Háskólinn á Hólum rannsakar áhrif hesta á fólk

„Samhæfing barns og hests“ er vinnuheiti rannsóknar sem unnin er í samvinnu við Reiðskóla Reykjavíkur, Háskólans á Hólum og Háskólann í Rostock.
Dagana 13.-15. ágúst síðastliðinn unnu vísindamenn við Háskólann á Hólum, Akademíu íslenska hestsins og sérkennsludeild háskólans í Rostock að forrannsókn sem tengist jákvæðum áhrifum hesta á börn. Fyrir verkefninu fór Sveinn Ragnarsson, prófessor við Hestafræðideild Háskólans á Hólum. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða hvort mögulegt sé að meta líffræðilegar og sálrænar breytingar á börnunum í tengslum við dvöl þeirra í reiðskóla og þá sérstaklega meta áhrif samhæfingar barns og hests í reiðtúr. Framkvæmdin gekk vel, sem byggðist ekki síst á frábærri samvinnu við starfsfólk Reiðskóla Reykjavíkur og þau 18 börn sem tóku þátt í rannsókninni og foreldra þeirra.