Svíþjóð Göran hlýtur heiðursviðurkenningu Sænska íþróttasambandsins

  • 13. mars 2025
  • Fréttir

Göran er 94 ára og er nú sýndur mikill heiður í Svíþjóð

Inn á heimasíðu Sænsku Íslandshestasamtakanna (SIF) er frétt þess efnis að fumkvöðullinn og hrossaræktandinn Göran Häggberg muni hljóta gull heiðursmerki Sænska íþróttasambandsins (Rikisidrottsförbundet, RF) á þingi sem framundan er í Gautaborg. Þetta heiðursmerki er æðsta viðurkenning sem veitt er innan sænskrar íþróttarhreyfingar og hefur hún verið veitt frá árinu 1910.

Það var SIF sem tilnefndi Göran til heiðursverðlaunanna og í þeim rökstuðningi segir meðal annars.

Göran Häggberg var drifkrafturinn að stofnun SIF hinn 22. mars 1975 og fagnar félagið því 50 ára afmæli sínu í ár. Göran var fyrsti formaður SIF og hefur með störfum sínum átt stóran þátt í að byggja upp og þróa félagið. Hann hefur í gegnum tíðina gegnt fjölda hlutverka, bæði innan sænska félagsins og einnig alþjóðasamtaka íslenska hestsins, FEIF.  Þrátt fyrir háan aldur tekur Göran enn virkan þátt í ráðstefnum og ársfundum félagsins. Hann var fyrsti einstaklingurinn til að hljóta æðstu viðurkenningu félagsins, „gull heiðursmerkið SIF“, þegar það var veitt í fyrsta sinn við 25 ára afmæli félagsins árið 2000. Hann er einnig heiðursformaður félagsins.

Íslenskir hrossaræktendur eiga Göran mikið að þakka fyrir þá velgengni sem íslenski hesturinn hefur notið í Svíþjóð og ekki síður í Evrópu allri. Hann var einn mikilvirkasti kaupandi hrossa hér á árum áður og það er vegna frumkvöðla líkt og hans sem við getum þakkað fyrir vinsældir okkar magnaða hestakyns.

Göran varð 94 ára í febrúar síðastliðnum og brennur enn af áhuga og ástríðu fyrir framgangi íslenska hestsins.

Fyrir hönd Eiðfaxa óskar greinarhöfundur honum og fjölskyldu hans til hamingju með heiðurinn sem honum er sýndur.

Göran situr hér á stóðhestinum Svali frá Glæsibæ

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar