Heimsmeistarafyrirlestur, verðlaunaveitingar og veisluhlaðborð

  • 17. nóvember 2023
  • Fréttir

Fjölmargir ungir Sprettarar tóku þátt á Íslandsmóti barna og unglinga síðasta sumar og stóðu sig með miklum sóma. Þau voru heiðruð sérstaklega fyrir sína þátttöku á Íslandsmóti á uppskeruhátíð barna og unglinga í Spretti.

Uppskeruhátíð barna og unglinga í Spretti

Uppskeruhátíð barna og unglinga fór fram í veislusal Spretts í Samskipahöllinni fimmtudaginn 16.nóvember. Boðið var upp á þriggja rétta kvöldverð, ungir Sprettarar voru heiðraðir og í lok kvöldsins fóru allir heim með gjafapoka. Mjög góð mæting var á hátíðina sem er merki um öflugt starf æskulýðsnefndar Spretts.

Ungir Sprettarar voru heiðraðir fyrir árangur þeirra á árinu og fengu afhentar glæsilegar innrammaðar og merktar ljósmyndir sem teknar voru á keppnisvellinum.

Dagskráin var þétt skipuð. Þórdís Anna Gylfadóttir, yfirþjálfari yngri flokka félagsins, sagði frá hápunktum í starfi vetrarins og hvað væri framundan á næsta ári. Þórdís nefndi m.a. að á liðnum vetri voru um 30 knapar á aldrinum 2-9 ára að stunda hestamennsku og sóttu námskeið á vegum félagsins, skemmtilegt hafi verið að sjá ný andlit mæta á viðburði og hittinga en eftir því hafi sérstaklega verið óskað að börn og unglingar fengu fleiri hittinga án hesta. Samstarf við barna- og unlingaráð sem og ungmennaráð Spretts hafi verið einkar gefandi og skemmtilegt og björt væri framtíð ungra Sprettara.

Herdís Björg Jóhannsdóttir var sérstaklega heiðruð af ungum Spretturum fyrir heimsmeistaratitil í tölti ungmenna á HM2023. Með henni á myndinni er Þórunn Hannesdóttir, formaður æskulýðsnefndar Spretts.

Elva Rún Jónsdóttir formaður barna- og unglingaráðs Spretts sagði frá starfi ráðsins, hverju þau hefðu verið að vinna að og hugmyndum þeirra fyrir framtíðina. Elva nefndi m.a. að helsta markmið þeirra væri að betrumbæta félagslífið hjá yngri flokkunum í Spretti og hafa meira gaman saman. Elva sagði frá bíókvöldum, opnum tímum í reiðhöllinni, heimsókn til Jóhönnu Margrétar Snorradóttur, undirbúningi og fjáröflun fyrir Svíþjóðarferð sem verður farin 30.nóvember og umsókn til Menntamálaráðuneytis um að halda hestasýningu fyrir börn og unglinga til kynningar á hestaíþróttinni.

Elva Rún Jónsdóttir, formaður barna- og unglingaráðs Spretts, sagði frá starfi ráðsins í vetur og hvað væri framundan.

Herdís Björg Jóhannsdóttir, heimsmeistari í tölti ungmenna, flutti skemmtilegan og fróðlegan fyrirlestur um heimsmeistaramóts ævintýri sitt. Hún sagði frá þegar hún byrjaði í hestamennskunni, hvað hafi heillað hana við hestana, þegar hún setti sér markmið að komast á heimsmeistaramót og svo frá keppninni á heimsmeistaramótinu sjálfu. Frábær fyrirlestur hjá þessari ungu og efnilegu hestakonu. Herdís var að loknum fyrirlestri heiðruð af ungum Spretturum fyrir frábæran árangur hennar á Heimsmeistaramótinu.

Sprettarinn Herdís Björg Jóhannsdóttir heimsmeistari í tölti ungmenna sagði ungum Spretturum frá heimsmeistaramóts ævintýri sínu

Hvatningarverðlaun Spretts eru veitt ungum Spretturum sem hafa tekið þátt í starfi félagsins með einum eða öðrum hætti, hafi sýnt af sér kurteisi innan vallar sem utan, eru að stíga sín fyrstu skref í keppni eða sýnt góðar framfarir í sinni reiðmennsku. Þrír ungir Sprettarar hlutu Hvatningarverðlaun Spretts árið 2023 en það voru þau; Elena Ást Einarsdóttir hefur verið dugleg að sækja námskeið á vegum Spretts og sýnt framfarir í sinni reiðmennsku. Hún hefur verið dugleg að taka þátt í sameiginlegum fjáröflunarviðburðum. Hún er jákvæð, dugleg og til fyrirmyndar innan vallar sem utan. Halldór Frosti Svansson tók m.a. þátt í þrautabrautar- og leikjadegi Spretts og sigraði þar þrautabrautina eftirminnilega. Halldór er mikill stuðbolti, jákvæður og hress, sem gaman er að vera í kringum.
Guðrún Margrét Theodórsdóttir hefur sýnt framfarir í sinni reiðmennsku, tekið þátt á námskeiðum og sækir viðburði á vegum félagsins. Guðrún er prúð, kurteisi og til fyrirmyndar innan vallar sem utan.

Hvatningarverðlaun Spretts 2023 hlutu, f.v. Guðrún Margrét Theodórsdóttir, Halldór Frosti Svansson og Elena Ást Einarsdóttir.

Allir ungir Sprettarar sem tóku þátt á Íslandsmóti barna og unglinga sem haldið var á Hellu dagana 13.-16.júlí voru heiðraðir. Fjölmargir ungir Sprettarar tóku þátt og stóðu sig með miklum sóma.
Apríl Björk Þórisdóttir tók þátt í fjórum greinum og hlaut m.a. silfur í gæðingalist og brons verðlaun í fjórgangi, tölti og slaktaumatölti í barnaflokki.
Elva Rún Jónsdóttir tók þátt í tveimur greinum í unglingaflokki og hlaut m.a. silfur í tölti og fjórgangi, auk þess að sigra gæðingatölt sem var gestagrein.
Guðný Dís Jónsdóttir tók þátt í fjórum greinum, og hlaut m.a. brons í gæðingaskeiði og 4.sæti í fjórgangi unglinga.
Herdís Björg Jóhannsdóttir tók þátt í fjórum greinum í unglingaflokki og varð m.a. Íslandsmeistari í gæðingaskeiði unglinga og 4.sæti í 100m skeiði og gæðingalist. Hún varð einnig Íslandsmeistari ungmenna í tölti sem tryggði henni sæti í íslenska landsliðinu og varð svo heimsmeistari í tölti ungmenna.
Hulda Ingadóttir tók þátt í fjórgangi og gæðingaskeið í unglingaflokki með góðum árangri.
Jóhanna Sigurlilja Sigurðardóttir tók þátt í fjórgangi og varð í 4.-5.sæti, gæðingalist í 3.sæti, reið til úrslita í slaktaumatölti og einnig reið hún til úrslita í bæði gæðingakeppni og gæðingatölti sem voru gestagreinar.
Kári Sveinbjörnsson reið til úrslita í tölti í barnaflokki og varð í 5.sæti.
Kristín Rut Jónsdóttir tók þátt í tölti og varð í 2.sæti og sigraði gæðingatölt barna, sem var gestagrein.
Ragnar Bjarki Sveinbjörnsson tók þátt í fjórgangi og fimmgangi með góðum árangri og reið til úrslita í slaktaumatölti í unglingaflokki og varð í 9.sæti.
Ragnar Dagur Jóhannsson tók þátt í tveimur keppnisgreinum með góðum árangri.
Þorbjörg Helga Sveinbjörnsdóttir í þremur keppnisgreinum með góðum árangri.
Þórdís Agla Jóhannsdóttir tók þátt í fjórum keppnisgreinum með góðum árangri.

Heiðraðir voru þeir knapar sem hafa skarað fram úr á keppnisvellinum.

Í barnaflokki, drengir, var stigahæstur Kári Sveinbjörnsson. Kári hefur verið vaxandi knapi síðastliðin ár. Hann hefur verið í hestamennsku síðan hann var 3 ára gamall en keppnisferllinn er í raun nýhafinn. Honum gekk vel á keppnisárinu 2023 þar sem hann keppti aðallega á Nýey frá Feti og komst í úrslit á öllum þeim mótum sem þau tóku þátt í saman. Hæst stendur úrslitasæti í tölti á Íslandsmóti og sigur á íþróttamóti Mána í T7.

Í barnaflokki, stúlkur, voru tveir knapar jafnir að stigum. Báðar áttu þær frábæru gengi að fanga á tímabilinu. Þær eru Jóhanna Sigurlilja Sigurðardóttir og Apríl Björk Þórisdóttir.

Jóhanna Sigurlilja er jákvæð, samviskusöm og fylgin sér. Hún er duglegur knapi sem sinnir hrossum af einstakri natni og eftirtekt. Sigurlilja ríður mikið út, sækir námskeið í Spretti og þjálfar hestana sína sjálf. Hún er til fyrirmyndar innan vallar sem utan og góður félagsmaður í Spretti. Jóhanna Sigurlilja sigraði fjórgang á íþróttamóti Spretts og varð önnur í tölti. Hún varð önnur í fjórgangi á Reykjavíkurmeistaramóti, Hún varð önnur í bæði tölti og fjórgangi á WR móti Sleipnis, varð 3ja í gæðingalist og í 4.-5.sæti í fjórgangi á Íslandsmóti.

Apríl Björk Þórisdóttir er metnaðarfullur knapi, hún hugsar vel um hestana sína og leggur sig fram við að laða það besta fram í þeim á sanngjarnan hátt jafnt við þjálfun sem og í keppni. Hún var dugleg að sækja námskeið og viðburði hjá félaginu á árinu. Apríl varð í 2.sæti í fjórgangi og 3.sæti í slaktaumatölti á íþróttamóti Spretts. Hún varð samanlagður sigurvegari í fjórgangsgreinum á Reykjavíkurmeistaramóti ásamt því að ríða til úrslita í fjórgangi og tölti. Á Íslandsmóti reið hún til úrslita í tölti, fjórgangi og slaktaumatölti.

Stigahæst í barnaflokki 2023 voru, f.v. Apríl Björk Þórisdóttir, Jóhanna Sigurlilja Sigurðardóttir og Kári Sveinbjörnsson.

Í unglingaflokki, drengir, var Ragnar Bjarki Sveinbjörnsson með besta keppnisárangurinn fyrir árið 2022, líkt og í fyrra. Ragnar Bjarki hefur stundað hestamennsku frá unga aldri og hann hefur tekið þátt í Meistaradeild æskunnar sl. 3 ár. Ragnar er prúður knapi bæði innan vallar sem utan. Ragnar sigraði slaktaumatölt unglinga og varð þriðji í fimmgangi á íþróttamóti spretts, hann reið til úrslita á Reykjavíkurmeistaramóti í slaktaumatölti og fimmgangi. Hann var einnig í úrslitum á Íslandsmóti barna og unglinga í slaktaumatölti.

Í unglingaflokki, stúlkur, var Herdís Björg Jóhannsdóttir með besta keppnisárangurinn fyrir árið 2023, líkt og í fyrra. Herdís er metnaðarfullur knapi. Hún er skipulögð og fylgin sér og er alltaf að reyna að bæta sig og verða betri knapi og hestakona. Stærstu sigrar Herdísar á árinu voru Íslandsmeistaratitill í gæðingaskeiði unglinga, Íslandsmeistari í tölti ungmenna og heimsmeistari í tölti ungmenna.

Stigahæst í unglingaflokki 2023 voru Herdís Björg Jóhannsdóttir og Ragnar Bjarki Sveinbjörnsson. Með þeim á myndinni er Gunnar Már Þórðarson, stjórn Spretts.

Ungir Sprettarar eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér! Glæsilegur hópur ungra og efnilegra knapa sem hestamannfélagið Sprettur býr yfir. Þakka ber Æskulýðsnefnd Spretts fyrir frábært framlag þeirra til félagsins en í nefndinni eru Þórunn Hannesdóttir formaður, Erla Magnúsdóttir og Inga Berg Gísladóttir.

Mjög góð mæting var á hátíðina sem er merki um öflugt starf æskulýðsnefndar Spretts.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar