Hæsta 5. stigs próf Knapamerkjanna

  • 11. júní 2021
  • Fréttir

Arney Ólöf Arnardóttir, nemandi á hestabraut FSU, hlaut hæstu einkunn á landsvísu árið 2020 fyrir 5. stig Knapamerkjanna. Arney hlaut í lokaeinkunn 9,10 sem er meðal hæstu einkunna sem gefin hefur verið fyrir 5. stig Knapamerkjanna. Við útskrift frá hestabraut FSU laugardaginn 22. maí var Arney verðlaunuð af Knapamerkjunum, sem er í umsjón Háskólans á Hólum, fyrir frábæran árangur á 5. stigi Knapamerkjanna.

Aðspurð segir Arney að námið hafi verið mjög skemmtilegt og lærdómsríkt. „Það var gott að lesa fyrst um hlutina sem maður síðan framkvæmdi verklega. Mér fannst skemmtilegast að taka verklegu prófin því þegar vel gekk þá veitti það manni mikla gleði og umbun fyrir alla vinnuna sem maður var búinn að leggja á sig. Það var krefjandi en lærdómsríkt að læra prófin og finna út hvernig maður útfærði verkefnin mismunandi eftir hestgerðum. Ég fann líka hversu miklu betri árangri ég náði þegar maður fór djúpt í öll smáatriði í staðinn fyrir að „renna“ bara í gegnum verklegu prófin.“

Kennari hennar var Sissel Tveten sem einnig kenndi þeim nemanda sem hlaut hæstu einkunn á landsvísu árið áður en það var Svanhildur Guðbrandsdóttir árið 2019. Sissel Tveten hefur kennt Knapamerkin í fjölmörg ár með frábærum árangri nemenda sinna. Knapamerkin eru hluti af námi nemenda á hestabraut FSU þar sem Sissel kennir. Sissel segir kosti Knapamerkjanna marga. „Þetta kerfi gerir það auðvelt og gaman að byggja upp skilning og færni knapans á jákvæðan hátt, rétt eins og maður kennir ungum hesti frá grunni. Það er mikill styrkur þessa kerfis hvernig bóklega námið styður við það verklega í sambandi við reiðmennsku. Bóklega námið er fjölbreytt og það fer yfir allt það helsta sem viðkemur hestamennsku. Bækurnar eru yfirgripsmiklar og snúast mikið um reiðmennsku og þjálfun en einnig um umhirðu, heilsu, búnað, keppni og félagsstörf. Við teljum bækurnar besta og umfangsmesta kennsluefnið sem er til á íslensku í dag og verklegu prófin eru bæði gott kennslutæki og frábær fyrir námsmat.”

Sissel telur nám í Knapamerkjunum góðan grunn fyrir alla knapa á öllum aldri. “Hvort sem maður er að stunda almennar útreiðar eða er keppnismiðaðri þá þarf þessi grunnur að vera í lagi. Það er sama hvort þú ert að undirbúa hestinn þinn undir keppni eða ferðalag, þjálfunin þarf alltaf að hafa líkamsbeitingu og samspil knapa og hests að leiðarljósi. Knapamerkin eru gott verkfæri til þess að byggja þetta upp stig af stigi. Fyrsta stig er til dæmis hægt að fara í gegnum nánast sem byrjandi en það er einnig gott sem mikilvæg, og stundum mjög þörf, upprifjun fyrir vanari hestamenn. Það er mikill kostur að með ástundun og eljusemi ættu flestir knapar og hestar að geta farið í gegnum fimmta stig þó svo að það sé afar misjafnt hversu langan tíma hver og einn verður að gefa sér til þess að fara í gegnum öll fimm stigin. Þau sem fara út í þetta nám eru oftast með gott hugafar gagnvart reiðmennsku, og telja sig alltaf geta tileinkað sér þekkingu og öðlast frekari færni sem getur gert þau að betri hestamanni og knapa. Að mínu mati eru þeir sem ná bestum árangri með sín hross ávallt þeir sem eru bæði með þetta hugafar og dugnaðinn/áhugann til þess að fylgja því eftir.”

Að lokum kemur Sissel með mjög áhugaverðan punkt varðandi Knapamerkin;
“Knapamerkjakerfið er náttúrulega sett upp sem nám en ég held að það væri einnig mjög gott að hugsa þetta eins og keppni, þ.e.a.s. að það má fara í gegnum hvert stig oftar en einu sinni og keppa við sjálfan sig til að bæta sig. Það er til dæmis ekki þannig að þú ríður 4-gangs prógram bara einu sinni og svo ert þú búin(n) með það. Það er gríðarlega misjafnt hvað þú lærir af því að fara í gegnum prófin í hvert sinn. Margt breytist með aukinni reynslu og þroska, ekki síst á unglingsárunum, sem veldur því að lærdómsferlið verður aldrei eins.”

Knapamerkin óska Arneyju til hamingju með glæsilegan árangur sem og reiðkennara hennar Sissel Tveten.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar