Fyrstu miðsumarssýningu ársins lokið

  • 16. júlí 2020
  • Fréttir

Sindri frá Hjarðartúni og Hans Þór Hilmarsson

Fyrstu miðsumarssýningu ársins er nú lokið. Sýningin fór fram á Hellu og hófst hún á sunnudaginn og lauk með yfirlitssýningu í dag. Sýningin markaði upphaf miðsumarssýninga en framundan í næstu viku er sýning á Hólum í Hjaltadal og næstu tvær vikurnar verða hross sýnd á Hellu.

Alls voru 88 hross sýnd í fullnaðardómi og fóru 52 þeirra í 1.verðlaun.

Hæst dæmdi stóðhestur sýningarinnar er hinn fimm vetra gamli Sindri frá Hjarðartúni en hann hlaut fyrir sköpulag 8,25, fyrir hæfileika 8,75 og í aðaleinkunn 8,58. Sindri er undan Stála frá Kjarri og Dögun frá Hjarðartúni. Ræktandi Sindra er Óskar Eyjólfsson en eigendur eru Bjarni Elvar Pétursson, Kristín Heimisdóttir og Einhyrningur ehf. Sýnandi Sindra var Hans Þór Hilmarsson. Sindri hlaut m.a. 9,0 fyrir tölt, skeið, samstarfsvilja, fegurð í reið og hægt tölt.

Hæst dæmdu hryssur sýningarinnar eru þær Stilla frá Ytra-Hóli og Vör frá Vestri-Leirárgörðum en báðar hlutu þær 8,41 í aðaleinkunn sýndar af Árna Birni Pálssyni. Stilla frá Ytri-Hóli hlaut fyrir sköpulag 7,95 og fyrir hæfileika 8,65. Stilla er undan Hrannari frá Flugumýri og Stemmu frá Eystri-Hól. Ræktandi og eigandi er Þorvaldur Þorvaldsson. Still hlaut m.a. 9,0 fyrir tölt, skeið og samstarfsvilja. Vör hlaut fyrir sköpulag 8,36 og fyrir hæfileika 8,43. Þar ber hæst einkunnin 9,0 fyrir háls,herðar og bóga. Ræktandi og eigandi Varar er Dóra Líndal Hjartardóttir.

Þá var hin fjögurra vetra List frá Efsta-Seli sýnd á þessari sýningu en hún er nú hæst dæmda fjögurra vetra hryssan í ár hér á landi með 8,28 í aðaleinkunn. List er ræktuð af Hilmari Sæmundssyni og Daníel Jónssyni en hann var einnig knapi hennar, eigandi er Gæðingar ehf. Faðir Listar er Skaginn frá Skipaskaga og móðir Lady frá Neðra-Seli.

Af öðrum eftirtektarverðum hrossum má nefna Árvakur frá Auðsholtshjáleigu sem hlaut í aðaleinkunn 8,26 einungis fjögurra vetra gamall og er því þriðji hæst dæmdi stóðhestur ársins í þeim aldursflokki. Gígur frá Ketilsstöðum hlaut í aðaleinkunn 8,46 en aðaleinkunn án skeiðs er 8,86. Gígur er sex vetra gamall og hlaut m.a. 9,5 fyrir samstarfsvilja og fet.

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar