Fyrirmyndarfélagið Máni
Á heimasíðu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) kemur fram að Hestamannafélagið Máni hafi fengið endurnýjun sem fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ. Þar segir frá því að Máni hafi hlotið viðurkenninguna á aðalfundi félagsins sem fram fór þriðjudaginn 19. nóvember. Máni hlaut viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag árið 2003, fyrst allra hestamannafélaga og var á sama tíma eitt af fyrstu félögunum innan ÍSÍ sem hlaut þann heiður.
Það var Eiður Gils Brynjarson formaður Mána sem tók við viðurkenningunni úr hendi Hafsteins Pálssonar sem situr í framkvæmdastjórn ÍSÍ. Við sama tilefni sagði Eiður. „Við erum stolt af því að vera Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og að vera jafnframt fyrsta hestamannafélagið sem hlaut þessa nafnbót. Þessi viðurkenning hjálpar okkur að vaxa og dafna og ýtir undir jákvætt viðhorf til okkar starfs“
Samkvæmt heimasíðu ÍSÍ eru, auk Mána, þrjú önnur hestamannafélög Fyrirmyndarfélög en þau eru Hörður, Sleipnir og Léttir. Til þess að hljóta þann heiður þurfa félögin að uppfylla ákveðin skilyrði og eftir að félagið hlýtur viðurkenninguna gildir hún í fjögur ár. Lesa má meira um hvaða skilyrði þarf að uppfylla með því að smella hér.