Hans knapi ársins hjá Jökli

  • 13. nóvember 2022
  • Fréttir
Árshátíð hestamannafélagsins Jökuls

Árshátíð hestamannafélagsins Jökuls fór fram í gær í félagsheimilinu í Árnes. Þetta er fyrsta árshátíðin sem félagið heldur og var að sögn forsvars manna mikið um dýrðir og heppnaðist kvöldið vel. „Frábært kvöld í alla staði og er öllum farið að hlakka til næstu árshátíðar,“ kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Verðlaun og viðurkenningar voru veittar en knapi ársins hjá Jökli er Hans Þór Hilmarsson en hann náði góðum árangri í ár og ber þar hæst að nefna heimsmet sem hann setti þegar hann reið Sindra frá Hjarðartúni í hæstu hæfileikaeinkunn sem gefin hefur verið.

Félagsmaður ársins er Kristín S. Magnúsdóttir en hún hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir félagið.

Viðurkenning var veitt fyrir hæst dæmda kynbótahrossið í eigu félagsmanns en það var Ólafur F. Böðvarsson sem hlaut hana fyrir hryssu sína, Sölku frá Efri-Brú. Salka hlaut 8,76 í aðaleinkunn.

Verðlaunaðir voru félagsmenn sem hlutu Íslandsmeistaratitla á árinu en það voru þau Sigrún Högna Tómasdóttir í 150 m. skeiði í ungmennaflokki og Þorvaldur Logi Einarsson í 250 m. skeiði í ungmennaflokki.

Magnús í Kjarnholtum var heiðraður fyrir að eiga sigurveigara í A flokki gæðinga á Landsmótinu í sumar.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar