hefur ekki þótt nægilega skýr regla og ekki nógu vel til þess fallin að dómnefndir meðhöndli á samræmdan hátt þegar hrossi er riðið ítrekað lengra en afmörkun brautar segir til um. Ástæðan fyrir þessari reglu er sú að gera dómnefndum betur kleift að sjá þegar hrossið er hægt niður í enda brautar og snúið við en það er mikilvægt við mat á þjálni. Ef hrossinu er riðið lengra en afmörkun brautarinnar sjá dómarar ekki niðurhægingar og viðsnúninga nægilega vel og að sjálfsögðu merki um óþjálni sé ekki hægt að hægja hrossið niður og snúa við innan brautar. Því hefur verið ákveðið að taka í gildi skýrari reglu um þetta atriði til að bæta mat á vilja og geðslagi. Reglan er sem hér segir:

Til að bæta mat á samstarfsvilja og þjálni skal, fyrir hærri einkunnir fyrir vilja og geðslag, horft til þess að hrossið sé hægt niður á fet í viðsnúningum á brautarendum. Ef ekki er hægt að hægja hrossið niður og snúa við innan afmörkunar brautarinnar, þá er 8.0 hámarks einkunn fyrir vilja og geðslag. Þó má gera undantekningu þegar um sýningu á mjög greiðu stökki og skeiði er að ræða svo fremi að niðurhægingin sé mjúk og átakalaus. Hverfi hross úr sjónsviði dómara eða sýnir mikla óþjálni er 7.0 hámarkseinkunn fyrir vilja og geðslag. Til að hljóta hækkun fyrir vilja og geðslag á yfirlitssýningu þarf að sýna greinilega fram á að hægt sé að hægja hrossið mjúkt og átakalaust niður innan afmörkunar brautarinnar.

Það er merki um þjálan og mikinn vilja ef hægt er að hægja niður á fet á flestum gangtegundum í enda brautar og spinna hrossið upp til afkasta endurtekið í plús og mínus átt hestsins. Það skal því horft til þess ef hinar hærri einkunnir eru gefnar. Hámarkseinkunn er sett sem 8.00 sé hrossinu riðið út fyrir afmörkun brautar en það er gert vegna þess að þá sér dómnefndin viðsnúninga í brautarendum ekki nægilega vel og takmarkar matið á þjálni hestsins. Undantekningu má gera á þessari reglu ef hrossinu er riðið til mikilla afkasta á skeiði og stökki. Það er gert til að bjóða afrekshrossum, ungum sem eldri, möguleika á hestvænum niðurhægingum. En það er að því gefnu að hraðinn sé afar mikill og niðurhægingin eigi sér að mestu stað innan brautar.

Hvað varðar mat á skeiði var ákveðið að bæta við nýrri vinnureglu en hún er þessi:

Þegar einkunnir 8.5 eða hærri eru gefnar fyrir skeið skal hestinum greinilega riðið á stökki í aðdraganda skeiðsins og hann tekinn niður á skeið af stökki. Einnig skal horft til þess að hesturinn sé í jafnvægi í niðurhægingu.

Þessi regla er sett til þess að bæta mat á skeiði; takti og líkamsbeitingu hestsins á skeiði. Tölt og skeið eru líkar gangtegundir að svo mörgu leyti og því er til bóta við mat á skeiði að sjá að hægt sé að losa aðeins um hestinn á stökki áður en hann er tekinn niður á skeið. Það skilur á milli hesta sem eru snjallvakrir og eiga auðvelt með líkamsbeitingu (snið) sem skilar svifi og þeirra hrossa sem þarf að stífa af og renna inn í skeið af tölti til að sækja svif í gangtegundina. Einnig er þetta íslensk reiðhefð og krafa sem gerð er til hrossa í keppni til hærri einkunna; hvort sem það er í fimmgangi, gæðingakeppni eða gæðingaskeiði. Hugmyndin með því að fara fram á að hesturinn sé í jafnvægi í niðurhægingu er ekki sú að fara fram á útfærslu á skeiðsprettum líkt og í gæðingaskeiði, heldur að sjá að hesturinn sé í andlegu og líkamlegu jafnvægi á skeiðinu og hvellstytti sig ekki í endaspretts.

Skipan dómnefnda.

Þá var formlega samþykkt breyting á reglum FEIF um skipan formanna í dómnefndir á kynbótasýningum um heim allan. Þessi nýja regla kveður á um að skipaður verði hópur 12 dómara og verður nauðsynlegt að velja einhvern úr þessum hópi til að gegna formennsku í hverri dómnefnd. Valið mun byggja á reynslu þeirra og þekkingu og verður þessi hópur valinn af kynbótadómaranefnd FEIF til tveggja ára í senn. Þetta er stórt skref í átt að enn betra samræmi í dómstörfum á milli sýninga og landa og tryggir viðunandi reynslu í hverri dómnefnd.
Nafngiftir hrossa.

Einnig var samþykkt regla um nafngiftir íslenskra hrossa en ákveðið var að öll FEIF-löndin sameinist um að halda í þá hefð að skíra íslensk hross íslenskum nöfnum. Það hefur reyndar verið í gildi sú regla fyrir skráningar í WorldFeng að nöfn hrossa skuli samræmast íslenskri nafnahefð en ákveðið var að herða aðhaldið í kringum þessi mál og taka í gildi skýrari reglu. Í WorldFeng er nafnabanki með fleiri þúsund nöfnum sem sífellt er í vinnslu og verið að bæta góðum og gildum nöfnum þar inn. Við grunnskráningu hrossa í heimarétt er hægt að skrá nöfn sem eru í nafnabankanum en ef þau eru ekki þar þurfa skrásetjarar WorldFengs að sjá um skráninguna. Þar er því ákveðin sía en gildum nöfnum sem hugmynd kemur um verður svo bætt jafnóðum í bankann. Miðað við nafnareglur hjá mörgum öðrum hestakynjum er þetta afar einföld regla og setur ræktendum lítil takmörk hvað nafngiftir varðar. Hún er sem hér segir:

Hestaeigendur geta skráð nafn á hross sín í WorldFeng. Hross verður að nefna áður en þau eru sýnd í kynbótadómi eða í keppni sem er skráð í WorldFeng og því nafni er ekki hægt að breyta eftir þetta. Nafni er ekki hægt að breyta eftir að hrossið hefur eignast skráð afkvæmi. Hestaeigendur geta haft nafnabanka WorldFengs til viðmiðunar við nafngjöf, en sé það nafn sem þeir hafa í huga ekki í nafnabankanum geta þeir sótt um leyfi fyrir nafninu hjá skrásetjurum WorldFengs og nafni sem hlýtur samþykki er bætt í nafnabankann. Eftirtaldar reglur gilda um nöfn á hrossum sem skráð eru í WorldFeng:

 

  • Nafnið þarf að vera í samræmi við íslenskar reglur og hefðir um nafngiftir.
    • Nafnið þarf að geta tekið íslenskri eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
    • Nafnið má ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi.
    • Nöfn þurfa að vera í karlkyni fyrir stóðhesta/geldinga og í kvenkyni fyrir hryssur, hvorugkyns orð eru ekki leyfileg sem nöfn.
  • Nöfn sem innihalda skammstafanir eru ekki leyfileg.
  • Nöfn sem eru ruddaleg eða hafa klúra meiningu, nöfn sem þykja ekki smekkleg eða eru dónaleg gagnvart trúar-, eða þjóðfélagslegum hópum eru ekki leyfð.

Hérna hafa verið tíundaðar nýjar vinnureglur við kynbótadóma sem verða vonandi til bóta fyrir dómkerfið og til þess fallnar að skila okkur enn betri upplýsingum um eðlisgæði hrossanna. Af öðru sem fram fór á fundinum má nefna að Heimir Gunnarsson var kosinn í kynbótadómaranefnd FEIF í stað Guðlaugs Antonssonar sem gaf ekki kost á sér áfram. Þá kynnti Kristín Halldórsdóttir, formaður skrásetjaranefndar WorldFengs, vinnu nefndarinnar. Hún vinnur m.a. að samræmingu á vinnubrögðum við skrásetningu á hrossum í WorldFeng. Þá kynnti Jón Baldur Lorange ársskýrslu WorldFengs. Áskrifendum að WorldFeng hefur fjölgað nú á hverju ári undanfarið og nú eru þeir um 21.000 manns í 24 löndum en heimsóknir í gagnagrunninn voru rúmlega 830.000 á síðasta ári. Þá er gaman að geta sagt frá því að snjalltækjavæðing WorldFengs er í fullum gangi og stefnt er að fyrstu útgáfu af WorldFengs appi í apríl 2017.

Frétt fengin af vef RML sem nálgast má hér

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar