Glódís er hvergi nærri hætt þrátt fyrir heimsmeistaratitil
Framundan á næsta ári er Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Sviss. Landsliðhópar Íslands fyrir komandi tímabil hafa verið tilkynntir, þó að sjálfsögðu þar geti orðið breytingar á fram að móti og endanlegt lið liggur ekki fyrir. Ljóst er þó að nokkrir knapar eiga rétt á þátttöku í mótinu sökum þess að þeir urðu Heimsmeistarar á síðasta móti. Eiðfaxi ætlar að taka hús á þeim núna á næstu misserum og athuga stöðuna fyrir næsta ár.
Glódís Rún Sigurðardóttir varð heimsmeistari í fimmgangi ungmenna á Sölku frá Efri-Brú með þó nokkrum yfirburðum. Hún er þó ekkert ungmenni lengur og er kominn í fullorðinsflokk. „Þegar ég hugsa til baka að þá kemur fyrst upp í hugann hversu skemmtilegt ferli þetta var með hana Sölku, hversu gaman það var að vera með íslenska landsliðinu út á HM og toppurinn að hafa náð markmiðum mínum um það að verða heimsmeistari.“
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Glódís gífurlega keppnisreynslu og á marga titla í yngri flokkum. Titillinn á HM í fyrra var þó sá fyrsti á þeim vettvangi. „Þó svo að ég hafi lengi stefnt að því að verða heimsmeistari þá þýðir það ekki að þótt það hafi tekist sé ég orðin södd. Lífið heldur áfram og einbeitingin er á næstu verkefni en mig langar klárlega að upplifa það aftur að verða heimsmeistari.“
Árangur ungu knapanna á síðasta HM vakti mikla athygli, þar sem fjórir knapar urður heimsmeistarar, en hvað telur Glódís að skapi þetta forskot yngri knapa á Íslandi . „Við ungu knaparnir hér heima fáum að kynnast mikið af ólíkum hestum og við höfum því mikið forskot á kollega okkur erlendis, sem hafa kannski bara aðgang að einum hesti. Þetta skiptir allt máli og þessir miklu möguleikar sem við höfum í mótahaldi bæði yfir veturinn og sumarið hjálpar okkur að verða betri. Svo þegar út á HM var komið eru allir með gott fólk í kringum sig og forsvarsmenn landsliðiðsins héldu vel utan um alla.
Glódís er ekki búinn að ákveða ennþá hvaða hestur mun fylgja henni út á HM. „Ég er ekki kominn með einhvern einn ákveðinn hest fyrir næsta heimsmeistaramót en ég er að kanna nokkra möguleika, ég er með þó nokkuð af ungum hæfileikaríkum hrossum sem er ekki víst að verði tilbúinn akkurat á næsta ári. Ég seldi t.d. Breka frá Austurási í sumar og þarf því að byrja að líta í kringum mig eftir hesti sem getur farið með mér alla leið út í Sviss. Ég er ekki alveg í rónni yfir því að vera ekki kominn með hest því ég vil mæta vel undirbúinn til leiks en ég hef trú á því að ég muni finna hest sem getur skilað mér alla leið, þannig að ef einhver þarna úti er með draumahestinn fyrir mig þá er ég opin fyrir öllu.“
Eiðfaxi þakkar Glódísi fyrir spjallið og óskar henni velgengni á komandi tímabili.