Gullaldarkynslóð stóðhesta

  • 10. nóvember 2023
  • Fréttir

Verðlaunaafhending 4.vetra stóðhesta á Landsmóti 2011. Ljósmynd: Jens Einarsson

2007 árgangurinn er magnaður árgangur

Þar sem afkvæmaverðlaun eru hæsta viðurkenning sem stóðhesti getur hlotnast er áhugavert að skoða hversu margir stóðhestar ná afkvæmaverðlaunum úr hverjum árgangi. Þegar það er gert kemur í ljós að þeir stóðhestar sem fæddir eru árið 2007 var magnaður árgangur með óvenju marga stóðhesta sem náðu þeim áfanga.

Sýning afkvæmahesta

Sýning afkvæmahesta er eitt áhugaverðasta atriði hvers Landsmóts fyrir ræktendur og auðvitað allt hestaáhugafólk. Þótt flest afkvæmi stóðhestanna komi fram í öðrum sýningaratriðum á mótinu er afar verðmætt að fá afkvæmin saman til að sjá heildar yfirbragð hópanna og helstu einkenni. Eitt af því sem er lærdómsríkt við sýningar afkvæmahesta er að sjá hve hestarnir eru oft sterkir á kosti sína og galla og hversu ákveðinn heildarsvipur einkennir oft á tíðum afkvæmahópana. Þessi einkenni eru í byggingu hestsins og oft hreyfingamynstri, hvort sem það liggur í fjaðurmagni, skreflengd, skrokkmýkt eða léttleika hreyfinga. Einkum er þetta áberandi þegar hestarnir eru sýndir sjálfir með afkvæmum sínum en afar skemmtilegt er þegar hestarnir sjálfir eru í sýningarformi og koma fram með afkvæmum sínum. Þessi sameiginlegu einkenni hestsins og afkvæmanna endurspegla það tiltölulega háa arfgengi sem er til dæmis á eiginleikum hæfileikanna, sem segir manni að frammistaða hestsins sjálfs gefur manni strax töluvert miklar upplýsingar um kynbótagildi hans.

 

Oft hefur því verið velt upp hvort hlutfall stóðhesta úr hverjum árgangi sem ná afkvæmaverðlaunum sé að hækka í seinni tíð og hvað sé eðlilegt hlutfall. Í greininni ætlum við þess vegna meðal annars að skoða hversu margir hestar úr hverjum árgangi hafa hlotið þessi verðlaun í gegnum tíðina. Þegar fjöldi og hlutfall hesta úr hverjum árgangi er skoðað frá 1980 má sjá að þetta eru að meðaltali um fjórir hestar úr hverjum árgangi sem hafa hlotið fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi, eða að meðaltali 0.6%. Þetta eru yfirleitt á bilinu 2-6 hestar úr hverjum árgangi, oftast fjórir. Nokkrir árgangar skera sig úr varðandi fjölda stóðhesta, það er 2000 árgangurinn með sjö hesta og 2004 árgangurinn með tíu hesta. En það er 2007 árgangurinn sem á metið með alls tólf hesta – hvorki meira né minna. Átta af þessum hestum voru sýndir fjögurra vetra á Landsmóti 2011, þeir Sjóður frá Kirkjubæ, Jarl frá Árbæjarhjáleigu II, Eldur frá Torfunesi, Hákon frá Ragnheiðarstöðum, Arion frá Eystra-Fróðholti, Skýr frá Skálakoti, Álffinnur frá Syðri-Gegnishólum, Viti frá Kagaðarhóli og Toppur frá Auðsholtshjáleigu. Svo voru þeir Knár frá Ytra-Vallholti, Lord frá Vatnsleysu og Framherji frá Flagbjarnarholti sýndir sjálfir í fullnaðardóm seinna. Allir þessir hestar hafa hlotið fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og svo hafa þeir Eldur frá Torfunesi, Skýr frá Skálakoti, Sjóður frá Kirkjubæ og Jarl frá Árbæjarhjáleigu II hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Arion náði lágmörkum til heiðursverðlauna en féll fyrir aldur fram áður en honum hlotnaðist það verðlaunastig.

Þrír Sæssynir

Þessir tólf hestar eru undan hinum og þessum stóðhestum. En þrír þeirra eru undan Sæ frá Bakkakoti sem verður til framtíðar á lista yfir helstu forfeður stofnsins. Þetta eru þeir Sjóður, Arion og Knár. Þá eru tveir undan dætrum Kveiks frá Miðsitju eða þeir Viti og Knár. Þrír af þessum hestum eru útaf Álfadísi frá Selfossi eða þeir Álffinnur frá Syðri-Gegnishólum sem er undan henni og þá eru Hákon frá Ragnheiðarstöðum og Toppur frá Auðsholtshjáleigu undan Álfadísarsonum. Þau Sær og Álfadís eiga þess vegna heldur meiri hlutdeild í þessum afkvæmahestum en önnur hross.

Sá hestur úr gullaldarárganginum, sem stóð efstur á Landsmóti 2011 var Sjóður frá Kirkjubæ. Hann er undan Sæ frá Bakkakoti og Þyrnirós frá Kirkjubæ sem var Hróðursdóttir. Sjóður hefur átt afar farsælan feril, bæði sem einstaklingur og afkvæmahestur, gefur skrokkmjúk og auðtamin hross. Frægasta afkvæmi hans er útgeislunar- og mýktarhestuinn Kveikur frá Stangarlæk 1, ein af skærustu stjörnum Landsmótsins 2018. Sjóður hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti 2018 og Sleipnisbikarinn nú í sumar.

Sjóður frá Kirkjubæ og Guðmundur Björgvinsson á Landsmóti árið 2011 þar sem Sjóður stóð efstur 4. vetra stóðhesta.

Eldur frá Torfunesi var í öðru sæti í hópi fjögurra vetra fola á Landsmóti 2011. Eldur er undan Mætti frá Torfunesi og Eldingu frá sama bæ en hún er undan Djáknari frá Hvammi. Hann vakti mikla athygli fjögurra vetra gamall; kattmjúkur, skrefmikill og þjáll. Hann hefur einmitt verið að gefa mýktarhross sem nýtast breiðum hópi fólks; útreiðarhross upp í gæðinga. Hæst dæmda afkvæmi Elds er Hremmsa frá Álftagerði IV, alhliða gæðingur en þar á eftir kemur Eygló frá Þúfum en hún hefur hlotið hæsta einstaklingsdóm allra fjögurra vetra hryssa. Eldur hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti 2018 og heiðurverðlaun á Landsmóti í sumar.

Eldur frá Torfunesi og Sigurbjörn Bárðarson á stóðhestadegi Eiðfaxa í Víðidal

Þá kemur Skýr frá Skálakoti en hann varð í þriðja sæti. Skýr er undan Sólon frá Skáney og Vök frá Skálakoti en hún er undan Gný frá Stokkseyri. Skýr hefur verið einn farsælasti stóðhestur seinni tíma; með háan kynbótadóm sjálfur og afar gifturíkan keppnisferil. Þess má geta að 45 afkvæmi Skýrs eiga skráðan keppnisárangur. Hæst dæmda afkvæmi hans er hestagullið Katla frá Hemlu II en einnig má nefna Öskju frá Efstu-Grund sem stóð efst fjögurra vetra hryssna á Landsmóti 2018. Skýr hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og fyrsta sætið á Landsmóti 2018 og hlaut svo Sleipnisbikarinn á Landssýningu árið 2020. Skýr stendur efstur allra afkvæmahesta í kynbótamatinu sem stendur.

Skýr og Jakob Svavar Sigurðsson á Landssýningu kynbótahrossa árið 2020 þar sem Skýr hlaut Sleipnisbikarinn eftirsótta

Arion frá Eystra-Fróðholti var undan Sæ frá Bakkakoti og gæðingamóðurinni Glettu frá Bakkakoti. Arion varð í fjórða sæti fjögurra vetra folanna á Landsmóti 2011 og stóð svo efstur fimm vetra hestanna á Landsmóti 2012. Hann hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti árið 2018 og stóð í öðru sæti afkvæmahestanna. Hæst dæmda afkvæmi Arions er hinn stórmyndarlegi og aðsópsmikli Þór frá Stóra-Hofi. Af öðrum athyglisverðum afkvæmum má nefna Apollo frá Haukholtum, hann hlaut háan einstaklingsdóm og hafa fyrstu afkvæmi hans verið að koma til dóms í sumar og mun hann eflaust skipa sér í hóp afkvæmahesta sem vert er að horfa til.

Arion og Daníel Jónsson á Landsmóti árið 2014

Álffinnur frá Syðri-Gegnishólum er undan Orra frá Þúfu og Álfadísi frá Selfossi og varð í  sjöunda sæti fjögurra vetra folanna á Landsmóti 2011. Hann varð fyrstur þessara hesta sem hér eru til umfjöllunar til að ná fyrstu verðlaunum fyrir afkvæmi en hann náði þeim áfanga á Hólum 2016, aðeins níu vetra gamall. Hann hefur verið að gefa bráðger hross en afkvæmahópurinn sem fylgdi honum á Hólum samanstóð eðlilega af ungum hrossum. Afkvæmin eru jafnvíg, viljug og þjál. Hæst dæmda afkvæmi Álffinns er Stúdent frá Ketilsstöðum. Álffinnur á nú 43 dæmd afkvæmi og gæti því náð heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi bráðlega.

Álffinnur frá Syðri-Gegnishólum og Olil Amble á Landsmóti 2016 þar sem Álffinnur hlaut 1.verðlaun fyrir afkvæmi

Jarl frá Árbæjarhjáleigu II er undan Stála frá Kjarri og Eldingu frá Árbæjarhjáleigu II sem er dóttir Huga frá Hafsteinsstöðum. Jarl varð í áttunda sæti á Landsmóti 2011 og í þriðja sæti í elsta flokki stóðhesta á Landsmóti 2016 á Hólum. Hann hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti 2018 og heiðursverðlaun í sumar. Hann er að gefa prúð, geðgóð, hreingeng og afar nýtileg hross; hvort sem er til útreiða eða í keppni, en 36 afkvæmi hans hafa skráðan keppnisárangur. Hæst dæmda afkvæmi Jarls er Eldjárn frá Skipaskaga en hann var efstur í fjögurra vetra flokki á Landsmóti 2018.

Jarl frá Árbæjarhjáleigu 4.vetra og Marjolijn Tiepen á Landsmóti 2011. Ljósmynd: KollaGr

Viti frá Kagaðarhóli er undan Smára frá Skagaströnd og Óperu frá Dvergsstöðum. Hann hlaut háan kynbótadóm á sínum tíma; hlaut hæst 9,5 fyrir tölt, samstarfsvilja og bak og lend. Hann var í tólfta sæti á Landsmóti 2011. Viti hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi 2019 og var þá komin til Danmerkur. Hann stendur vel í kynbótamatinu með 47 dæmd afkvæmi og þarf því aðeins þrjú afkvæmi til að ná lágmörkum til heiðursverðlauna sem er líklegt að hann geri. Hann var afar bráðger á tölti, hlaut 9,5 fyrir tölt fjögurra vetra gamall með afar sterka yfirlínu í hálsi og baki. Hann hefur verið að gefa afar eftirtektarverð mýktarhross með einkennandi fas og framgöngu. Hæst dæmda afkvæmi hans er Vaka frá Narfastöðum, alhliða hryssa sem var eins og teygjubyssa á öllum gangi; mjúk og endalaust rúm. Þá vakti sonur Vita athygli í sumar, Hrafn frá Oddsstöðum en hann varð í öðru sæti í flokki fjögurra vetra hesta á Landsmótinu í sumar og hefur marga af kostum föðursins.

Viti frá Kagaðarhóli á LM 2011. Viti náði nú í haust lágmörkum til heiðursverðlauna Ljósmynd: KollaGr

Toppur frá Auðsholtshjáleigu er undan Álfasteini frá Selfossi og Trú frá Auðsholtshjáleigu, Orradóttur. Toppur var sýndur fjögurra vetra gamall og hlaut fyrstu verðlaun og endaði í fjórtánda sæti á Landsmóti 2011. Hann hlaut hæst 9,0 fyrir tölt, samstarfsvilja og fegurð í reið; reistur og skrefmikill, Toppur hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi árið 2019, þá komin til Svíþjóðar. Hann hefur einmitt verið að gefa reist, fótahá og rúm alhliða hross. Hæst dæmda afkvæmi hans er Prúður frá Auðsholtshjáleigu.

Toppur frá Auðsholtshjáleigu og Þórdís Erla Gunnarsdóttir

Knár frá Ytra-Vallholti er undan Sæ frá Bakkakoti og Glettu frá Ytra-Vallholti. Knár var sýndur fyrst fimm vetra gamall og náði sínum hæsta dómi á Landsmóti 2014. Knár kynnti sig alla tíð vel; myndarhestur, yfirvegaður og aðgengilegur alhliða hestur með mjúkt og gott tölt, hreint skeið og afar gott fet, brokkið var alltaf síst. Hann náði fyrstu verðlaunum fyrir afkvæmi í sumar og er með 15 dæmd afkvæmi. Hæst dæmda afkvæmi Knás er Hylling frá Akureyri. Hann vakti fyrst athygli sem afkvæmahestur á Landsmóti 2018 þegar þrjár dætur hans voru sýndar þar fjögurra vetra gamlar.

Knár frá Ytra-Vallholti og Bjarni Jónasson

Lord frá Vatnsleysu er undan Þóroddi frá Þóroddsstöðum og Lydíu frá Vatnsleysu, Glampadóttur. Lord var eftirtektarverður þegar hann kom fram fyrst í fullnaðardómi fimm vetra gamall árið 2012. Hann hlaut 9,5 fyrir samræmi og sýndi strax óvanalegt hreyfieðli að mörgu leyti. Hann var misjafn á tölti framan af en sýndi að í hann var marga eftirsóknarverða eiginleika að sækja. Hann hefur einmitt sýnt að hann getur gefið afrekseiginleika og afkvæmi hans skarta 9,5 hér og þar; fyrir tölt, brokk, skeið og fegurð í reið. Lord hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi um haustið 2020 og kom fram með afkvæmahóp á síðasta Landsmóti. Hæst dæmda afkvæmi Lords er Marel frá Aralind með 8,95 fyrir hæfileika en næst kemur ofurklárhryssan Flikka frá Höfðabakka.

Lord frá Vatnsleysu og Björn Jónsson

Hákon frá Ragnheiðarstöðum er undan Álfi frá Selfossi og Hátíð frá Úlfsstöðum; tveimur afar eftirtektarverðum hrossum. Hann var sýndur fimm vetra gamall og hlaut ekki mjög háan kynbótadóm sjálfur en hefur verið að gefa rífandi ganghross og gamma hvað rými, vilja og fótaburð varðar. Hann hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti 2018. Hæst dæmda afkvæmi hans er Hansa frá Ljósafossi með 9,05 fyrir hæfileika; sjóðandi viljug og virkjamikil á gangi.

Hákon frá Ragnheiðarstöðum og Hekla Rán Hannesdóttir

Framherji frá Flagbjarnarholti er undan Hágangi frá Narfastöðum og Surtsey frá Feti, Orradóttur. Framherji var sýndir fimm vetra gamall fyrst í fullnaðardómi. Hann hlaut fyrstu verðlaun sem einstaklingur og vakti athygli fyrir fálmandi hreyfingar og spengilegt byggingarlag. Hann hefur verið að gefa framhá fótaburðarhross; fyrst og fremst eftirtektarverð klárhross en Telma frá Árbakka er úrvals alhliða hryssa. Hann var seldur til Noregs og hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi árið 2019. Hæst dæmda afkvæmi Framherja er áðurnefnd Telma en næst kemur hin eftirminnilega Krafla frá Austurási en það er úrvals klárhryssa með mikla útgeislun.

Framherji frá Flagbjarnarholti og Hinrik Bragason

Eins og sjá má hafa fjórir hestar þegar náð heiðursverðlaunum úr þessum magnaða 2007 árgangi. Þegar litið er á fjölda og hlutfall heiðursverðlaunahesta úr hverjum árgangi frá árinu 1980, er fjöldinn ýmist á bilinu 0-4, eða rétt rúmlega einn hestur í hverjum árgangi, og hlutfallið að meðaltali 0.2% heiðursverðlaunahesta miðað við árgang. Fjöldi og hlutfall hesta sem hljóta afkvæmaverðlaun úr hverjum árgangi virðist ekki vera að hækka síðastliðin ár en það er áhugavert að velta þessu fyrir sér með tilliti til þróunar þessa ákveðna verðlaunastigs.

Það er óumdeilanlegt að árgangur stóðhesta fæddra 2007 er magnaður í samanburði við aðra, þegar kemur að fjölda þeirra sem hlotið hafa afkvæmaverðlaun; hvort sem litið er til fyrstu- eða heiðursverðlauna. Hingað til hefur ekki komið fram árgangur þar sem svo margir hestar hafa náð þessum verðlaunum og ef litið er til seinni tíma árganga þá er ekki enn útlit fyrir að annar árgangur nái þessum fjölda, hvað sem síðar verður. Það er fátt sem skýrir þetta nema tilviljun en á Landsmóti 2011 máttum við sjá afar marga hesta fjögurra vetra gamla sem létu seinna að sér kveða sem afkvæmahestar.

 

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson

Grein þessi birtist í haustblaði Eiðfaxa árið 2022.

Á hverju ári gefur Eiðfaxi út fjögur árstíðarbundin tímarit auk stóðhestabókar og árbókar. Í þeim má finna áhugaverðar greinar, fróðleik, viðtöl við hrossaræktendur, knapa, ræktendur og margt annað sem tengist íslenska hestinum.

Eiðfaxi sérhæfir sig í umfjöllun um íslenska hestinn og hefur gert frá árinu 1977.  Gerðust áskrifandi með því að smella hér.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar