Guðmundur mætir ekki á Heimsmeistaramótið

  • 25. júlí 2023
  • Fréttir

Guðmundur og Glúmur, heimsmeistarar í 250 m. skeiði Myndir: Louisa Lilja

Ríkjandi heimsmeistari í 250 m. skeiði mætir ekki á Heimsmeistaramótið í ágúst

Guðmundur Björgvinsson, ríkjandi heimsmeistari í 250 m. skeiði, átti sæti í landsliðinu. Hann hefur nú gefið sætið frá sér og hyggst ekki mæta með hest á Heimsmeistaramótið í ágúst.

“Ástæðan er einföld hesturinn sem ég ætlaði með forfallaðist. Ég var með plan a og b en staðreyndin er sú að þau gengu hvorug upp,” segir Guðmundur.

Margir spyrja sig eflaust að því afhverju Guðmundur var ekki löngu búinn að finna hest í verkefnið þar sem hann hefur haft fjögur ár til að undirbúa sig. “Fyrir tveimur árum var ég með hest klárann í verkefni, Sólon frá Þúfum, en síðan var því mótið aflýst. Eigendurnir gáfust upp á að bíða og fluttu hann út. Ég var líka kominn með frábæran hest í þjálfun í vetur en þegar ég slasaði mig á skíðunum í janúar sendi ég hann heim þar sem ég hélt að tímabilið væri búið hjá mér. Ég ber líka mikla virðingu fyrir Heimsmeistaramótinu og langar ekki að mæta með bara einhvern hest. Þá vil ég frekar sitja heima,” segir Guðmundur sem óskar að lokum liðsfélögum sínum góðs gegnis úti. “Áfram Ísland.”

Enginn annar knapi kemur í landsliðið í stað Guðmundar þar sem sæti hans var aukasæti vegna þess að hann er ríkjandi Heimsmeistari.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar