Hátíð ljóss og friðar, kærleika og fyrirgefninga
Jóhann Rúnar Skúlason er í öðru sæti á heimslista í fjórgangi og í þriðja sæti á sama lista í tölti. Hann með Evert sinn á því mikla möguleika að óbreyttu á að verða heimsmeistari í þessum greinum og þá ekki síst í samanlögðum fjórgangs greinum fái hann tækifæri á að mæta með Evert á HM í Sviss í ágúst næstkomandi.
Þessi staða sem afreksknapinn Jóhann Rúnar Skúlason er í á mælikvarða Íslandshestaheimsins vekur enga undrun hjá mér. Jóhann hefur á sínum rúmlega 30 ára ferli fyrir landslið Íslands unnið svo marga heimsmeistaratitla í tölti og öðrum greinum að aðdáun vekur og hefur hann gjarnan lyft anda og þjóðarstolti okkar Íslendinga í hæstu hæðir á Heimsmeistaramótum.
Það sem hins vegar vekur undrun hjá mér og hefur gert nú í tvö ár er að LH hefur ekki séð ástæðu til að velja Jóhann í landslið Íslands. Þvert á móti meinaði sambandið Jóhanni að nýta sinn rétt til að keppa á HM 2023. Um þennan gjörning skrifaði ég grein sem birtist í Eiðfaxa 23. Júní 2023 og er slóðin á þá grein hér:
Jóhann sótti sinn rétt og dæmdi ÍSÍ að það hefði ekki staðist að meina Jóhanni að mæta á mótið 2023 á þeim forsendum sem upp var lagt með en það byggði á dómi sem Jóhann hlaut árið 1993 eða fyrir rúmum 30 árum.
Það vakti einnig undrun mína og margra annarra að Jóhann var ekki valinn til að keppa fyrir Íslands hönd á Norðurlandamótinu sem haldið var í Herning í Danmörku í ágúst 2024. Ekki var nú mikill metnaður lagður í þátttöku í fullorðinsflokki landsliðsins á þessu móti eins og niðurstöðurnar gefa til kynna. Allt annar bragur var á yngri landsliði LH og greinilega meiri metnaður og utanumhald í þeim flokkum hjá Landssambandinu. Þess má geta að það er um 30 mínútna akstur frá heimili Jóhanns til Herning og hefði því verið hægt um heimatökin.
Allt virðist því benda til að Jóhann muni ekki koma til greina í landslið okkar Íslendinga á HM 2025 og er það miður. Nú er að fara í hönd hátíð ljóss og friðar, hátíð kærleika og fyrirgefninga. Áramótin eru tími breitinga, góðra áætlana og vona. Það er óskandi að Landssamband hestamannafélaga noti hátíðirnar til að endurstilla áherslur í anda hátíðanna.
Gleðileg Jól og farsælt komandi ár
Lárus Ástmar Hannesson, Stykkishólmi