Herkúles til Þýskalands

  • 14. janúar 2020
  • Fréttir
Herkúles frá Ragnheiðarstöðum var í byrjun vikunnar fluttur til Þýskalands þar sem núverandi eigendur eru búsettir.

Herkúles er tíu vetra gamall og er hann undan þeim Álfi frá Selfossi og Hendingu frá Úlfsstöðum. Herkúles hefur staðið sig vel jafnt á keppnisvellinum sem og kynbótabrautinni. Hann hlaut í sínum hæsta dómi 8,70 fyrir sköpulag þar af einkunnina 9,0 fyrir háls,herðar og bóga, samræmi, fótagerð og prúðleika, 8,31 fyrir hæfileika þar af 9,5 fyrir vilja og geðslag og 9,0 fyrir tölt, brokk, stökk og fegurð í reið. Aðaleinkunn hans er 8,47, sem er feyki gott fyrir klárhest.

Þá hefur hann farið vel af stað sem kynbótahestur en af átta sýndum afkvæmum í fullnaðardómi hafa sjö hlotið 1.verðlaun. Herkúles var í A-úrslitum í B-flokki á síðasta landsmóti og hefur einnig staðið sig vel í íþróttakeppni.

Eiðfaxi setti sig í samband við Helga Jón Harðarson, ræktanda Herkúlesar.
„Herkúles er nú farinn til Þýskalands þar sem núverandi eigendur ætla sér að nota hann í keppni og þá er hann einnig hugsaður til undaneldis, enda hafa afkvæmi hans verið að koma vel út í kynbótadómi. Það verður mikill söknuður hjá okkur fjölskyldunni af þessum höfðingja enda mikill karakter. Hann skilur þó eftir sig fjöldan allan af afkvæmum hér á landi sem spennandi verður að fylgjast með. Hending móðir hans hefur reynst okkur vel í ræktun og má segja að hún sé gulls ígildi fyrir okkur þar sem hún hefur skilað, að okkar mati, glæsilegum klárhrossum. Má þar nefna Herjólf frá Ragnheiðarstöðum, sem seldist einungis 6.vetra gamall. Þá virðast dætur Hendingar ætla að skila fasmiklum klárhrossum líka því Orra dóttirin Hrund frá Ragnheiðarstöðum hefur verið að skila áhugaverðum hrossum og má þar nefna Hrönn og Ísey. Ég á sjálfur fimm afkvæmi undan Herkúlesi á tamningaaldri og fæ því að njóta hans áfram í gegnum þau. En eins og hrossaræktendur vita að þá er það í hlutarins eðli að þurfa að selja eitthvað af sínum gripum. Ég óska nýjum eigendum til hamingju með Herkúles og hlakka til að fylgjast með þróun hans á meginlandinu.“

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<