„Hélt í vonina um að allt myndi fara vel á endanum“

  • 29. apríl 2024
  • Fréttir

Apollo frá Haukholtum og Daníel Jónsson á kynbótasýningu á Sörlastöðum. Ljósmynd: Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir

Stóðhesturinn Apollo frá Haukholtum var felldur í gær eftir erfið veikindi undanfarna mánuði.

Ég á ekki mörg hross þannig að ég tengist þeim sem ég á mjög sterkum böndum. Apollo var einstakur karakter og fyrir mér var hann meira en bara hestur,“ segir Vilborg Smáradóttir eigandi Apollo sem þurfti í gær að taka þá erfiðu ákvörðun um að fella hestinn eftir mjög erfið veikindi síðastliðna mánuði.

Apollo var fæddur árið 2012 og var því 12. vetra gamall. Ræktendur hans eru Magnús Helgi Loftsson og Daníel Jónsson. Apollo er stórættaður undan þeim Arion frá Eystra-Fróðholti og Eldingu frá Haukholtum. Hann hlaut 4. vetra gamall 8,26 í aðaleinkunn og þar af 9,0 fyrir tölt, fegurð í reið og samræmi. Sinn hæsta dóm hlaut hann 5.vetra gamall, 8,76 fyrir sköpulag, þar af 9,5 fyrir samræmi, og 8,63 fyrir hæfileika, þar af 9,5 fyrir tölt og hægt tölt. Í aðaleinkunn hlaut hann 8,68 en hann var sýndur af Daníel Jónssyni í kynbótadómi.

Allt reynt til að bjarga honum

Eins og áður segir að þá hafði Apollo glímt við erfið veikindi síðastliðna mánuði sem enduðu með því að baráttunni við þau var tapað í gærmorgun. Um þau hafði Vilborg þetta að segja í samtali við Eiðfaxa.

„Í desember síðastliðnum fór ég að greina vanlíðan í hestinum. Hann var ósáttur í reiðtúrum og fljótlega varð hann svo mjög daufur, sérstaklega inni í stíu og leit ekki við fóðri. Hann fór þá í magaspeglun um miðjan desember og kom í ljós magasár sem var þá meðhöndlað á venjulegan hátt með magalyfi klukkustund fyrir morgun- og kvöldgjöf.“ 

„Í byrjun janúar virtist allt vera að komast á rétt ról. Klárinn var aftur orðinn líkur sér í stíu, farinn að borða vel og biðja um þá athygli sem honum fannst honum yfirleitt sæma. Það var svo í kringum 10. janúar sem hann veikist heiftarlega af veirusýkingu og lá í hálfgerðu móki í sólarhring með mjög háan hita. Upp úr því fékk hann bráða hófsperru og nánast hætti að éta. Til viðbótar við meðhöndlun við magasárinu var því farið að meðhöndla hófsperru og að reyna að finna út úr því hverju hægt væri að koma ofan í hann.“ 

„Næstu þrír mánuðir einkenndust því af því að finna upp á einhverju sem hann vildi éta þó að það væri í stutt tímabil í senn og svo að taka á hitaköstum sem komu til annað slagið. Hann var kominn yfir hófsperru einkennin í febrúar lok en lystarlítill og erfitt að koma í hann fóðri og næringarefnum sem þurfti til. Undir það síðasta var melting og ónæmiskerfi greinilega komið í verulegt ólag og þrátt fyrir þá miklu trú mína að græna grasið mundi bjarga honum dugði ekki sú vika sem hann hafði á grænu í Mýrdalnum til að koma honum aftur í gang. Það var þó frábært að sjá hvað hann var ánægður með að fá að kroppa í grænt og eiga svæðið útaf fyrir sig. Það leit meira að segja svo út síðustu þrjá dagana að allt væri að komast á eðlilegt ról þar til það varð ljóst þegar ég kom að honum í gærmorgun að þetta væri allt búið.“ 

Það er nokkuð ljóst að allt var reynt til þess að koma Apollo í gegnum þessi veikindi en allt kom fyrir ekki. Afkomendur hans munu halda heiðri hans á lofti en hann á alls 197 afkvæmi skráð í WorldFeng og þar af hafa 12 hlotið fullnaðardóm í kynbótadómi og lofa góðu fyrir framhaldið. Apollo stefndi hraðbyri á 1.verðlaun fyrir afkvæmi á komandi Landsmóti.

Eftir svona mikla umönnun síðastliðna mánuði styrkjast böndin ennþá meir, maður leggur allt í sölurnar og heldur í vonina um að allt fari vel og heldur í drauminn um það að maður komist aftur í reiðtúr á þessu magnaða tölti sem Apollo bjó yfir. Ég átti mér markmið um að hann næði 1. verðlaunum fyrir afkvæmi í sumar. Það er því auðvitað stór biti að kyngja að baráttan sé töpuð og ég er búin að vera mjög aum yfir þessu. Ég er þó sérstaklega þakklát Söndru dýralækni sem var mín stoð og stytta í gegnum þetta ferli og dóttur minni henni Tinnu sem stóð vaktina með mér við aðhlynningu á Apollo.“ 

Apollo á beit í Mýrdalnum, heimaslóðum Vilborgar.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar