Glymur frá Flekkudal hlýtur 1.verðlaun fyrir afkvæmi

  • 28. nóvember 2019
  • Fréttir
Glymur bætist í hóp þeirra hesta sem hljóta afkvæmaverðlaun

 

Stóðhesturinn Glymur frá Flekkudal hlaut 1.verðlaun fyrir afkvæmi nú í haust en hann er staðsettur í Þýskalandi. Glymur á alls 23 dæmd afkvæmi og er með 122 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins. Hann er fæddur árið 2003 og er því 16.vetra gamall.

Faðir Glyms er heiðursverðlaunahesturinn Keilir frá Miðsitju en sá er undan Ófeigi frá Flugumýri og Kröflu frá Miðsitju. Móðir Glyms er heiðursverðlaunahryssan Pyttla frá Flekkudal, en hún hefur reynst ákaflega farsæl ræktunarhryssa.

Glymur kom fyrst fram fjögurra vetra gamall þá sýndur af Sigurði Sigurðssyni, hlaut hann strax fyrstu verðlaun og fékk hann fyrir sköpulag 7,94, fyrir hæfileika 8,33 og í aðaleinkunn 8,17. Hann hlaut sinn hæsta dóm sex vetra gamall þá sýndur af Steingrími Sigurðssyni. Hlaut hann þá fyrir sköpulag 8,11, fyrir hæfileika 8,79 og í aðaleinkunn 8,52. Hlaut hann m.a. einkunnina 9,0 fyrir eiginleikanna tölt, skeið, vilja og geðslag og fótagerð.

Þá hefur Glymur reynst farsæll keppnishestur og var Hinrik Bragason íslandsmeistari á honum í fimmgangi árið 2013 með hvorki meira né minna en 8,16 í einkunn í úrslitum. Þá hefur Glymur keppt á tveimur Heimsmeistaramótum árið 2013 og 2015.

Ræktandi Glyms er Guðný Ívarsdóttir en eigandi Angantýr Þórðarson.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar