Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum „Hann mun vinna og stimpla sig inn“

  • 26. janúar 2023
  • Fréttir
Sigurvegari Meistaradeildarinnar í fyrra, Árni Björn Pálsson, spáir í spilin

Það ráku margir glöggir hestamenn augun í það að sigurvegara Meistaradeildarinnar frá því í fyrra, Árna Björn Pálsson, vantaði á ráslista fjórgangsins. Eiðfaxi heyrði í kappanum og fékk hann til að spá í spilin fyrir kvöldið.

“Ég var ekki með hross sem var tilbúið í að leysa þetta verkefni á þessu leveli sem farið er fram á. Ég er með efnileg hross hérna sem hefðu getað komið til greina en eru ekki komin nógu langt til þess að geta komið fram í Meistaradeildinni. Aðrir verða að leysa þetta verkefni,” segir Árni Björn sem keppir fyrir lið Top Reiter en þeir liðsmenn sem keppa fyrir liðið í kvöld eru þau Teitur Árnason, Þórdís Inga Pálsdóttir og Konráð Valur Sveinsson.

“Það eru flott nöfn á listanum en ég ætla að spá því að Matthías Kjartansson sigri fjórganginn. Komi, sjá og sigri. Veit ekki hvort hann verður með mottuna aftur eins og í Suðurlandsdeildinni en hann mun vinna og stimpla sig inn. Minn peningur fer á hann í kvöld. Aðrir í úrslitum eru Sara Sigurbjörnsdóttir en hún verður á palli á Flugu frá Oddhóli og Hákon Dan Ólafsson verður líka á palli á Hátíð frá Hólaborg. Veit ekki alveg hver staðan er á þessum hestum núna í janúar en giska á að þau verði í öðru hvoru megin á pallinum. Reikna með að Ragnhildur Haraldsdóttir og Úlfur verða líka í úrslitum og eigum við ekki bara að segja Siggi Sig og Leikur,“ segir Árni og bætir við “Teitur verður með þeim neðstu og nær ekki í stig og Biggi mun sjá eftir því að hafa ekki haldið merinni,” segir Árni Björn og hlær.

Árni Björn spáir liði Hjarðartúns sigurinn í kvöld og er ánægður með að keppnistímabilið sé að byrja aftur. “Það eru bjartir tímar framundan, mistök að vera festa mótið allt á einum stað. Margir góðir punktar að hafa þetta í Ölfushöllinni en við eigum að dreifa þessu. Koma til móts við fólkið sem er í Reykjavík sem vill hitta okkur. Annars bara gaman að þetta sé að byrja,” segir Árni Björn sem telur sig vel hestaðan í allar hinar greinarnar.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar