Hestavísur hafa fylgt þjóðinni um langa tíð

  • 25. mars 2020
  • Fréttir

Myndin tengist fréttinni ekki beint en hún er úr Hestinum okkar.

Alþjóðlegur dagur ljóðsins fór fram þann 21.mars síðastliðin. Blaðamaður Eiðfaxa er seinfær og láðist því að birta ljóð hér á síðum Eiðfaxa við það tilefni en úr því skal bætt núna.

Hestamenn hafa í gegnum tíðina þótt skáldmæltir og er þá yrkisefnið oftar en ekki hesturinn eða þá ferðir eða aðrir viðburðir honum tengdir.

Í hestinum okkar er að finna margar snilldar vísur  og verða nokkrar þeirra birtar hér á vefnum næstu daga.

Séra Arnór Þorláksson prestur á Hesti (dáinn 1913) orti reiðhestslýsingu, sem bæði er snjöll og gagnleg hverjum hestamanni. Þar er drepið á flest þau einkenni, sem hestamenn telja, að þurfi að prýða hinn sanna gæðing og hljóðar hún svona:

Ég vil fá mér ungan hest,
allt hann hafi, sem er bezt
fákum hjá og metið mest,
mun það talið hérna flest.

Höfuð frítt hann hafa á,
hýran svip og létta brá,
augu snör og eyru smá
iði og rísi til og frá.

Hann skal vera hálslangur
hryggstuttur og lendabrattur,
hnútubreiður, beinfættur,
brjóstamikill, hárprúður.

Vöðvamikill, vel hæfður,
vel litur og fallegur
tígulegur, töltgengur
taumléttur en fjörugur.

Líka sé hann léttstígur,
liðugur og geðgóður,
hnarreistur og hágengur
hreingengur og stöðugur.

Þá sé hann þýðgengur,
þolgóður og hugaður,
á öllum vegi ágætur
og allra hesta vakrastur.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar