Gefa stórmyndarlega hryssu til styrktar Eddu Rún

  • 20. júlí 2020
  • Fréttir

Í kjölfar slyss sem Edda Rún Ragnarsdóttir lenti í nú í vor hafa margir sýnt vilja í verki og lagt fram hjálparhönd með ýmsum hætti. Hjónin Bæring Sigurbjörnsson og Kolbrún Jónsdóttir, hrossaræktendur á Stóra-Hofi, eru þar engin undantekning. Þau fengu frábæra hugmynd sem vonandi verður vel tekið. Þau hafa ákveðið að gefa stórmyndarlega hryssu á uppboði og mun allur ágóði þess renna til styrktar Eddu og fjölskyldu hennar.

Hryssan sem um ræðir er 5.vetra gömul rauðskjótt að lit og að sjálfsögðu stórættuð. Hún er undan Nóa frá Stóra-Hofi sem vart þarf að kynna enda Landsmótssigurvegari í 4.vetra flokki og setti á sínum tíma heimsmet í þeim aldursflokki. Móðirin heitir Viðja frá Stóra-Hofi en hún er undan Náttfara syninum Farsæli frá Ási og Busku frá Stóra-Hofi, og er því m.a. systir heiðursverðlaunahryssunnar Hnotu frá Stóra-Hofi. Hryssan hefur ekki hlotið nafn ennþá og mun það því koma í hlut nýrra eigenda. Hún er leiðitöm og gæf en að öðru leyti ótamin. Við mælingu á herðakamb mældist hún 147 cm á stangarmáli.

Þetta er tilvalið tækifæri fyrir áhugasama hrossaræktendur sem vilja styrkja gott málefni og á sama tíma eignast von í efnilegri og stórmyndarlegri hryssu.

Uppboðið fer fram fram í gegnum tölvupóstfang Eiðfaxa, eidfaxi@eidfaxi.is, og skulu öll tilboð og fyrirspurnir berast þangað.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar