Heiðursverðlaunahryssur á Íslandi 2024
Hið alþjóðlega kynbótamat fyrir íslenska hestinn var reiknað eftir alla dóma ársins í byrjun september og birt í WorldFeng.
Þar kom í ljós að 14 hryssur á Íslandi hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í ár en til að hljóta verðlaunin þarf hryssan að eiga að lágmarki fimm dæmd afkvæmi og vera með 116 stig í aðaleinkunn eða aðaleinkunn án skeiðs í kynbótamatinu.
Nokkrar af hryssunum eru jafnar og eru það aukastafir sem raða þeim í sæti.
Efsta hryssan í ár er Tíbrá frá Auðsholtshjáleigu undan Gára og Trú frá Auðsholtshjáleigu en þau eru bæði með heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Tíbrá hlýtur því Glettubikarinn en hann er veittur þeirri hryssu sem stendur efst til heiðursverðlauna ár hvert. Ræktendur og eigendur hennar eru Gunnar Arnarson og Kristbjörg Eyvindsdóttir en þau eru ræktendur að þremur efstu hryssunum í ár sem er magnaður árangur. Tíbrá var sjálf reist og aðsópsmikil í reið og gæðingur á gangi. Tíbrá er með 120 stig og á nú fimm dæmd afkvæmi. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Hljómur frá Auðsholtshjáleigu, undan Organista frá Horni. Það er frábær alhliða gæðingur með 8,68 fyrir hæfileika og var með efstu sex vetra hestunum í ár. Þá er Laufey frá Auðsholtshjáleigu skrefmikil og hágeng klárhryssa undan Lord frá Vatnsleysu og er hún með m.a. 9,0 fyrir hægt tölt, brokk og samstarfsvilja.
Önnur í röð er Prýði frá Auðsholtshjáleigu en hún er undan Kvist frá Skagaströnd og Perlu frá Ölvaldsstöðum, Kjarvalsdóttur. Ræktendur eru Gunnar Arnason og Kristbjörg Eyvindsdóttir og eigandi er Gunnar Arnarson ehf. Prýði var sýnd fjögurra vetra og hlaut góðan dóm; sérstaklega fríð á höfuð og framfalleg en hún hlaut 9,5 fyrir höfuð og 9,0 fyrir háls, herðar og bóga. Hún er einnig með 120 stig og á fimm dæmd afkvæmi. Hennar hæst dæmda afkvæmi er gæðingurinn Valdís frá Auðsholtshjáleigu en hún er fyrsta og eina hrossið í sögunni til að hljóta einkunnina 10 fyrir höfuð. Þá var Hergeir sonur hennar sýndur í sumar; fallegur og efnilegur hestur með 8,5 fyrir tölt og fegurð í reið og 9,0 fyrir skeið, enda einkar sniðgóður á skeiði.
Þriðja í röð er Vár frá Auðsholtshjáleigu undan Spuna frá Miðsitju og Vordísi frá Auðsholtshjáleigu, Orradóttur en það var afar eftirminnilegur gæðingur. Ræktendur eru Gunnar Arnarson og Kristbjörg Eyvindsdóttir og þau eru eigendur ásamt Karli Áka Sigurðarsyni. Vár er með 119 stig og á fimm fullnaðardæmd afkvæmi. Hennar hæst dæmda afkvæmi er Viðar frá Skör, undan Hrannari frá Flugumýri II. Viðar er stórmyndarlegur kunnur gæðingur og hlaut hann meteinkunnina 9,04 í aðaleinkunn og 9,12 fyrir hæfileika; afar fjölhæfur með frábæra ganghæfni. Þá var sýndur undan henni í sumar alhliða gæðingur sem heitir Viktor frá Skör, undan Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum en hann er með 8,67 fyrir hæfileika.
Fjórða í röð er Auður frá Hofi, undan Hróðri frá Refsstöðum og Kolfinnsdótturinni Perlu frá Hömluholti. Ræktandi og eigandi er Anton Páll Níelsson. Auður er með 118 stig og á sex dæmd afkvæmi. Auður var sjálf afar eftirminnileg; þurrbyggð og fínlega gerð með einkar háan fótaburð og virkjamikið skref og hlaut 9,5 fyrir fegurð í reið. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Ramóna frá Heljardal, undan Draupni frá Stuðlum með 9,0 fyrir fet og skeið. Þá er Björg frá Syðra-Holti undan Vilmundi frá Feti afar góð hryssa með 9,0 fyrir brokk og fegurð í reið.
Fimmta í röð er Varða frá Vestra-Fíflholti, undan Sæ frá Bakkakoti og Óðsdótturinni Von frá Vestra-Fíflholti. Varða er ein afar fárra hryssna til að ná heiðursverðlaunum án þess að vera dæmd sjálf og þarf töluvert til. Ræktandi er Þór Gylfi Sigurbjörnsson og eigandi er Gyða Rún Þórsdóttir. Varða er með 118 stig og á fimm dæmd afkvæmi. Tvær dætur hennar voru dæmdar í ár, þær Móheiður frá Vestra-Fíflholti undan Penna frá Eystra-Fróðholti og Fjörgyn undan Grun frá Oddhóli, báðar sérstaklega magnaðar. Móheiður hlaut 8,81 fyrir hæfileika; fjölhæfur gæðingur með 9,5 fyrir tölt og Fjörgyn er glæsileg klárhryssa með 9,0 fyrir tölt og fegurð í reið. Þá er Sæmd frá Vestra-Fíflholti undan Hróðri frá Refsstöðum eftirminnileg fyrir fallegt skref og mikinn fótaburð.
Í sjötta sæti er Blæja frá Lýtingsstöðum, undan Djáknari frá Hvammi og Björg frá Kirkjubæ en hún var undan Trostani frá Kjartansstöðum. Hún er með 117 stig og á fimm dæmd afkvæmi. Ræktendur eru Helgi Bjarni Óskarsson og Guðrún Arndís Eiríksdóttir og eigandi er Sigurður Sigurðarson. Blæja var sjálf vel gerð, fríð og mögnuð klárhryssa en hún hlaut 9,5 fyrir bæði tölt og fegurð í reið. Hæst dæmda afkvæmi Blæju er Rauða-List frá Þjóðólfshaga 1, dóttir Loka frá Selfossi; flugrúm, léttstíg og hágeng klárhryssa með 9,5 fyrir tölt og brokk, fegurð í reið og samstarfsvilja. Þá er Baldur frá Þjóðólfshaga 1 undan Kráki frá Blesastöðum 1A góður klárhestur með 9,0 fyrir tölt og brokk, hágengur og rúmur á gangi.
Í sjöunda sæti er Sunna frá Sauðanesi með 117 stig og fimm dæmd afkvæmi en þau eru öll með fyrstu verðlaun. Sunna er dóttir hin vindótta Glyms frá Innri-Skeljabrekku og Minningar frá Sauðanesi en hún var dóttir Fáfnis frá Fagranesi. Ræktandi og eigandi er Ágúst Marínó Ágústsson. Sunna er myndarleg, skrefmikil og jafnvíg alhliða hryssa. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Silfurskotta frá Sauðanesi, undan Ölni frá Akranesi, afar léttstíg og fluggóð alhliða hryssa með 8,88 fyrir hæfileika. Þá er Dáfríður frá Sauðanesi, undan Hring frá Gunnarsstöðum I feikn góð hryssa með 8,63 fyrir hæfileika.
Áttunda í röð er Raketta frá Kjarnholtum I, undan Glaði og Heru frá Kjarnholtum I, en Hera er þekkt gæðingamóðir. Raketta er með 116 stig og fimm dæmd afkvæmi. Ræktandi Heru er Magnús Einarsson og eigandi er Ragna Björnsdóttir. Raketta hlaut sjálf einkunnirnar 9,0 fyrir tölt og fegurð í reið. Hennar hæst dæmda afkvæmi er hinn heimsfrægi Kveikur frá Stangarlæk 1 undan Sjóði frá Kirkjubæ. Kveikur hlaut m.a. 10 fyrir tölt og samstarfsvilja og hefur nú þegar sannað sig sem afbragðs kynbótahestur. Þá er Hvellhetta frá Stangarlæk 1, undan Hrannari frá Flugumýri afbragðs mýktarhryssa með 9,5 fyrir tölt og 9,0 fyrir fegurð í reið.
Níunda í röð er Þórdís frá Leirulæk en hún er undan Ófeigi frá Þorláksstöðum og Daladísi frá Leirulæk, dóttur Hervars frá Sauðárkróki. Þórdís er með 116 stig og fimm dæmd afkvæmi. Ræktandi og eigandi hennar er Sigurbjörn Garðarsson. Þórdís var sjálf mýktar alhliða hryssa. Hennar hæst dæmda afkvæmi er Þórskýr frá Leirulæk en hann var á meðal efstu fimm vetra stóðhestanna í ár; frábær ganghestur með virkjamikið skref og flinkheit á tölti en hann hlaut 9,5 fyrir tölt og 9,0 fyrir hægt tölt og fegurð í reið. Þá er Blær sonur hennar og Arions frá Eystra-Fróðholti mýktar alhliða hestur með 8,5 fyrir tölt og 9,0 fyrir skeið.
Í tíunda sæti er Hvellhetta frá Ásmundarstöðum með 116 stig og fimm dæmd afkvæmi. Ræktandi er Sigríður Sveinsdóttir og eigandi er Nanna Jónsdóttir. Hvellhetta er undan Adami og Evu frá Ásmundarstöðum en Adam hlaut á sínum tíma heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Hvellhetta var sjálf reist og aðsópsmikil alhliða hryssa; hágeng og skrefmikil. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Hvelfing frá Ásmundarstöðum 3 undan Sjóði frá Kirkjubæ; það er frábær alhliða hryssa með 8,52 fyrir hæfileika. Þá var Hvelpa frá Ásmundarstöðum 3 sýnd í kynbótadómi á Landsmóti í sumar; grá að lit undan Jökli frá Rauðalæk, myndarleg og skrefmikil alhliða hryssa með 9.0 fyrir hægt tölt.
Ellefta í röð er Nýey frá Feti en hún er undan Orra frá Þúfu og Smáey frá Feti, dóttur Merkúrs frá Miðsitju. Nýey er með 115 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en 118 stig í aðaleinkunn án skeiðs. Ræktandi er Brynjar Vilmundarson og eigandi er Sveinbjörn Bragason. Nýey er stórmyndarleg hryssa sjálf, reist og fasmikil í reið með 9,0 fyrir tölt og fegurð í reið. Hennar hæst dæmda afkvæmi er Nútíð frá Flagbjarnarholti, dóttir Kiljans frá Steinnesi. Nútíð er einkar jafnvíg alhliða hryssa; engin einkunn í hæfileikum undir 8,5 og þá hlaut hún 9,0 fyrir skeið og samstarfsvilja. Þá er Forni frá Flagbjarnarholti feikn góður alhliða hestur og Kraflar sonur hennar og Gruns frá Oddhóli er stórmyndarlegur klárhestur.
Tólfta í röð er Ópera frá Nýja-Bæ með 115 stig og 116 stig í aðaleinkunn án skeiðs. Hún á átta dæmd afkvæmi og eru þau öll með fyrstu verðlaun. Hún er undan Huga frá Hafsteinsstöðum og Fiðlu frá Nýja-Bæ en hún var undan Létti frá Sauðárkróki. Ræktandi er Svínabúið Nýja- Bæ og eigandi er Austurás hestar ehf. Ópera er sjálf framfalleg og léttbyggð, sýndi prýðilega ganghæfni og hlaut 8,5 fyrir bæði vilja og fegurð í reið. Ópera hefur gefið nokkrar úrvals klárhryssur eða þær Kröflu, Flís og Garúnu, allar frá Austurási. Krafla er afar eftirminnileg með 9,5 fyrir tölt, afar fríð og falleg hryssa. Flís, undan Álfi frá Selfossi var einnig frábær með mikla mýkt og útgeislun. Þá voru tvær dætur hennar á Landsmóti í sumar; Garún fjögurra vetra með 9,0 fyrir höfuð og háls, tölt, stökk, samstarfsvilja og fegurð í reið, og Fylking, leirljós að lit og stórglæsileg með 9,0 fyrir höfuð, háls, tölt, samstarfsvilja og fegurð í reið.
Í þrettánda sæti er Heiðdís frá Hólabaki en hún er undan Rökkva frá Hárlaugsstöðum og Dreyru frá Hólabaki sem var undan Dreyra frá Álfsnesi. Ræktandi og eigandi er Björn Magnússon í Hólabaki. Hún er með 112 stig, 117 stig í aðaleinkunn án skeiðs og á nú fimm dæmd afkvæmi, öll með fyrstu verðlaun. Heiðdís var sjálf úrvals klárhryssa; fótahá og framfalleg með 9,0 fyrir tölt, stökk, vilja og fegurð í reið. Hennar hæst dæmda afkvæmi er Hamur frá Hólabaki undan Hersi frá Lambanesi en Hamur var fulltrúi Íslands á Heimsleikum í Berlín 2019; myndarhestur og mýktartöltari. Þá er Hugur frá Hólabaki útgeislunar klárhestur með 9,5 fyrir tölt og Hvinur frá Hólabaki alhliða hestur með 9,0 fyrir skeið. Heiðdís er að gefa afrekshross á gangi en Hugrún frá Hólabaki var sýnd í sumar, undan Kiljan frá Steinnesi og er það afar efnileg hryssa fimm vetra gömul.
Þá er í fjórtánda sæti hryssan Lilja frá Kirkjubæ en hún er undan Hrynjanda frá Hrepphólum og Leistu frá Kirkjubæ sem var undan Braga frá Reykjavík. Ræktandi Lilju er Kirkjubæjarbúið sf og eigandi er Blesi ehf. Lilja er með 108 stig í aðaleinkunn og 116 stig í aðaleinkunn án skeiðs. Lilja var fríð, reist og léttbyggð hryssa með 9,0 fyrir tölt og fegurð í reið. Hún hefur gefið stórmagnaðar klárhryssur. Má þar nefna Ísrúnu frá Kirkjubæ undan Álfi frá Selfossi og Ísafold frá Kirkjubæ undan Hágangi frá Narfastöðum. Þær eru báðar með 9,0 fyrir tölt og brokk og 9,5 fyrir fegurð í reið. Þá er dóttir hennar Ísabella undan Sigri frá Stóra- Vatnsskarði en hún var sýnd í afar efnilegan fjögurra vetra dóm í sumar.
Þetta er afar góður hópur hryssna sem hljóta heiðursverðlaun í ár en eigendur þeirra taka við viðurkenningum fyrir sínar heiðurshryssur á árlegri hrossaræktarráðstefnu fagráðs í hrossarækt sem haldin verður í reiðhöllinni í Víðidal laugardaginn 12. október.